Skortur á íhaldssamri hugsun

Þorsteinn Pálsson:
Ræða á ráðstefnu Íslandsbanka 1. október 2010.

 

Fyrir ári ákvað meirihluti Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í núverandi ríkisstjórn sitja tveir stjórnmálaflokkar. Báðir greiddu atkvæði með.

Annar flokkurinn, Vinstri grænt, lýsti því hins vegar yfir að hann myndi vinna af alefli gegn aðild þegar hún kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu því að aðild væri andstæð þjóðarhagsmunum.

Forseti Íslands gerir samninga við erlend ríki og situr í öndvegi þess ríkisráðs sem á grundvelli ákvörðunar Alþingis hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Hann var í heimsókn í Kína fyrir nokkrum dögum.

Þar sagði forseti Íslands að Íslendingar yrðu að velta því fyrir sér hvers kyns klúbbur þetta Evrópusamband væri. Þar væru á fleti fyrir óvinveittar þjóðir eins og Bretar og Hollendingar sem ætluðu að kúga Íslendinga með ólögmætum fjárkröfum vegna Icesavereikninga.

Þar sem forseti Íslands var staddur í Kína bað hann guð jafnframt að blessa pólitíska minningu Brown fyrrum forsætisráðherra Stóra Bretlands sem beitt hefði hryðjuverkalögum til að fella íslenska bankakerfið.

Mikilvægustu hagsmunirnir sem Ísland þarf að verja í aðildarsamningum við Evrópusambandið eru í sjávarútvegi. Fyrir skömmu lýsti sjávarútvegsráðherrann því yfir að hann ætlaði ekki að vinna að framgangi þessara samninga sem Alþingi hefur samþykkt að vinna að.

Af því tilefni spurði einn af þingmönnum Sósíaldemókrata, hins stjórnarflokksins, hvort ekki væri tilefni til að ákæra sjávarútvegsráðherrann fyrir Landsdómi.

Þegar stjórnendur þessa banka báðu mig að tala hér um stöðuna í íslenskum stjórnmálum leit ég svo á að hlutverk mitt væri að sannfæra ykkur um að hér búi þjóð sem, þrátt fyrir allt, er pólitískt heilbrigð. Með öðrum orðum: þjóð sem aðrar þjóðir geta treyst í viðskiptum og stjórnmálalegum samskiptum.

Ég vona að þið skiljið af þeim dæmum sem hér hefa verið nefnd úr nútíðinni að auðveldara er að nálgast viðfangsefnið frá sjónarhóli sögunnar.

Á barnaskólaárum mínum var sú sögukenning ríkjandi að Íslendingar hefðu á nítjándu öldinni einir og sér risið upp gegn nýlendukúgurum sínum Dönum. Þegar ákafi þjóðernishyggjunnar dvínaði lærðist okkur að skilja að þjóðfrelsishreyfing Íslendinga á þeim tíma var borin uppi á öldufaldi evrópskra frelsisstrauma.

Á fyrstu tveimur áratugum síðustu aldar varð bylting í atvinnuháttum á Íslandi. Landið breyttist úr fátæku landbúnaðarsamfélagi í stórútgerðarþjóð. Þá hófst vegferð frá fátækt til bjargálna.

Okkur var kennt að allt væri þetta því að þakka að við fengum heimastjórn frá Dönum 1904. Seinna lærðum við að það var bara hálfur sannleikurinn.

Margt annað skipti máli. Á þeim tíma var íslenska krónan hluti af myntbandalagi Norðurlanda. Hér var því unnt að treysta á fjármálalegan stöðugleika. Viðskipti voru frjáls og litlar takmarkanir á erlendri fjárfestingu.

Þessar aðstæður leiddu til þess að Íslandsbanki var stofnaður fyrir meira en öld með erlendu hlutafé. Þannig var fótunum komið undir íslenska útgerð. Án erlends fjármagns hefði lítið hreyfst.

Upphafið að efnahagslegum framförum landsins má þannig rekja til veru Íslands í erlendu myndtbandalagi og frjálsra viðskipta.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina var myntsamstarfið úr sögunni. Erlendar fjárfestingar voru takmarkaðar. Í heimskreppunni voru höftin innleidd. Þjóðin var fjármálalega einangruð.

Svo kom seinni heimsstyrjöldin. Á árunum fyrir hana skrifaði rithöfundurinn W.H. Auden bók um veru sína hér á landi. Hann kom hér aftur á miðjum sjöunda áratugnum og spurði gamlan íslenskan vin hvernig lífið hefði verið í styrjöldinni. Vinurinn svaraði: „We made money.“

Þegar styrjöldinni lauk voru gjaldeyrisvarasjóðir landsins fleytifullir. Peningarnir voru notaðir til að endurnýja fiskiskipaflotann með fullkomnustu togurum þess tíma.

Áður en seinni hluti tuttugustu aldar gekk í garð var búið að eyða stríðsgróðanum sem hleypt hafði nýjum vaxtarkipp í þjóðarbúskapinn.

Þegar hér var komið stóð lítil nýfrjáls þjóð í stóru landi á krossgötum. Forystumenn hennar þurftu að svara tveimur stórum spurningum.

Sú fyrri var: Hvernig hagkerfi á að vera í þessu landi? Sú seinni var: Hver á staða landsins að vera í alþjóðasamfélaginu? Þjóðernishyggja nítjándu aldarinnar réðu nokkru um það hvernig menn nálguðust svör við þessum spurningum.

Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar reyndum við að halda í hlutleysið af því við áttum viðskiptahagsmuna að gæta í Þýskalandi. Við vildum heldur að Bretar tækju landið hernámi en semja við þá um hervernd.

Eftir styrjöldina var framsýnum forystumönnum ljóst að með tvískinnungi af þessu tagi yrði hvorki unnt að tryggja stöðu landsins pólitískt né viðskiptalega. Þrír lýðræðisflokkar sameinuðust þá gegn sósíalistum um að Ísland skyldi þiggja boð um að gerast stofnaðili að NATO.

Þetta voru grundvallarumskipti. Þjóð sem var svo hlutlaus að hún gat ekki gerst stofnaðili að SÞ fáum árum fyrr skipaði sér nú í sveit með þjóðum sem ætluðu að verja lýðræði og viðskiptafresli. Ísland hafði í fyrsta skipti gert upp við sig hvar það ætti heima í alþjóðasamfélaginu.

Þessi ákvrörðun styrkti stöðu Íslands pólitískt. Hún hafði einnig jákvæð efnahagsleg áhrif. Ný pólitísk staða opnaði ný viðskiptatækifæri.

Mun erfiðara reyndist að ná pólitískri samstöðu um að hverfa frá haftaráðstöfunum kreppuáranna. Það var fyrst 1960 að vöruinnflutningur var að hluta til gefinn frjáls. Allt annað var áfram undir höftum. Fiskútflutningur var jafnvel ekki gefinn frjáls fyrr en í byrjun tíunda áratugsins.

Undir forystu Sjálfstæðisflokks og Sósíaldemókrata gekk Ísland í EFTA 1970 og innri markaðinn með EEA samningnum 1992.

Við lentum í vandræðum þegar norræna myntbandalagið leið undir lok og við lentum aftur í vandræðum þegar alþjóðlega peningamálasamstarfið kennt við Bretton Wood brotnaði í fyrstu olíukreppunni. Þá kom óðaverðbólga í tvo áratugi. Í reynd höfum við haft tvo gjaldmiðla í þrjátíu ár: Krónuna og verðtryggðu krónuna.

Þannig reyndist miklu erfiðara að svara spurningunni hvers kyns hagkerfi við vildum þróa.

Í byrjun síðustu aldar mótaðist flokkakerfið af mismunandi sýn á leiðir til að ljúka sjálfstæðisbaráttunni. Um 1930 er nútíma flokkakerfi hugmyndafræði og hagsmuna fullmótað.

Framsóknarflokkurinn byggði á samvinnuhugsjóninni og hagsmunagæslu fyrir bændur. Hann tók þátt í ríkisstjórnum ýmist til hægri eða vinstri. Að meðaltali var hann á miðjunni og hafði sterka valdastöðu af þeim sökum.

Sósíaldemókratar urðu aldrei jafn stórir hér og á Norðurlöndunum því að Kommúnistaflokkurinn náði strax miklum áhrifum í verkalýðshreyfingunni. Kommúnistar þróuðust með nafnbreytingum yfir í sósíalískan þjóðernisflokk.

Þessir tveir flokkar sameinuðust um síðustu aldamót. Lítið brot lengst til vinstri í sósíalistaflokknum tók þó ekki þátt í samrunanum. Þeir, Vinstri grænt, eru nú minni en áhrifameiri flokkurinn í fyrstu hreinu vinstri stjórninni á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn varð til við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslyndaflokksins. Hann hafði ítök í öllum atvinnugreinum og all sterka stöðu í verkalýðshreyfingunni. Hann varð strax stærsti flokkurinn og var af svipaðri stærð og sósíaldemókratar á hinum Norðurlöndunum.

Praktísk sjónarmið og persónuleg tengsl hafa eftir seinni heimsstyrjöld ráðið meir en hugmyndafræði um samstarf flokka í ríkisstjórn. Það skýrir meðal annars hversu erfitt reyndist að skjóta hugmyndafræðilegum stoðum undir hagkerfið.

Hvers vegna hrundi efnahagskerfið 2008? Ef ég vissi svarið væri ég sennilegast bankastjóri þessa banka en ekki fyrirlesari.

Forystumenn Vinstri græns með fjármálaráðherrann í broddi fylkingar eiga skýr svör. Þeir segja einfaldlega að óheftur kapitatalismi hafi verið orsökin. Sósíaldemókratarnir bergmála þetta sjónarmið.

Foystumenn stjórnarandstöðuflokkanna tveggja taka ekki undir þessa kenningu. Þeir segja að mistök hafi verið gerð án ítarlegra útskýringa.

Meirihluti þjóðarinnar trúir þeim sem ekki báru pólitíska ábyrgð á árunum fyrir hrunið.

En er rökrétt samhengi milli þess að hafa verið án ábyrgðar fyrir hrun og hafa rétt fyrir sér um pólitíska hugmyndafræði eftir hrun? Ég efast um það og víst er að ekkert sjálfkrafa samband er þar á milli.

Pólitíkin á árunum fyrir hrun skpti forystumönnum í atvinnulífinu í fylkingar góðra manna og vondra. Menn voru ekki dæmdir eftir því hvað þeir gerðu heldur eftir því hverjir þeir voru. Allir flokkar tóku þátt í þessu.

Afstaða margra til stórra pólitískra viðfangsefna eins og stefnunnar í peningamálum réðist af því hvernig tengja mátti mismunandi sjónarmið við hópa góðra manna eða vondra í forystu atvinnulífsins.

Með öðrum orðum: Það var tími skorts á stefnufestu og skýrri hugmyndafræði.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lækkaði skatta verulega. Til þess var hún dyggilega studd af Sósíaldemókrötum í stjórnarandstöðu og að mestu einnig af Vinstri grænu. Ríkisstjórnin jók á sama tíma verulega opinber útgjöld. Stjórnarandstöðuflokkarnir vildu ganga enn lengra í þeim efnum.

Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan horfðu á vaxandi viðskiptahalla. Á hvorugum vængnum gáfu menn því gaum að þetta var hægt vegna þess að þjóðin í heild var að auka lántökur langt umfram verðmætasköpun og margfalt meir en nokkur önnur þjóð.

Hér réðu mest skammtíma vinsældaráðstafanir. Í reynd hljóp ofvöxtur í sósíalísk úrræði ekki síður en frjálslynd. Hrunið skýrist af því að enginn fylgdi eftir þeirri íhaldshugmyndafræði sem nauðsynleg er til að tryggja stöðugleika.

Í hugmyndafræðilegu ljósi varð hrunið þannig vegna skrots á íhaldssamri hugsun. Aðeins einn þingmaður í Sjálfstæðisflokknum var talsmaður þeirra sjónarmiða á árunum fyrir 2007. Hann hét Einar Oddur Kristjánsson.

Efnahagsáætlun AGS sem samið var um í tíð fyrri ríkisstjórnar í nóvember 2008 byggist alfarið á klassískum íhaldsúrræðum. Sú stefna er nú framkvæmd af VG sem talað hefur gegn íhaldsstefnunni af mestum þunga í áratugi.

Þið getið sagt sem svo að þetta sýni betur en flest annað að vandi íslensku þjóðarinnar sé af pólitískt geðrænum toga. Með jákvæðu hugarfari má hins vegar halda því fram að einmitt í þessari staðreynd geti hugsanlega falist nokkur von.

Vandinn er hins vegar sá að ríkisstjórnin hefur ekki öruggan meirihluta fyrir þessum íhaldsúrræðum. Eftir eitt ár mun AGS sleppa af okkur hendinni. Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan hafa upplýst þjóðina um hvert á að stefna þegar AGS er farinn.

Fjármálaráðherrann hefur þó tilkynnt að fjárlög næsta árs verði þau síðustu þar sem íhaldssöm viðhorf móti stefnuna. Veruleg óvissa er því um ríkisfjármálastefnuna eftir 2011.

Sósíaldemókratar vilja aðild að Evrópusambandinu og stefna að því að Ísland taki upp evru. Vinstri grænt er á móti hvoru tveggja.

Flokkarnir leystu þennan ágreining með því að utanríkisráðherra var falið að sækja um aðild. Það var skammtíma ávinningur fyrir Sósíaldemókrata. Vinstri grænt fórnaði peði en fékk sterkari stöðu á taflborði valdanna á eftir.

Sósíaldemókratar urðu að sætta sig við að samstarfsflokkurinn myndi vinna gegn aðild eftir að umsókn hefði verið lögð fram og umsóknrferlið yrði þannig án pólitískrar forystu af hálfu ríkisstjórnarinnar í heild.

Sósíaldemókratar urðu einnig að fallast á að samstarfsflokkurinn hindraði alla erlenda fjárfestingu í orkufrekum iðnaði sem endurgjald fyrir aðildarumsóknina. Þar af leiðandi náum við ekki þeim hagvexti sem efnahagsáætlun AGS gerði ráð fyrir.

Þegar bankarnir féllu áttum við öflugan sjávarútveg. Trúlega þann hagkvæmasta í Evrópu; 5% vinnuaflsins skapa 40% gjaldeyristeknanna. Stjórnkerfi fiskveiða hefur byggst á markaðslausnum. Núverandi ríkisstjórn er að breyta þessu og stefnir að því að félagsleg markmið leysi markaðlögmálin af hólmi.

Fyrir vikið mun sjávarútvegurinn ekki verða sú öfluga undirstaða við endurreisn efnahagslífsins sem hann hefði ella orðið.

Þá er líklegt að reynt verði að breyta núverandi gjaldeyrishöftum í einhvers konar reglur með öðru nafni. Fullkomlega frjáls gjaldeyrisviðskipti eru ekki líkleg í næstu framtíð að öllu óbreyttu. Það veikir efnahagslífið.

Enginn leið er að bera núverandi aðstæður saman við annan tíma. Eigi að síður stöndum við nú á tímamótum eins og eftir síðari heimsstyrjöldina og þurfum að svara sömu stórum spurningunum um framtíðina:

1)Hvar á Ísland heima í alþjóðasamfélaginu í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar? 2) Hvers kyns hagkerfi ætlum við að þróa eftir efnahagshrunið?

Um miðja síðustu öld höfðum við pólitískan styrk til að svara annarri af þessum spurningum með afgerandi hætti. Vegna skorts á hugmyndafræðilegri fótfestu er hætt við að erfiðara verði að svara þessum spurningum nú.

Mestu skiptir sú breyting að Sjálfstæðisflokkurinn sem áður var einhuga í forystu fyrir vestænni samvinnu er nú klofinn og meirihlutinn fylgir nú í þessu efni Vinstri grænu sem alla tíð hefur leitt andstöðuna við vestræna samvinnu.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins styður sósíalista einnig í því að nauðsynlegt sé að hafa sveigjanlega mynt til að færa fjármuni frá almenningi til fyrirtækja.

Grundvallarágreiningur er hins vegar á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri græns í skattamálum og orkunýtingarmálum.

Þeir Sjálfstæðismenn sem ákafast styðja Vinstri grænt í andstöðu við Evrópusmbandið hafa þó komið til móts við andstöðu þeirra við orkunýtingu og erlenda fjárfestingu. Líta verður á það sem tækifærismennsku.

Eigi að koma til samstarfs milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri græns þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn væntanlega að kaupa slíkt samstarf hærra verði með frávikum frá stefnu sinni en Sósíaldemókratar hafa gert. Slíkt samstarf er því ólíklegt.

Samstarf Sjálfstæðisflokks og Sósíaldemókrata er ekki líklegt eins og sakir standa. Fyrir því eru tvær ástæður: Annars vegar ágreiningur um Evrópusambandið og hins vegar gagnkvæmt persónulegt vantraust.

Sósíaldemókratar munu fremur fórna Evrópusambandsstefnunni fyrir Vinstri grænt en Sjálfstæðisflokkinn. Það gæti orðið niðurstaðan eftir kosningar 2013 ef illa fer.

Eigi sú staða að breytast þarf þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem syðja Evrópusambandsaðild að fjölga eða nýr flokkur að verða til hægra megin við miðju sem styddi aðild. Enn eru engin alvöru merki um slíka breytingu.

Eigi að síður verður að telja líklegt að hún muni eiga sér stað með einum eða öðrum hætti. Annað væri merki um viðvarandi grundvallarbreytingu á viðhorfi fólks á miðju og hægri væng stjórnmálanna.

Smám saman mun koma í ljós að pólitískir og efnahagslegir hagsmunir þjóðarinnar kalla á að slíkt jafnvægi verði á ný að veruleika í íslenskum stjórnmálum.

Núverandi ríkisstjórn mun mjög ólíklega leiða aðildarviðræðurnar til lykta. Það gerist ekki nema með öflugri forystu fyrir því máli frá miðjunni og hægri væng stjórnmálanna.

Eins og eftir seinni heimsstyrjöldina þurfum við að stíga ný skref til að treysta stöðu landsins í alþjóðasamfélaginu. Aðildin að Evrópusambandinu er rökrétt skref og í bestu samræmi við þau grundvallarviðhorf sem ráðið hafa utanríkisstefnunni í sex áratugi.

Annar kostur er að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína sem er í boði. Forseti Íslands og sumir helstu talsmenn andstöðunnar við Evrópusambandið ræða þennan möguleika í alvöru. Hann myndi útiloka Evrópusambandsaðild og samám saman einangra landið frá helstu viðskiptaþjóðum okkar í Evrópu.

Fyrir utan augljós pólitísk rök fyrir nánari tengslum við Evrópu er mikilvægt fyrir Ísland að fá áður en of mörg ár líða stöðugri mynt en krónan getur nokkru sinni orðið.

Íslenskt atvinnulíf er of einhæft. Aðild að Evrópusambandinu skapar möguleika til að hefja nýja sókn fyrir fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi. Landsbyggðin á Íslandi hefur lengi verið í vörn. Nú eru tækifæri til að sækja þar fram á fleiri sviðum.

Síðustu sjö áratugi höfum við fengið þrjár ósjálfbærar innspýtingar í hagkerfið: Fyrst stríðsgróðann, síðan rányrkju fiskimiðanna í tvo áratugi og loks stjórnlausar lántökur á þessari öld. Framtíðina þarf hins vegar að byggja á sjálfbærum stöðugum vexti.

Forsætisráðherra Sósíaldemókrata hefur beðið þjóðina afsökunar á því að flokkur hans skuli hafa smitast af Blairisma og hugmyndafræði New Labor. Leiðtogar Vinsti græns hafa lýst því yfir að með myndun núverandi ríkisstjórnar hafi kapitalisminn verið jarðaður endanlega.

Þetta er hugmyndafræði stöðnunar.

Vinstri grænt hefur pólitísk undirtök í stjórnarsamstarfinu. Horfurnar til skamms tíma eru þær að ríkisstjórnin færist meira til vinstri og óróleikinn eykst. Sterk staða Vinstri græns helgast ekki af því að almenningur hafi í stórum stíl snúist til sósíalisma.

Mestu ræður að þeir eru eini flokkurinn sem ekki ber ábyrgð á stórn landsns fyrir hrunið. Þeir sem ábyrgðina báru hafa ekki unnið til traustsins á ný.

Það sem Ísland þarf er efnahagskerfi byggt á frjálsum viðskiptum og velferð með hæfilegum skammti af íhaldssemi sem kjölfestu. Evrópusambandið er rammi um slíka pólitíska málamiðlun. Ísland á heima í þeirri málamiðlun. Hún myndi auðvelda hægri og miðjuöflum í stjórnmálum að vinna aftur það traust sem galtaðist í hruninu.

Með vissum hætti má segja að með aðild að Evrópusambandinu nú væri Ísland að stíga inn í svipað umhverfi og hér var í byrjun síðustu aldar þegar atvinnubyltingin og sóknin til bættra lífskjar hófst.

Þá kölluðu þarfir atvinnulífsins á skilvirka heimastjórn. Nú kalla þarfir atvinnulífsins á alþjóðlegar lausnir varðandi samkeppnisreglur, umhverfi og neytendavernd.

Þá var aðild að norrænu myntbandalagi forsenda trausts og erlendrar fjárfestingar. Nú er aðild að evrópsku myntbandalagi forsenda trausts og erlendrar fjárfestingar.

Þá voru viðskipti án hafta forsenda nýrrar framþróunar. Nú eru viðskipti án hafta einnig forsenda nýrrar atvinnuþróunar.

Þær yfirlýsingar sem ég vitnaði til í byrjun sýna að sönnu alvarlegan pólitískan óstöðugleika. En þær þurfa ekki að vera sönnun um varanleg pólitísk veikindi. Þetta eru eftirköst hrunsins. Sá óstöðugleiki mun jafnast smám saman eftir því sem stjórnmálaöfl nær miðju stjórnmálanna ávinna sér traust á ný.

Með vissum hætti má segja að enn sé hugmyndafræðilegt tómarúm á miðju og hægri væng stjórnmálanna eftir hrunið.

En eftir eðli náttúrulögmálanna er aðeins spurning um tíma hvenær það fyllist. Þá náum við jafnvægi á ný í íslensk stjórnmál og stöðugleika í efnahagslífið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

28. October 2010