Þrándur í Götu hefur ekki hlutverk hér

Þorsteinn Pálsson:
Evrópusambandið og sjávarútvegurinn.
Sjávarútvegsráðstefnan 14. október 2011.
              

Þrándur í Götu hefur ekki hlutverk hér

 Áhöld um aðild Íslands að Evrópusambandinu lúta að víðtækari hagsmunum en svo að unnt sé að meta þau út frá einu tilteknu sjónarhorni. Hér er verið að fjalla um pólitíska- og efnahagslega stöðu Íslands í heimi mikilla og örra breytinga. Sjávarútvegurinn þarf því að horfa á viðfangsefnið með þjóðinni allri.

Alþjóðasamstarf er nauðsynlegt

Þjóðum er nú meiri þörf á að tryggja pólitíska stöðu sína í veraldarsamfélaginu en nokkru sinni fyrr. Einnig er ljóst að nútíma samskipti ríkja byggja í vaxandi mæli á alþjóðlegum reglum. Þær þjóðir sem vilja halda virku sjálfstæði sínu og verja athafnafrelsi einstaklinganna komast ekki hjá þátttöku í þessari þróun.

Upphaflega trúðu menn að unnt væri að tryggja fullveldi landsins og öryggi með einfaldri hlutleysisyfirlýsingu. Sagan kenndi okkur að það dugði skammt. Reynslan sýndi einnig að tvíhliða viðskiptasamningar eru of flóknir til að tryggja það frelsi í viðskiptum sem allar framfarir hvíla nú á.

Í þessu ljósi mótaðist utanríkisstefnan um og eftir miðbik síðustu aldar og í því hefur hún þróast síðan.

Grundvöllur utanríkisstefnunnar

Þannig tryggðum við öryggi þjóðarinnar og pólitíska hagsmuni með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það var ákvörðun um að Ísland yrði aðili að öflugasta bandalagi þjóða Vestur Evrópu og Norður Ameríku. Síðar kusum við samleið með Bretum og Norðurlandaþjóðunum í Fríverslunarsamtökum Evrópu.

En tímarnir hafa breyst. Atlantshafsbandalagið er ekki lengur pólitísk þungamiðja og Evrópuþjóðirnar sem mynduðu þessi samtök eiga nú flest aðild að Evrópusambandinu. Þar er nú þungamiðja í samstarfi þeirra þjóða er næst okkur standa.

Með Evrópska efnahagssvæðissamningnum stigum við stórt skref inn í það samstarf. Full aðild er því ekki stefnubreyting heldur rökrétt framhald þeirrar grundvallarstefnu í utanríkismálum sem mótuð var fyrir sex áratugum.

Engin atvinnugrein í landinu hefur notið meiri ávaxta af þessari utanríkispólitík en sjávarútvegurinn. Bæði pólitíska hliðin og viðskiptahliðin hafa skipt þar miklu máli.

Fjölbreytni er forsenda hagvaxtar

Í áratugi hefur öllum verið ljóst að einhæf verðmætasköpun dygði ekki til að standa undir nauðsynlegum hagvexti og kröfum um velferð og menntun.

Reyndar hafa forystumenn í sjávarútvegi lengst af litið á það sem sameignlega hagsmuni að breikka undirstöður verðmætasköpunarinnar í landinu. Ekki bara af hugsjónaástæðum. Þeir sáu sem var að einhæft atvinnulíf myndi smám saman leggja þyngri byrðar á sjávarútveginn til að standa undir velferðarkerfinu og hann myndi ekki rísa undir þeim kröfum til frambúðar.

Veruleikinn er sá að of hægt hefur miðað í viðleitni til að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Við höfum átt erfitt með að draga erlenda fjárfesta að landinu, nema á þeim sviðum þar sem þeir geta starfað óháðir hagkerfi íslensku krónunnar.

Mikill meirihluti iðnaðar-og tækniútflutnings er frá fyrirtækjum sem gera reikninga sína upp í erlendri mynt. Um helmingur útfluttra sjávarafurða kemur frá fyrirtækjum sem nota erlendar myntir við reikningsuppgjör. Jafnvel Landsvirkjun getur ekki notað ríkismyntina.

Engri annarri sjálfstæðri mynt í heiminum er vantreyst meir en íslensku krónunni af þeim sem skapa verðmætin heima fyrir. Öll vitum við svo að hún er ekki gjaldgeng á erlendum mörkuðum.

Þegar horft er á auðlindirnar blasir Þrennt við: Fiskistofnar eru fullnýttir. Það eru vaxtarmöguleikar í frekari orkunýtingu en þeim eru þó takmörk sett. Við þurfum því vöxt í öðrum atvinnugreinum. Hann kallar á að almenn samkeppnisskilyrði jafnist á við það sem best þekkist og hér ríki sambærilegur stöðugleiki. Takist ekki að skapa þessar aðstæður drögumst við einfaldlega aftur úr.

Það er úrslitaatriði fyrir sjávarútveginn að slík sókn til aukinnar fjölbreytni takist. Fari hún út um þúfur þarf að binda sjávarútveginum þyngri bagga en hann ræður við til að standa undir velferðinni. Atvinnugreinin er þegar farin að finna fyrir því. Það er því ekki aðeins samfélagsleg ábyrgð sem kallar á að sjávarútvegurinn horfi á þetta viðfangsefni með þjóðinni í heild. Hrein eiginhagsmunasjónarmið leiða til sömu niðurstöðu.

Að loka augunum fyrir því sem skrifað er á vegginn í þessum efnum skaðar sjávarútveginn, þjóðarbúskapinn og velferðarkerfið í landinu til lengri tíma litið. Hér er því þörf á frjórri hugsun til þess að finna leiðir sem sameginlega geta styrkt Ísland. Í því viðreisnarstarfi hefur Þrándur í Götu sannarlega engu hlutverki að gegna.

Frá pólitísku sjónarhorni sjá flestir að virkari þátttaka í Evrópusamstarfinu er skynsamleg. Myndin kann að vera flóknari frá sjónarhorni efnahagslífsins. Á móti kemur að enginn hefur bent á aðrar leiðir til að tryggja það samkeppnisumhverfi sem líklegt er að leiði af sér meiri fjölbreytni og vöxt á öðrum sviðum en nú bera uppi þjóðarbúskapinn.

Góð reynsla af alþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi

Ísland hefur góða reynslu af alþjóðlegu samstarfi í gjaldeyrismálum. Á fyrstu árum síðustu aldar var Ísland aðili að Norræna myntbandalaginu. Það var forsenda fyrir erlendu hlutafé í bankastarfsemi hér og skapaði það lánstraust sem leiddi til mestu nýsköpunar í sögu landsins með fjárfestingum í sjávarútvegi og þeirrar atvinnubyltingar er færði Ísland inn í nútímann.

Á viðreisnarárunum varð Ísland virkur aðili að Bretton-Woods gjaldmiðlasamstarfinu þar sem breytingar á gengi lutu mjög hörðum reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einhliða ákvörðunarvald Íslands var takmarkað að sama skapi. Einmitt við þær stöðugleikaaðstæður tókst að semja um fyrstu erlendu fjárfestinguna í áliðnaði hér á landi. Þannig hófst nýtt sóknartímabil.

Hækkun á verðgildi krónunnar á fyrsta áratug þessarar aldar stafaði ekki af óvild stjórnenda Seðlabankans í garð útflutningsgreina eins og halda mætti ef rökréttar ályktanir væru dregnar af málflutningi þeirra sem ákafast tala gegn erlendu myntsamstarfi.

Markaðsöflin voru einfaldlega sterkari en fullveldisyfirráð Seðlabankans. Eins réði vantraust á markaði meir um hrun krónunnar en ásetningur Seðlabankans að hjálpa útflutningsatvinnuvegunum með því að setja fjárhag heimila og fyrirtækja í rúst.

Gengishrunið fjölgaði verðminni krónum í bókhaldi þeirra útflutningsfyrirtækja sem nota ríkismyntina í reikningsuppgjöri. Það hefur hins vegar ekki aukið útflutning. Til þess að svo megi verða þarf grundvallarbreytingar á samkeppnisumhverfinu. Það markmið kallar á nýja viðreisnaráætlun og virkara alþjóðlegt samstarf.

Nákvæmlega þetta sá Jóhannes Nordal í byrjun viðreisnar fyrir fimmtíu árum þegar hann skrifaði „að þátttaka í Efnahagsbandalaginu mundi gefa Íslendingum ný og ómetanleg tækifæri til að byggja upp nýjar framleiðslugreinar.“ Fyrir tuttugu árum sagði hann „að nokkur ár hlytu að líða áður en Íslendingar gætu oriðið aðilar að formlegu gengissamstarfi Evrópuþjóða.“ Þessi orð segja þá sögu að í meira en hálfa öld hefur þekking og reynsla vísað veginn í þessa átt.

Veigamikil skref hafa verið stigin til að tryggja þessa hagsmuni. En því fer hins vegar fjarri að okkur hafi tekist að treysta samkeppnishæfni landsins eins og þörf er á. Það gerist ekki sjálfkrafa með aðild að Evrópusambandinu. Á hinn bóginn getur hún auðveldað okkur að ná því marki og verja þá stöðu til lengri tíma. Aðildin er þannig umgjörð um ríka pólitíska og efnahagslega hagmsuni.

Þá er spurt: En setja þeir gríðarlegu erfiðleikar sem evruríkin glíma nú við ekki strik í reikninginn? Svarið er: Jú. Við þurfum að haga viðræðunum í samræmi við þá stöðu. Þau ár sem við höfum til stefnu gefa okkur ráðrúm til þess.

Stundarerfiðleikar breyta hins vegar ekki þeim langtímahagsmunum sem eru í húfi. Jafnvel þó að allt færi á versta veg í Evrópu er blekking að halda að við stöndum þá betur að vígi ein og sér heldur en í sambandi við þær þjóðir sem starkastar eru í álfunni.

Sameiginlega sjávarútvegsstefnan

Þegar við höfum komist að þessari niðurstöðu er rétt að spyrja: En hvað um fiskveiðiréttindin? Er ekki til lítils unnið ef þau falla í hlut útlendinga? Svarið við þeirri spurningu er afdráttarlaust: Jú, það væri of mikil fórn.

Um leið verða menn að hafa í huga að staðhæfingar um að landhelgin fyllist af erlendum fiskiskipum eru hræðsluáróður en ekki veruleiki. Þar er verið að beita sömu málflutningsbrögðum og nýtt voru í andófinu gegn öllum fyrri skrefum okkar til aukinnar þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þau reyndust fölsk.

Á grundvelli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika höldum við öllum fiskveiðiréttindum yfir staðbundnum stofnum. En við þurfum sérlausnir innan ramma sameiginlegu fiskveiðistefnunnar til að tryggja þá stöðu varanlega. Það er stóra viðfangsefnið. En svarið fáum við ekki nema við látum á það reyna. Ef viðunandi niðurstöður fást ekki verða engir samningar undirritaðir.

Í dag er staðan sú að háværustu andstæðingar aðildar ganga lengra en talsmenn sambandsins í því að fullyrða að þetta sé ekki unnt. Ómálefnalegt er að birgsla þeim um að skipa sér hinu megin við samningaborðið til að semja þar við sjálfa sig.

En hitt er augljóst að það geta ekki verið hagsmunir sjávarútvegsins að taka á viðfangsefninu með þessum hætti. Þeir almennu hagsmunir sem þjóðarbúskapurinn í heild og þar með sjávarútvegurinn hefur af því að þetta takist kalla á jákvætt viðhorf og vilja til að taka virkan þátt í að finna lausnir.

Varðandi veiðar úr sameiginlegum stofnum höfum við að öllu óbreyttu skyldur til samstarfs eftir alþjóðlegum reglum. Þar höfum við engan einhliða rétt. Þvert á móti erum við skuldbundnir til að semja eftir alþjóðlegum viðmiðunum. Evrópusambandið fer hins vegar með þessi mál fyrir aðildarríkin.

Við mat á á þeim aðstæðum erum við í sumum tilvikum í sterkari einir og sér. Í öðrum tilvikum getum við haft styrk af því að beita Evrópusambandinu fyrir okkur gegn þriðju ríkjum. Óvíst er að hér halli mikið á þegar upp er staðið. En með því að við höfum bæði skilgreint okkur sem strandveiðiríki og úthafsveiðiþjóð getur samkvæmni í röksemdafærslu verið flókin í báðum tilvikum.

Skoðanir manna á erlendri fjárfestingu skiptast eftir nokkuð öðrum línum en til aðildar. Margir andstæðingar aðildar vilja fjárfestingafrelsi og reyndar heyrast slík viðhorf innan greinarinnar.

Í Danmörku hefur reynslan sýnt að frjáls fjárfesting með búsetuskilyrðum hefur fullkomlega tryggt að efnahagslegir hagsmunir sjávarútvegsins eru órofa tengdir landinu.

Kjarni málsins

  • Sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar og sjávarútvegsins eru þeir að auka verðmætasköpun með stöðugleika og fjölþættara atvinnulífi.
  • Aðildin að Evrópusambandinu er rökrétt leið að því marki og sú auðveldasta.
  • Þjóðhagslega hagkvæm fiskveiðistjórnun var sterkasta vopnið í viðræðunum. Gjörbreytt sjávarútvegsstefna hefur þegar veikt stöðu Íslands og dregið málið á langinn.

 

24. October 2011