Viðreisn Landspítalans

 

Viðreisn Landspítalans

Sú fjölskylda er tæpast til í landinu sem ekki stendur með einhverjum hætti í þakkarskuld við Landspítalann. Umræður um málefni hans eru því einatt blandnar ríkum tilfinningum. Það er bæði kostur og galli.

Vel má vera að fjölmiðlaumræða um málefni Landspítalans nái eyrum almennings betur en margt annað vegna sterkra tilfinningatengsla. Vandinn er á hinn bóginn sá að úrlausn viðfangsefnanna verður ekki slitin frá þeim kalda efnahagslega veruleika sem við búum við á hverjum tíma.

Starfsemi nútíma sjúkrahúss byggir á þremur stoðum: Fólki,tækjum og húsnæði. Nú er svo komið að þverbrestir hafa myndast í öllum þessum þremur undirstöðum. Við getum ekki boðið samkeppnishæf laun við grannlöndin. Við höfum ekki efni á að fylgja tækniþróuninni nógu hratt eftir með tækjakaupum. Og við ráðum ekki við að endurnýja húsakostinn með sómasamlegu móti.

Samt er landið fleytifullt af peningum. Er þá ekki einfalt að forgangsraða betur? Að einhverju leyti má gera það. Rót vandans er þó mun dýpri. Á tvennt er að líta í því sambandi.

Eitt er að á móti barmafullum vogarskálum af peningum eru yfirfullar skálar skulda. Annað er að þrátt fyrir góðan hagvöxt skilar atvinnulífið ekki nógu miklum afgangi. Kostnaðurinn við sköpun verðmætanna er of mikill. Menn kalla það litla framleiðni. Í þeim efnum erum við nær Grikklandi en norrænu velferðarsamfélögunum sem við berum okkur saman við.

Þetta þýðir að viðreisn Landspítalans verður ekki slitin frá óhjákvæmilegum kerfisbreytingum sem miða að því að auka framleiðni í atvinnulífinu.

Ný hugsun

Vandamálin á Landspítalanum eru ekki nýi af nálinni. Of oft hefur verið barið í brestina með því að rýra verðgildi krónunnar. Það er hringekja sem aldrei stoppar og breytir litlu til lengri tíma. Nú eru brestirnir hins vegar orðnar stærri en áður. Framtíðarlausnin liggur því ekki í þessu gamla töframeðali. Það þarf nýja hugsun.

Áætlun um viðreisn allra meginstoða spítalans er mikilvæg. Hún þarf aftur að byggjast á víðtækum efnahagslegum kerfisbreytingum. Slíkir hlutir gerast ekki á einni nóttu. En því fremur er mikilvægt að byrja strax. Satt best að segja mega menn engan tíma missa. Vinstri stjórnin lokaði augunum fyrir ónógri framleiðni atvinnulífsins og núverandi stjórn hefur enn ekki opnað þau.

Forgangsröðun verkefna er annað ráð sem beita þarf samtímis. Þótt hún gerist ekki eins og hendi sé veifað er hún þó skjótvirkari en kerfisbreytingar. Deilur um nýja forgangsröðun verkefna verða óhjákvæmilegar. Hættan er því sú að á endanum kaupi menn tímabundinn frið með blekkingunni um verðminni krónu.

Frá hruni hafa framlög til Landspítalans verið skorin niður jafnt og þétt. Aftur á móti hafa framleiðslustyrkir til landbúnaðarins hækkað árlega á sama tíma samkvæmt vísitölu. Það væri breytt forgangsröðun að snúa þessu tafli við á næstu sex árum. Þannig mætti styrkja samkeppnisstöðu spítalans í baráttunni um þekkingu og fólk með krónum sem eru raunverulega til.

Breytt forgangsröðun af þessu tagi myndi síðan kalla á meiri samkeppni og frjálsari verslun með búvörur til að verja hag neytenda.

Landspítali eða Landsbanki

Sú hugmynd heyrir líka til breyttri forgangsröðun að flytja verðmæti hlutabréfa ríkisins í stóru bönkunum þremur yfir í nýbyggingar fyrir Landspítalann. Tvenns konar andmæli úr gagnstæðum áttum hafa komið fram gegn forgangsröðun af þessu tagi.

Á annað borðið róa þeir sem telja að heilbrigt fjármálakerfi byggist á fjárbindingu ríkisins í bönkum. Ekki verður þó séð að eini bankinn sem alfarið er í eigu ríkisins stjórnist af öðrum lögmálum en hinir. Þessi rök eru því svo léttvæg að ætla má að þorri kjósenda geti á það fallist að heilbrigðara sé að binda fjármuni skattborgaranna í Landspítala en Landsbanka.

Á hitt borðið róa þeir sem benda á að skynsamlegt sé að nota eignir ríkisins í bankahlutabréfum til að greiða niður skuldir og létta vaxtabyrðina. Þetta eru gild rök. Þau verða ekki auðveldlega blásin út af borðinu. Lækkun skulda er ekki síst í þágu velferðarkerfisins.

Álitaefnið er á hinn bóginn hvort hættan á hruni í þjónustu Landspítalans sé það mikil að það yrði dýrkeyptara en ávinningurinn af skjótari niðurgreiðslu skulda. Eðlilegt væri að greina þessa miklu áhættu og bera saman við ávinninginn af niðurgreiðslu skulda.

Landið þrífst ekki með þeirri óvissu sem nú ríkir um þjónustu Landspítalans í náinni framtíð. Margt hnígur því að þeirri niðurstöðu að það geti reynst þjóðhagslega hagkvæmt að breyta bankabréfum í sjúkrahús.

Svo er siðferðilega hliðin: Landspítalinn átti húsnæðispeninga sem fengust fyrir sölu hlutabréfa í Símanum. Þeir brunnu í hruninu. Var það minni forsendubrestur en vísitöluhækkun á húsnæðisskuldum einkaaðila?

  1. október 2014.
3. October 2014