Nútíminn í ljósi baráttu Jóns Sigurðssonar fyrir fullveldi og viðskiptafrelsi

Þorsteinn Pálsson:
Nútíminn í ljósi baráttu Jóns Sigurðssonar fyrir fullveldi og viðskiptafrelsi.
Ráðstefna Samtaka atvinnulífsins á Akureyri 25. mars 2011

 

Hvað er að vera Íslendingur. Ég á satt best að segja ekkert einhlítt svar við þeirri spurningu. Hvað sem því líður hafa Íslendingar verið í eins konar sjálfhverfri íhugun allt frá hruni krónunnar og falli bankanna. Sú æfing sýnist þó fremur hafa haft þann tilgang að skilgreina hvernig við erum öðruvísi en aðrar þjóðir en að finna út hverjir við erum og hverjir við viljum vera.

Á hátíðarstundum erum við þó ekki í vafa um að góðir Íslendingar eru þeir sem feta í fótspor Jóns Sigurðssonar forseta. Annað skilyrði til þess að teljast góður Íslendingur var lengi vel að sýna viðleitni til að tala íslensku eins og Jónas hafði skrifað í Fjölni og Konráð samþykkt.

Í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar eru þeir sennilega færri en fyrrum sem kappkosta í umræðu dagsins að sýna orsakasamhengi á milli góðrar íslensku og góðs Íslendings. Á allra færi er á hinn bóginn að setja sig í fótspor Jóns forseta og tala í nafni hugsjóna hans. Til að fullnægja því skilyrðið sýnist duga vel að vera á móti nánara samstarfi og dýpri samvinnu við aðrar þjóðir og önnur ríki.

Ég mótmæli, þýðir þá: Við mómælum allir þegar spurning vaknar um að Ísland skipi sér í sveit með öðrum þjóðum. Eigi víkja, þýðir þá: Sérhver málamiðlun við aðrar þjóðir er brot á sjálfstæði og fullveldi landsins. Þannig sýnist íslensk rétthugsun vera. Hinir, sem hugsa út fyrir þennan ramma, eru þý vondra afla. Fyrr á árum þý bandaríska auðvaldsins, nú Baugs og Brussel.

Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári samning við tvö ríki sem hafði að geyma málamiðlun í æði flóknu álitamáli um ábyrgð á sparifé. Góður Íslendingur gat ekki lýst hærra stigi fyrirlitningar á undirlægjuhættinum en spyrja hvort undirrita ætti á Hrafnseyri. Á sama tíma var greint frá ákvörðun yfirvalda um niðurskurð á búfé vestur á fjörðum. Enginn taldi þá ákvörðun ögrun við minningu foringjans mikla.

Þetta segir ekki aðra sögu en þá að eftir því sem tíminn hefur liðið hafa menn valið skírskotanir í hugsjónir og baráttumál frelsishetjunnar eftir þörfum. Spurningin er: Hvernig hefur þekkingin á skrifum og hugsjónum Jóns forseta flust frá einni kynslóð til annarrar. Eða öllu heldur: Er skírskotunin byggð á þekkingu eða ímynd? Rímar ímyndin í byrjun þessarar aldar við veruleikann á miðri nítjándu öld?

Eitt vitum við með vissu: Hugsjón Jóns forseta var svo sterk og áhrif hans svo rík að allar götur síðan hann sat í forsæti á Alþingi og í Bókmenntafélaginu hefur það verið hverjum málstað til styrktar að telja til skyldleika við hann. Hitt er svo sjálfstætt skoðunarefni hvort sá skyldleiki hefur hverju sinni verið sannur og ósvikinn.

Er hugsanlegt að menn telji til skyldleika við hugsjónir Jóns forseta þegar þeir í raun tala þvert gegn því sem hann sagði og gerði? Má vera að menn bregði nafni hans fyrir sig eins og skildi eða auglýsingamerki hver svo sem raunverulegur málstaður þeirra er? Nútími hverrar kynslóðar eftir daga Jóns hefur glímt við að svara slíkum spurningum.

Við höfum um þessar mundir ólíkar skoðanir á því hort Jón Sigurðsson hefði greitt atkvæði með Icesavesamningunum og þá ekki síður hinu hvort hann myndi greiða atkvæði með tillögu um að afturkalla umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er ekkert nýtt. Þegar Íslendingar tókust á um uppkast millilandanefndarinnar um nýja réttarstöðu Íslands 1908 töldu báðar fylkingar til skyldleika við hugsjónir Jóns forseta.

Þorvaldur Thoroddsen prófessor skrifar í Lögréttu þegar öld var liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar að það sé annars mjög einkennilegt að æsinga- og öfgamenn sem hafi verið mestir andstæðingar Jóns Sigurðssonar í stjórnmálum meðan hann lifði, og hafi verið honum oft óþæg fótakefli, séu nú búnir að stela honum látnum og veifi honum jafnan í kringum sig.

Valtýr Guðmundsson vitnar til þessara ummæla á sama tíma í Eimreiðinni og segir að engum, sem til þekki verulega, þyki þetta ofmælt. Hann telur að þetta hljóti að stafa af því að almenningi sé orðið svo ókunnugt um hinar sönnu skoðanir Jóns Sigurðssonar að fá megi menn til að trúa, þó að honum sé eignað jafnvel það sem hann hafði mestu skömm og óbeit á.

Hálfri öld eftir að þessar athugasemdir voru gerðar stóðu deilur um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og um varnarsamninginn við Bandaríkin. Andstæðingarnir beittu hugsjónum Jóns forseta óspart í ræðu og riti. Einar Olgeirsson skrifar í Rétt 1952 og lýsir þessum átökum sem einvígi milli íslensks anda, íslenskrar arfleifðar og íslensks frelsis annars vegar og amerísks auðs, amerísks hervalds og alls sem spillt er og rotið í íslensku þjóðlífi hins vegar.

Svo segir hann: „Úr þjóðfundarsalnum hljómar til vor rödd Jóns Sigurðssonar, svarið við útlendu ofbeldi, erlendri hersetu, tjáð af hiklausum huga þegar afturhald Evrópu hafði bælt niður frelsisbyltingar fólksins.“

Aðeins ári síðar skrifar hann í Þjóðviljann að Stalín látnum að einhverri stórbrotnustu ævi sem lifað hafi verið sé lokið. Fagnaðarefni sé að leiðtoginn skyldi hafa lifað að sjá hugsjónina svo sterka og volduga í veröldinni að engin auðvaldsöfl fái hana framar bugað.

Hér vaknar spurningin: Gat einn og sami maðurinn samtímis haft hugsjónir Jóns forseta og Stalíns að leiðarljósi lífs síns, og gert þær að áttavita fyrir þjóð sína, án þess að komast í mótsögn við sjálfan sig? Svo er spurning hvort hér megi vitna í Þorvald Thoroddsen og spyrja hvort Einar Olgeirsson hafi stolið Jóni forseta til að bæta ímynd Stalíns. Eða var það ef til vill öfugt að hann hafi stolið Stalín til að bæta ímynd íslensku frelsishetjunnar?

Andstæðingar aðildar Íslands að Fríverslunarbandalagi Evrópu vitnuðu títt í hugsjónir Jóns Sigurðssonar málstað sínum til stuðnings á sjöunda áratugnum. Það gerðu einnig þeir sem síðar beittu sér gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Og um þessar mundir eru helstu rök þeirra sem andvígir eru þátttöku Íslands í Evrópusambandinu og Efnahags- og myntbandalagi Evrópu að hún stríði gegn fullveldi landsins eftir skilgreiningu Jóns forseta.

Fáir halda því nú fram að í búð reynslunnar hafi fengist fullt verð fyrir þá kenningu að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningunum, Fríverslunarbandalaginu og Evrópska efnahagssvæðinu hafi strítt gegn hugsjónum Jóns Sigurðssonar. Þvert á móti finnast miklu fleiri sem álíta að reynslan hafi sýnt að þessar ákvarðanir hafi í engu farið gegn hugsjónum hans og jafnvel verið í ágætu samræmi við þær.

Í þessu ljósi sögunnar hljóta menn að velta fyrir sér hvort rétt sé að spyrja: Hafa þeir sem beita Jóni forseta gegn Evrópusambandinu nú í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar meira til síns máls en hinir sem stilltu honum upp gegn öllum öðrum skrefum til samvinnu Íslands við aðrar þjóðir á síðustu öld? Slíkri spurningu verður vitaskuld ekki svarað því að svarið er einfaldlega ekki til. Hitt er hollt, að glöggva sig á kenningum þess manns sem hafði svo mikil og afgerandi áhrif á hagi landsins og virða þær í ljósi síns tíma og bera saman við strauma og viðfangsefni samtímans.

Alkunna er að Jón Sigurðsson var helsti baráttumaður frjálsrar verslunar við allar þjóðir. Þess var minnst árið 1911 þegar hundrað ár voru frá fæðingu hans að hann lifði að sjá þá hugsjón verða að veruleika. Það sama ár minntust menn þess einnig að tvöhundruð ár voru frá fæðingu Skúla fógeta sem öðrum fremur hafði þau áhrif að verslunin opnaðist við alla þegna Danakonungs.

Þegar við nú lítum öld til baka sjáum við að í hátíðarræðum þetta ár var lofið um verslunarfrelsisbaráttuna hvergi sparað. En þegar þessi minningarhátið stóð sem hæst þótti stjórn landsins og Alþingi eigi að síður rétt að skipa nefnd til að rannsaka hvort tiltækilegt væri að auka tekjur landssjóðs með einkarétti á aðfluttum vörum svo sem tóbaki, steinolíu og kolum.

Mótsögnin við hugsjónir frelsishetjunnar virðist augljós. Það þýðir ekki að við höfum rétt til að dæma slíkar samþykktir sem óþjóðhollar eða að þeir sem á þeim báru ábyrgð hafi verið ógóðir Íslendingar. Þetta kennir okkur fyrst og fremst að þegar á þessum tíma var orðið erfitt að máta hvert skref sem stigið var við stjórn landsins við skóstærð Jóns Sigurðssonar. Því fremur á það við í dag.

Jón Sigurðsson hefur með réttu verið settur á stall frelsishetjunnar. En þeim stað fylgir að þjóðin á erfitt með að hugsa sér að skoðanir hafi verið skiptar um boðskap hans. Ef við ætlum á hinn bóginn, nú hundrað og þrjátíu árum eftir daga hans, að læra af honum til gagns þurfum við að skilja að hann tók við merkjum forgöngumanna, hann kom inn í samfélag á hreyfingu og hann var hluti af alþjóðlegu umhverfi með því að beisla strauma nýrra hugmynda frá meginlandi Evrópu og það var tekist á um hvernig það skyldi best gert til framfara fyrir landið.

Algengt er að líta á síðustu öld sem framfaraskeiðið í sögu landsins. Það kom í kjölfar endurreisnarskeiðsins sem hófst á átjándu öldinni. Jón Sigurðsson markaði með vissum hætti sporin sem skildu á milli þessara tímaskeiða. Í alþýðufyrirlestrum sínum um íslenskt þjóðerni frá 1903 segir Jón Jónsson að í upphafi endureisnartímans hafi komið fram tvær stefnur með skýrum flokkadráttum.

Hann nefnir þar til sögu Biskupssonaflokkinn undir forystu Hannesar Finnssonar og Bændasonaflokkinn undir merkjum Eggerts Ólafssonar. Að dómi Jóns Jónssonar bentu Hannes, og þeir sem honum fylgdu, þjóðinni út á við til erlendra þjóða. Eggert og hans flokkur bentu henni hins vegar inn á við og aftur í tímann til forfeðranna. Þá vaknar spurningin: Hvar skipar Jón Sigurðsson sér síðan í flokk þegar hann kemur til þessarar sögu?

Í æviágripi um Hannes Finnsson í Nýjum félagsritum segir svo: „Sumir vildu taka upp aftur alla siðu forfeðranna, búnaðarlög, stjórnaraðferð alla, búnaðarháttu, klæðasnið og sérhvað eina; aðrir vildu taka tímann eins og hann var, og leita framfarar á sama hátt og eftir sömu reglum , sem þá voru álitnar gildar meðal þeirra þjóða, sem þá voru kallaðar best menntaðar í norðurálfunni. Eggert Ólafsson var eins og kunnugt er mjög fastheldinn við alla háttu fornaldarinnar, og hélt þeim fast fram, en Hannes vildi fylgja hinni nýjari tíð.“

Jóhannes Nordal sem skrifar um Hannes Finnsson og rit hans 1970 álítur að Jón Sigurðsson hafi skrifað þetta og heldur fram því sjónarmiði að Jón hafi greinilega orðið fyrir áhrifum frá Hannesi. Ugglaust er það rétt mat. Kenningar Jóns voru eins og beint framhald af hugmyndum þeirra sem áður skipuðu Biskupssonaflokkinn. Þær sneru út á við og miðuðu að því að Ísland lagaði sig að háttum þeirra þjóða sem fremst stóðu og opna til þeirra viðskipti.

Ímynd samtímans sýnir okkur Jónas Hallgrímsson, frelsishetju íslenskrar tungu, og Jón Sigurðsson, frelsishetju fullveldisins, standa saman á heiðurshæð sögunnar eins og þá hafi aldrei skilið að dalur eða vík. Sannleikurinn er þó sá að þeir toguðust á um raunsæi og rómantík hvor af sínum sjónarhóli. Að því leyti er allt við það sama í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar. Jafngóðir Íslendingar takast á um hvort fremur eigi að beina á sjónum út á við eða inn á við, hvort dýpka eigi samstarf við aðrar þjóðir eða láta duga að rækta heimahagann af kostgæfni.

Þegar Jón Sigurðsson sleit fyrstu barnsskónum í túnfætinum vestur í Arnarfirði sátu leiðtogar Evrópu í höllum suður í Vín og komu á nýrri skipan í álfunni og drógu línur milli ríkja sem áttu eftir að endast meira og minna í heila öld. Frelsisöldur þess tíma snerust ekki einasta um fullveldi ríkja. Þær voru fyrst og fremst krafa um frelsi fólksins til þess að hafa áhrif á eigin mál, fá rétt til að tjá skoðanir sínar og eiga viðskipti við fólk af öðrum þjóðum og borgara annarra ríkja.

Á endurreisnartíma Jóns Sigurðssonar var Breska heimsveldið í mestum blóma. Þegar framfaraskeiðið hófst á síðustu öld logaði Evrópa í átökum. Síðar sátu Bandaríkin og Sovétríkin hvort á sínum enda heimsveldisvegasaltsins. Loks sátu Bandaríkin þar ein um stund. Við okkur blasir nú nýr tími þar sem Bandaríkin, Evrópa og Kína og önnur vaxtarríki í Asíu mynda hvert með sínum hætti stoðir veraldarsamfélagsins.

Mesta breytingin er þó sú sem samgöngu- og samskiptatæknin hefur fært okkur. Fyrir þá sök er allur heimurinn nú líkari því sem eitt þorp var áður. Og breytingar eru ekki úr sögunni. Okkar hlutverk er að skipa Íslandi í sveit eftir aðstæðum okkar tíma en ekki þess sem liðinn er. Hver tími hefur sínar þarfir og sitt ætlunarverk eins og Jón Sigurðsson orðar þessa hugsun í Lítilli varningsbók.

Í Vín árið 1815 voru dregnar línur á kort milli fullvalda konunga. Smám saman kölluðu þegnar þeirra til sín fullveldisréttinn. Þar kom Jón Sigurðsson til skjalanna fyrir Ísland. Hann vissi líka að þau réttindi og áhrif sem leiddu af fullveldinu voru misjöfn og fjarri því að vera einföld eða gefin stærð. Þau réðust af ólíkum aðstæðum einstakra ríkja, fólksfjölda, efnahag, hervaldi og staðsetningu. Þau lögmál hafa í litlu breyst.

Breytingin á samskiptum og samskiptaháttum þjóða er samt ærin. Þá var efni milliríkjasamninga það helst að kveða á um uppgjafarskilmála eftir ófriðartíma og ákveða hvar landamæri ríkja skyldu liggja. Þegar við nú göngum til móts við nýjan tíma eru flest mál þannig vaxin að þau kalla á sameiginlega úrlausn margra ríkja eða alþjóðasamfélagsins í heild sinni. Með öðrum orðum: Mál sem áður þótti sjálfsagt að hver þjóð skipaði ein og sér með löggjöf á þjóðþingi sínu kalla nú á samvinnu og bandamennsku ríkja á milli. Annars þrífumst við ekki í samtímanum og einangrumst.

Hefði Jón Sigurðsson verið á móti þeirri þróun? Það veit ég ekki fremur en aðrir. Ég get heldur ekki spáð í þau spil. En við getum öll dregið okkar lærdóm af því sem hann skrifaði og sagði til þess að auðvelda okkur að takast á við viðfangsefni sem hann og samtímamenn hans sáu aldrei fyrir. Nýjar ákvarðanir um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna verður okkar kynslóð að taka á eigin ábyrgð með framtíðina en ekki fortíðina að leiðarljósi.

Þegar framfaraskeiðið hófst í byrjun síðustu aldar höfðum við fengið myntsláttuna í eigin hendur. En íslenska krónan var hluti af Norræna myntbandalaginu. Það tryggði stöðugleika hennar og traust. Sú var einnig ástæðan fyrir því að til landsins kom erlent hlutafé til þess að setja á fót nýjan banka. Hann kom svo með það erlenda fjármagn sem ýtti af stað atvinnubyltingunni er færði Ísland frá fátækt til bjargálna. Hvorki í gömlum skrifum né nýjum finn ég þess stað að menn hafi talið fjárfestingafrelsið og aðildina að Norræna myntbandalaginu stríða á móti hugsjónum Jóns forseta og því síður að þetta tvennt hafi ekki reynst landinu til hagsbóta.

Á hinn bóginn eru margir sem nú heilli öld síðar fullyrða að aðild að Myntbandalagi Evrópu sé skýrt brot á fullveldishugsjónum frelsishetjunnar miklu. Staðhæfingar af þessu tagi eru hvorki réttar né rangar. Þær byggjast fyrst og fremst á tilfinningalegu mati sem rökræður fá hvorki sannað né afsannað. Rétt eins og með aðildina að Atlantshafsbandalaginu er trúlegast að reynsla sögunnar verði á endanum ólygnust, en ekki áhættulaus fremur en annað. Jafnvel aðgerðaleysinu fylgir áhætta.

Hvaða merkingu hafði það þegar Jón Sigurðsson sagði á Þjóðfundinum: „Ég mótmæli.“ Var heimsmynd hans allt eða ekkert? Gleymum ekki þegar við svörum þeirri spurningu að hann bætti við: „Í nafni konungs og þjóðarinnar.“ Hann var með öðrum orðum ekki meira á móti sambandi við konunginn en svo að hann talaði í nafni hans. Sú ímynd sem notuð er í stjórnmálabaráttu dagsins að hann hafi ekki getað séð nokkurt samband milli Íslands og Danmerkur fær ekki staðist skoðun.

Þvert á móti talaði hann fyrir því að fullveldi um eigin mál fylgdu sameiginleg mál sem hagkvæmt væri að eiga með Dönum að minnsta kosti eins og á stóð. Hann vísar líka til þess í röksemdafærslu sinni að menn megi ekki gleyma að tryggja þurfi öryggi landsins. Enginn hafði skarpari auga fyrir sögulegum réttindum Íslands en hann. Það birgði honum hins vegar ekki sýn þegar leita þurfti þeirra lausna sem hagkvæmar þóttu.

Hvaða merkingu höfðu kjörorðin: „Eigi að víkja.“ Fólst í þeim að aldrei mætti setja fram annað en ítrustu kröfur, að málamiðlanir við aðrar þjóðir væru andstæðar sjálfstæði og fullveldi landsins? Þvert á móti. Grundvallarmarkmiðið var að sönnu klárt. En skrif hans og málflutningur bera þess merki að hann kunni að haga seglum eftir vindi í bestu merkingu þeirra orða og miðla málum til að þoka ætlunarverkinu fram. Hann þurfti oftar en einu sinni að kveða þá í kútinn sem héldu að þeir væru meiri Íslendingar en hann með því að setja fram ítrustu kröfur og hafna ávallt bili beggja.

Jón Sigurðsson var að glíma við þá stóru spurningu hvernig best væri að við skipuðum málum okkar á eigin ábyrgð um flest en með Dönum um sumt. Eins er það í dag að við glímum í stærra samhengi við þá spurningu hvernig við ætlum að skipa okkar eigin málum og í hversu ríkum mæli með öðrum Evrópuþjóðum þar á meðal Dönum í gjörbreyttum heimi þar sem aukin samvinna á að færa meiri vöxt og velmegun.

Jón Sigurðsson mun ekki hjálpa okkur að svara þeirri spurningu fyrir þá einföldu sök að hann er ekki lengur til nema í minningunni. Við erum nú árið 2011 bæði andlega og efnalega ríkari en árið 1811. Það er meðal annars því að þakka að forystumenn eins og Jón Sigurðsson gátu beislað, í þágu landsins, strauma þeirra evrópsku hugmynda um sjálfstæði borgaranna og athafnafrelsi sem féllu fram um hans daga. En það er líka vegna þess að hinir voru aldrei kveðnir í kútinn sem rómantískari voru.

Í dag togast á kraftar um margt líkir þeim sem greindu í sundur Bændasonaflokkinn og Biskupssonaflokkinn á sinni tíð. Með hæfilegri einföldun má segja að þeir sem sjálfir telja sig elska Jón Sigurðsson heitast horfi til hans tíðar um fyrirmyndir þegar draga þarf þær línur hversu langt megi ganga í samvinnu við önnur ríki. Hinir sem minna nota nafn hans horfa fram og út á við í ljósi aðstæðna nútímans rétt eins og hann gerði um sína daga. Báðar fylkingar trúa að með því móti megi treysta öryggi, efla frelsi og auka viðskipti landsfólkinu til auðnubótar.

Það sem við gerum best er að læra af sögunni, reyna að skilja straumfall nýs tíma í því alþjóðlega umhverfi sem við hrærumst í, og grípa þau tækifæri sem gefast og við trúum að geti orðið Íslandi til farsældar. Getum við ekki verið ásátt um að vera þannig Íslendingar?

 

 

 

Greinar og ritgerðir sem vísað er til í ræðu um Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson: Lítil varningsbók, Kaupmannahöfn 1861, bls. 1

Jón Jónsson: Íslenzkt þjóðerni     Alþýðufyrirlestrar         Rvk 1903   bls.195, 247 og 253

Jón Jónsson: Dagrenning     Fimm alþýðuerindi   Rvk 1910   bls. 71, 105 og 109

Eimreiðin   XVII. ár   Kaupm.höfn 1911:

Valtýr Guðmundsson: Jón Sigurðsson   bls. 157

Valtýr Guðmundsson: Jón Sigurðsson og jarlstjórnin     bls. 181

Valtýr Guðmundsson: Jón Sigurðsson og sambandið     bls. 203

Valtýr Guðmundsson: Einokun     bls. 223

Lögrétta 1911   Þorvaldur Thoroddsen  (Eimreiðin XVII. ár bls 203)

 

 

28. March 2011