Þreföld áramótaklípa

Þverstæðurnar sem við stöndum andspænis við þessi áramót endurspeglast ágætlega í vali Frjálsrar verslunar og Fréttablaðsins á mönnum sem sköruðu framúr í atvinnulífinu á liðnu ári.

Frjáls verslun kaus að heiðra athafnamann sem flutt hefur peninga frá útlöndum til fjölþættrar uppbyggingar í heimabyggð sinni. Fréttablaðið útnefndi á hinn bóginn snjallan hugvitsmann sem tókst að selja ungt upplýsingatæknifyrirtæki til útlanda. Í báðum tilvikum er verið að sæma verðuga framtakssemi og nýsköpun.

Annars vegar eru þessir árlegu atburðir góð lexía um hversu miklu framtak og hugvit ráða um vöxt og viðgang atvinnulífsins og sköpun nýrra starfa. Hins vegar eru þeir sterk áminning um hversu mikilvægt er að jafna samkeppnisstöðu atvinnulífsins við það sem best gerist í grannlöndunum.

Framhlið þessara útnefninga er björt. Hún gefur tilefni til uppörvunar. Bakhliðin er dekkri. Hún sýnir þær takmarkanir sem fylgja gjaldmiðli sem er verðlaus utan landsteinanna.

Til þess að draga erlent fjármagn til fjárfestinga hér hafa menn neyðst til að innleiða ívilnanir af ýmsu tagi sem sumir geta nýtt sér en aðrir ekki. Þannig er unnt að fá afslátt af krónum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og fá afslátt af sköttum og opinberum gjöldum með sérstökum samningum við stjórnvöld. Mismunun af þessu tagi lýsir feysknum undirstöðum sem duga ekki til frambúðar.

Gjaldeyrishöftin hafa aftur á móti leitt til þess að bestu sprotafyrirtækin eru yfirleitt seld úr landi um leið og þau eiga möguleika á að skapa útflutningstekjur.

Helsta eftirvænting nýs árs er því það fyrirheit ríkisstjórnarinnar að leysa Ísland úr þessari klípu.

Launaleiðrétting fremur en launabót  

Kjarasamningar eru í brennidepli um þessi áramót. Jöfn samkeppnisstaða við útlönd er forsenda fyrir því að slíkir samningar skili raunverulegum bótum á lífskjörum. Þetta tvennt verður því ekki slitið úr samhengi meini menn eitthvað með talinu um sömu lífskjör og grannríkin bjóða.

Launabætur í þeirri merkingu að launafólk fái hærri laun greidd í raunverulegum verðmætum þurfa að eiga sér stað í verðmætasköpun og framleiðniaukningu. Þeim er sniðinn stakkur eftir vexti.

Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hafa barist fyrir launabótum af þessu tagi um skeið. Þetta er þung þraut sem kallar á samhæfingu á stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum og aðila vinnumarkaðarins í kjarasamningum. Sú samhæfing hefur ekki tekist. Það er helsta áhyggjuefnið um þessi áramót.

Launaleiðréttingar eru í eðli sínu allt annar hlutur þó að gert sé út um þær í kjarasamningum. Þær eru sjaldnast ákveðnar í einhverjum tengslum við efnahagslegar framfarir. Þeim eru því lítil takmörk sett í sjálfu sér. Hækka má laun við einn starfshóp í krónum talið til jafns við annan heima eða erlendis nokkurn veginn að vild. Verðgildi hverrar krónu minnkar bara.

Með ákveðinni einföldun má segja að munurinn á launabót og launaleiðréttingu sé að launabótina greiða fyrirtækin á grundvelli framleiðniaukningar en launaleiðréttinguna borga launamenn oftast nær úr eigin vasa í gegnum verðbólgu.

Læknar ákváðu að sækja launaleiðréttingu fremur en launabót og munu fá hana. Talsmenn verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði tala nú í vaxandi mæli um launaleiðréttingu fremur en launabót. Það er stefnubreyting.

Launaleiðrétting er að því leyti einfaldari fyrir fyrirtækin en launabót að launþegar greiða hana yfirleitt sjálfir. En verðbólgan bítur fyrirtækin illa. Hún bítur þó almennt launafólk verr og láglaunafólk verst.

En þetta er sú framtíð sem við blasir um þessi áramót. Úr þeirri kví þurfa menn að brjótast á nýju ári.

Utanríkispólitísk þögn

Það er ekki aðeins mikilvægt að tengja saman stefnuna í efnahagsmálum og kjaramálum. Hitt er ekki síður brýnt að móta utanríkisstefnuna í samræmi við þau efnahagslegu markmið sem sett eru. Þær þjóðir sem ekki gera það dragast einfaldlega aftur úr öðrum.

Meðan atvinnulífið hefur ekki sömu stöðu og grannþjóðirnar til að bæta framleiðnina verður ásetningurinn um samkeppnishæft heilbrigðiskerfi líka draumsýn.

Við þessi áramót vekur furðu að hvorki leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna né stjórnarandstöðunnar sjá ástæðu til að tengja saman framtíðarsýn um viðreisn þjóðarbúskaparins og samvinnu við aðrar þjóðir í efnahags- og peningamálum.

Eigi að draga ályktanir af áramótaboðskapnum mætti ætla að samstaða sé um að Ísland hafi ekki utanríkispólitík og óþarft sé með öllu að ræða markmið um frekari samvinnu við aðrar þjóðir á þessum sviðum.

Það hefur margt áunnist eftir hrun. Mestur árangur varð af efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún var grundvöllur viðspyrnunnar. Forystuflokkur núverandi ríkisstjórnar lagði eins og kunnugt er til að því samstarfi yrði slitið.

Framsókn virðist nú hafa náð þeim árangri að samstaða virðist vera um að þegja um utanríkispólitíkina. Þetta er ekki aðeins efnahagslega háskalegt heldur einnig pólitískt hættusamt. Þessa þögn þarf því að rjúfa á nýju ári.

2. January 2015