Á Hanna Birna sér málsbót?

 

Í lekamálsumræðunni hefur gjarnan verið til þess vitnað að erlendis víki ráðherrar oftar vegna pólitískrar ábyrgðar en hér heima.

Í því samhengi er rétt að líta til þess að við athugun á pólitískri ábyrgð í grannríkjunum er í ríkari mæli en hér horft til undirbúnings ákvarðana og ráðgjafar sem ráðherrar fá. Tamílamálið í Danmörku snerist fyrst um pólitíska ábyrgð en síðar lagalega og er fyrir það frábrugðið lekamálinu. En í því máli réði mat á ráðgjöf embættismanna miklu um málalyktir.

Lítið hefur farið fyrir skoðun á þeirri ráðgjöf sem Hanna Birna Kristjánsdóttir fráfarandi innanríkisráðherra fékk í lekamálinu. Ef hún hefði fengið það hollráð að víkja þegar rannsókn á ráðuneyti hennar hófst og farið eftir því væri hún hugsanlega að taka við embætti á ný um þessar mundir. Þetta sýnir hversu þýðingarmikið getur verið að huga að þessum þætti.

Ekkert hefur komið fram um hvort ráðherrann fékk ráð frá ríkislögmanni eða embættismönnum ráðuneytisins. Á hinn bóginn liggur fyrir að ráðherra kallaði eftir ráðgjöf utan frá og fékk til þess fyrrum hæstaréttardómara. Það er í hæsta máta eðlilegt og bendir til að hugur ráðherrans hafi staðið til þess að komast hjá slíkum axarsköftum sem urðu henni að lokum að falli.

Köld ráð fremur en holl

Ráðherra á að geta treyst embættismönnum eitthundrað prósent. Fái hann sérstök ráð frá fyrrum hæstaréttardómara á hann að geta treyst þeim eitthundrað prósent betur. Ekki liggur fyrir hvenær hæstaréttardómarinn fyrrverandi kom fyrst að ráðgjöf í málinu né hver ráð hans nákvæmlega voru.

Þrjár greinar hans í miðopnu Morgunblaðsins gefa þó vísbendingar þar um. Í grein sem skrifuð var 8. ágúst ræðir hann um óvandaða blaðamenn og pólitíska andstæðinga og segir síðan: „Umboðsmaður Alþingis hefur með þessu nýjasta útspili sínu gerst liðsmaður í flokki þessara ófagnaðarmanna.“

Í grein frá 29. ágúst segir hann ennfremur um umboðsmann: „Sá sem fer fram með þessum hætti hlýtur að vera í annarlegum erindagerðum.“

Um ríkissaksóknara skrifar ráðgjafinn 19. ágúst: „Getur verið að sá embættismaður stjórnist af þörf fyrir þátttöku í aðgerðum sem talið er að geti komið ráðherranum illa en láti liggja hjá garði alls kyns brot á reglum um þagnarskyldu sem þjóna ekki þeim tilgangi?“

Meira en lítið kemur á óvart að þessar tilvitnanir sýnast vera nær spunatækni en lögfræðilegri ráðgjöf í hæsta gæðaflokki eins og ráðherra má vænta þegar fyrrverandi hæstaréttardómari á í hlut. Hafi ráðin verið af sama tagi og þessi skrif er hætt við að þau hafi verið köld fremur en holl.

Áður en endanlegur dómur er lagður á framgöngu fráfarandi ráðherra þarf að skoða atriði sem þessi. Líta verður til þess að ráðherra dómsmála í þessu tilviki var ekki löglærður.

Eru tengsl milli athafna og ráðgjafar?

Ráðherra ber að sönnu ábyrgð á athöfnum undirmanna sinna. Ef ekkert annað hefði komið til sögunnar en dómur yfir aðstoðarmanni er þó ekki endilega víst að ráðherra hefði þurft að axla ábyrgð með afsögn fyrir þá sök eina. Þar koma tvö önnur atriði til sögunnar sem lúta að athöfnum ráðherra sjálfs og þyngja ábyrgðina.

Annað eru þær athugasemdir sem ráðherra gerði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu sem annaðist rannsókn málsins í umboði ríkissaksóknara. Verulegur vafi þykir leika á hvort þær rími á annað borðið við grundvallarregluna um sjálfstæði ríkissaksóknara og lögreglu og á hitt borðið við stöðu ráðherra sem er undir rannsókn.

Hitt eru þau orð ráðherra að gera þyrfti sérstaka rannsókn á embætti lögreglustjórans og embætti ríkissaksóknara vegna framgöngu þeirra í þessu máli.

Láti ráðherra dómsmála í ljós það álit beint eiða óbeint að ríkissaksóknari stjórnist af einhverju öðru en því sem réttvísin krefst er tvennt til: Finni ráðherra orðum sínum stað þarf ríkissaksóknari að víkja. Finni ráðherra orðum sínum ekki stað þarf hann sjálfur að víkja. Eftir slík ummæli er útilokað að báðir geti setið áfram eigi traust að ríkja.

Kjarni málsins er sá að þessum tveimur atriðum í framgöngu ráðherra svipar mjög til þeirra sjónarmiða sem ráðgjafinn skrifaði í Morgunblaðið. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ráðherrann hafi stigið þessi skref á grundvelli ráðgjafar sem hann mátti treysta að væri hafin yfir allan lögfræðilegan vafa.

Athugun Alþingis á málinu þarf að taka til þessara atriða. Pólitísk ábyrgð er mikilvæg. Hún er hins vegar alltaf háð mati. Það mat hlýtur að vera strangara ef í ljós kemur að viðkomandi ráðherra hefur ekki sótt fagleg ráð eða virt þau að vettugi en mildara ef hann hefur fylgt ráðum sem hann mátti treysta; jafnvel þótt síðar komi fram að þau hafi ekki verið fagleg.

Í þessu ljósi er ekki útilokað að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi sér nokkra málsbót.

 

 

28. November 2014