Í hjúskap með þjóðinni

Þorsteinn Pálsson:
Vigdís Finnbogadóttir á forsetastóli
Ræða hjá Rótarýklúbbi Miðborgar 26.04.10

 

 

 

Vigdís Finnbogadóttir á áttatíu ár að baki um þessar mundir. Hér á að ræða forsetaferil hennar af því tilefni. Þá liggur fyrst fyrir að spyrja: Hvað var það fólk að hugsa sem greiddi henni atkvæði sunnudaginn 29. júní 1980?

Ég á ekki auðvelt með að svara því svo fullt mark sé á takandi. Ástæðan er einföld. Ég var hreinlega ekki í því liði. Þann dag átti ég samleið með meirihlutanum sem tapaði.

 

Tíðindi þessa sunnudags hér uppi á Íslandi voru sannarlega söguleg á veraldar vísu. Þetta var í fyrsta skipti sem kona var kjörin þjóðhöfðingi í almennum kosningum.

 

Skömmu fyrir þennan sögufræga kjördag átti ég starfs míns vegna tal við framkvæmdastjórna Alþýðusambandsins. Undir lokin bar kosningarnar sem fyrir dyrum stóðu á góma.

 

 

 

 

 

 

Báðir höfðum við í hyggju eftir mismunandi köldu mati rökvísinnar að greiða ríkissáttasemjaranum atkvæði okkar. Hvern mann hann hafði að geyma vissum við af reynslu.

 

Nokkrum dögum eftir kosningar bar fundum okkar saman á ný. Ég sagði þá: Við töpuðum. Hann svaraði: Ekki ég. Þegar ég kváði sagðist hann hafa skipt um skoðun á tröppunum á leiðinni inn í kjörklefann. Hann hefði fengið á tilfinninguna að betra væri fyrir Ísland að kjósa Vigdísi.

 

Ég held að einmitt þarna hafi skilið á milli Vigdísar og annarra frambjóðenda. Það var tiltölulega einfalt fyrir hvern mann með sæmilegt hyggjuvit að sjá fyrir hvern forseta karlarnir höfðu að geyma, sem við hana kepptu.

 

Á hinn bóginn gat rökvísin ein ekki leiðbeint mönnum um hvers konar forseti ætla mætti að byggi í Vigdís Finnbogadóttur. Menn urðu í ríkari mæli að láta eigin tilfinningar ráða um það mat.

 

En hvernig í ósköpunum á svo að meta hvort forseti hefur reynst þjóð sinni vel eða illa? Eru einhverjir löggiltir mælikvarðar sem nota má í því skyni? Ég þekki þá ekki.

 

 

 

 

 

 

 

Það eina sem mér kemur til hugar er að stilla stjórnskipunarreglunum upp sem ramma og reyna svo að sjá fyrir mér hvernig myndin af athöfnum Vidgdísar á forsetastóli fellur inn í hann. Ég reyni svo að horfa á þá mynd fremur frá sjónarhorni raunsæis en rómantíkur.

 

Stjórnskipunarreglurnar eru gamlar. Reyndar eru þær líka úreltar. Það á þá eins við rammann sem forsetamyndin er sett í. Orðalagið um regluverkið er frá þeim tíma sem við og Danir bjuggum við annað stjórnkerfi.

 

Þá var valdajafnvægi milli konungs sem fór með ríkisstjórnarvaldið og þjóðþingsins sem fór með löggjafarvaldið ásamt konungi.

 

Þessu var kollvarpað með þingræðinu í byrjun síðustu aldar. Orðalaginu um völd konungs var eigi að síður haldið óbreyttu.

 

Til þess að marka hinn nýja sið var bætt við mismunandi ljósum eða óljósum setningum sem gera valdheimildirnar að mestu marklausar. Þetta leiðir til misskilnings og árekstra.

 

 

 

 

 

 

 

Þegar kom að lýðveldisstofnuninni var okkur meiri vandi á höndum en Dönum fyrr. Konungdæmið þar er hæsti tindur gamals stéttarskiptingakerfis. Þeir kusu að varðveita hann sem einingatákn ríkisins. Það var vandalaust þar.

 

Ísland var hins vegar ekki stéttaskiptingarsamfélag með sama hætti. Eðli máls samkvæmt var vandasamara fyrir lýðræðislega kjörinn fulltrúa almennings að ganga inn í stjórnskipunarreglur sem sniðnar eru fyrir arfakónga stéttarskiptingarkerfis.

 

Forseti Íslands er eins og kóngurinn að formi æðsti handhafi ríkisstjórnarvaldsins og að efni án eiginlegra pólitískra valda. Munurinn er sá að forsetinn er fremstur á meðal jafningja og nýtur engrar upplyftingar frá fornu stéttaskiptingarkerfi.

 

Í stjórnarskránni segir ekkert um einingarhlutverk forsetans. Flestir eru þó þeirrar skoðunar að það sé æðsta skylda hans rétt eins og konungsins áður. Sú skylda verður helst ráðin af því að í stjórnarskránni er ekki gert ráð fyrir að forsetinn hafi pólitísk völd.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann þarf því ekki að dragast inn í pólitískar þrætur, en getur það vitaskuld, ef hann kýs svo, eins og dæmin sanna.

 

Verkefnið er þá að skoða hvort myndin af Vigdísi á forsetastóli fellur inn í þennan íslenska ramma einingarhlutverksins. Í þeirri mynd eru þrír litir sterkastir.

 

Sá fyrsti sýnir einu valdmöguleika forsetans, sem felast í stjórnarmyndunum og áhrifum þess að synja lögum staðfestingar. Annar sýnir varðstöðu um íslenska menningu. Sá þriðji sýnir stuðning við atvinnuvegina og útflutinginn.

 

Ég sagðist ekki vita hvað kjósendur Vigdísar voru að hugsa 1980. Eftir fernar kosningar þar sem nýr forseti hefur komið til sögunnar má þó álykta nokkuð um hugsanir stærsta minnihlutans í þau þrjú skipti sem hann réði og meirihlutans í eitt þeirra.

 

Engu er líkara en í öll skiptin hafi eins konar uppreisnarandi ráðið ríkjum. Sá hluti þjóðarinnar sem ráðið hefur vali nýs forseta sýnist á hverjum tíma hafa sett lóð sín á þær vogarskálar sem jöfnuðu stöðuna á móti vogarskálum ríkjandi valds.

 

 

 

 

 

 

 

Þessir kjósendur hafa fremur litið á forsetann sem ankeri en skipsskrúfu á þjóðarskútuna.

 

Þannig varð fyrrum fjármálaráðherra og forsætisráðherra uppreisnarframbjóðandi gegn dómkirkjuprestinum sem studdur var af ráðandi öflum 1952 . Eftir sextán ár var þetta uppreisnarafl orðið að valdaafli sem fór halloka fyrir nýju uppreisnarafli úr fræðasamfélaginu.

 

Árið 1980 var leikhússtjóri úr röðum kvenna síðan eins og sniðinn í þetta hlutverk uppreisnarforingjans. Leikhússtjórinn keppti þar við tvo karla úr þungavigtarflokki embættismannakerfisins og einn sem nýlega hafði gert sjálfan sig að guðföður sitjandi ríkisstjórnar.

 

Þessi uppreisnarandi á sennilega rætur í þeirri séríslensku hugsun að framlengja danskt konungdæmi án skírskotunar til gamallar stéttarskiptingar. Að þessu leyti hafa forsetakosningar verið uppreisn jafnvægislistarinnar.

 

Annað verður ekki sagt um Vigdísi Finnbogadóttur en að hún hafi svarað þessu kalli jafnvægislistarinnar skýrt og vel.

 

 

 

 

 

 

 

Vandi allra uppreisnarmanna er hins vegar sá að andinn sem skóp uppreisnina vill gjarnan dofna með tímanum.

 

Styrkur Vigdísar á forsetastóli fólst meðal annars í því að henni tókst býsna vel að varðveita þennan anda sem kjósendur í öllum forsetakosningum virðast leita að.

 

Í ríkisráðinu var hún allan tímann ankeri fólksins. Hún kunni og virti skilin á milli þess og skipsskrúfunnar.

 

Það hjálpaði henni í þessu tilliti að vera ekki þjökuð af valdaþrá. Einu gildir hvort það lá í eðli hennar eða hyggindum.

 

Við stjórnarmyndanir fór Vigdís troðnar slóðir. Þeir starfshættir helgast af þingræðisreglunni. Ríkisstjórnir koma og fara á ábyrgð Alþingis en ekki forsetans. Forsetinn stýrir hins vegar gangi mála og ekki er sama hvernig að því er staðið.

 

Af eigin raun get ég dæmt um að þetta hlutverk tók Vigdís hátíðlega í þeim skilningi að hún gekk að því vel undirbúin.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hún átti trúnaðar- og milligöngumenn í öllum flokkum og þekkti því pólitíska málavöxtu bæði framsviðs og baksviðs. Í samtölum við formenn flokka spurði hún þeirra spurninga sem máli skiptu og ekkert umfram það.

 

Stundum sýndist mér hún skrifa hjá sér í litla kompu það sem viðmælandinn hafði fram að færa; í önnur skipti ekki, eða ekki svo að til sást. Ég trúi að þar sé enn ósögð saga.

 

Við stjórnarmyndunina 1983 gerði Vigdís tilraun sem vert er að nefna. Í nokkra daga lét hún viðræður flokksformanna standa eins og opna bók og fól engum umboð til stjórnarmyndunar. Ég tel að þarna hafi komið fram vísir að betra vinnulagi en hefðin hefur fest í sessi.

 

Í raun réttri er engin ástæða fyrir forseta við slíkar aðstæður að veita umboð til stjórnarmyndunar fyrr en einhver hefur með óyggjandi hætti sýnt fram á að hann eigi raunhæfan möguleika á stuðningi meirihluta Alþingis.

 

Það setur strax meiri þrýsting á þingið að ganga beint til verks. Hefðbundna aðferðin, sem kennd er við hringekju, opnar meir fyrir tafaleiki og undirmál.

 

 

 

 

 

 

Í heild komst Vigdís Finnbogadóttir vel frá glímunni við þetta oft vandasama stjórnskipulega hlutverk á pólitískum upplausnartíma.

 

Annað stjórnskipulegt hlutverk lýtur að staðfestingu laga eða öllu heldur áhrifum þess að forseti hafnar staðfestingartillögu ráðherra eða skýtur henni á frest. Þar reyndi á Vigdísi í tvígang.

 

Í fyrra sinnið hafði ríkisstjórnin fengið Alþingi til að samþykkja lög um bann við verkfalli flugfreyja. Einn af þingmönnum stjórnarandstöðunnar sá öðrum fremur til þess með málþófi að umræður á Alþingi teygðust inn á fyrstu stundir þess dags sem konur höfðu sammælst um að koma saman til útifundar til að minnast þess að tíu ár voru frá kvennafrídeginum 1975.

 

Sá stjórnarandstöðuþingmaður sem hlut átti að máli var með þessu fyrst og fremst að ergja ríkisstjórnina. En hann kaus að flækja forseta Íslands í þá glímu. Vitað var og virt að forsetinn hafði í hyggju að vera virkur þátttakandi með öðrum konum í landinu á þessum degi og sinna ekki stjórnarathöfnum.

 

 

 

 

 

 

 

Það liggur í eðli slíkra laga sem þarna voru á ferðinni að þau þurfa að öðlast gildi tafarlaust. Ríkisstjórnin gat því ekki sætt sig við að þessi leikflétta eins alþingismanns og tillitsleysi gagnvart forseta Íslands tefði framgang málsins.

 

Samgönguráðherra hótaði að segja af sér ef lögin yrðu ekki undirrituð án tafar. Starfandi forsætisráðherra hélt til Bessastaða og skýrði mál ríkisstjórnarinnar. Hann kom rólegur en án niðurstöðu af þeim fundi.

 

Forsetinn fann síðan jafnvægi hlutanna. Staðfesti lögin þegar komið var fram á dag. Þannig gat Vigdís sýnt virka samstöðu með íslenskum konum um leið og hún sýndi skilning á stöðu ríkisstjórnarinnar.

 

Morgunblaðið hélt því fram að ríkisstjórnin hefði hugleitt og jafnvel hótað að líta á aðgerðaleysi forsetans að morgni þessa dags sem staðfestingarsynjun með þar til greindum afleiðingum. Páll Valsson og Guðni Th. Jóhannesson vísa í þetta sem staðreynd í bókum sínum um Vigdísi og Kristján Eldjárn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er hins vegar rangt og kom aldrei til tals milli formanns Sjálfstæðisflokksins og starfandi forsætisráðherra. Aukheldur útilokuðu starfsreglur ríkisráðs atburðarás af því tagi.

 

Þegar lögin um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu komu til staðfestingar tæpum áratug síðar stóðu mörg spjót á forsetanum. Vigdís var þá undir miklum þrýstingi þar á meðal frá fólki er stóð henni nærri að synja um staðfestingu og vísa málinu þar með í þjóðaratkvæði.

 

Forsetinn vildi ekki afgreiða málið utan ríkisráðs eins og ráðherra hafði lagt til og óskaði því eftir sérstökum fundi í því. Það var rétt mat. Ríkisráðsfundurinn var haldinn í gamla stjórnarráðshúsinu við kertaljós og er eftirminnilegur öllum sem þar sátu.

 

Að minni hyggju er þetta einn mikilvægasti fundur ríkisráðs frá upphafi. Forsetinn staðfesti lögin með sérstakri skýringu í gerðabók ríkisráðs. Þar var grein gerð fyrir andstæðum sjónarmiðum í málinu.

 

Niðurstaða forsetans um staðfestingu byggðist á skýrum

 

 

 

 

 

 

 

skilningi á einingarhlutverki embættisins. Það var á þessum fundi sett ofar öllum öðrum álitaefnum.

 

Bókun forsetans hefur í þessu ljósi mikið stjórnskipulegt gildi og verður virt í þeim fræðum því meir sem frá líður. Síðari atburðir hafa þegar gefið henni mikið gildi.

 

Í báðum þessum tilvikum sýndi Vigdís að stjórnmálareynsla eða háar lærdómsgráður í stjórnmálavísindum eru ekki endilega það veganesti sem forseti Íslands þarf helst á að halda.

 

Hitt skiptir meira máli að skilja eðli stjórnskipunarinnar, virða formkröfur hennar og kunna þá list að leyfa ólíkum skoðanahópum að finna í sömu andránni samkennd með hjartslætti þjóðhöfðingjans.

 

Þetta er galdur sem Vigdís hafði á valdi sínu, en reynslan sýnir að er ekki öllum gefinn.

 

Þó að stjórnarskráin mæli ekki svo fyrir hafa flestir litið svo á að það sé þáttur í einingarhlutverki þjóðhöfðingjans að hlú að þeim sífrjóa lauk sem íslensk menning og íslensk

 

 

 

 

 

 

 

tunga eru sprottin af. Stundum verður það að vísu eins og staglkennd orðræða eða óáhugaverð jarðvinna.

 

En kunni enginn þá list að gæða staglið lífi, reita illgresið og stinga niður nýjum vísum fölnar þetta blómskrúð. Ekki má gleymast að af því er sjálfstæðið sprottið.

 

Vigdísi reyndist þetta létt og í hlutverki þjóðhöfðingja var hún öðrum áhugasamari og samviskusamari á þessu sviði. Það sem meira er: Þetta virkaði aldrei eins og skylduverk; miklu fremur sem einlægur innblástur. Þess vegna bar það starf hennar ávöxt.

 

Mörgum finnst að það sé hlutverk forseta Íslands að greiða götu íslenskra viðskiptafyrirtækja á erlendri grundu. Um það má deila. Mestu skiptir þó hvernig fæti er stigið niður í þeim leik. Það er svo stutt út af bjargbrúninni.

 

Vissulega getur það verið lyftistöng fyrir Ísland ef þjóðhöfðinginn leggur þá steina að undirstöðum viðskipta sem vísa til bókvits og verkvits þjóðarinnar. Það kunni Vigdís og gerði í ríkum mæli.

 

 

 

 

 

 

 

Það má meta. Hitt er þó fremur þakkarvert að hún skuli ekki hafa látið leiðast til þess að verða að eins konar dyraopnara fyrir forstjóra viðskiptalífsins.

 

Þegar allar þessar útlínur, sem sýna störf Vigdísar Finnbogadóttur á forsetastóli, eru felldar saman í eina heild og settar inn í ramma stjórnskipunarreglnanna birtist mynd sem hún má vera sátt við og ég hygg að þjóðin sé stolt og hreykin af .

 

Ef við hugsum okkur þetta sem þræði í veflistaverki sýnist

uppistaðan hafa verið raunsæi en ívafið rómantík. Og trúlega hefur ívafið snert meir við tilfinningum fólksins í landinu.

 

Ætlunin var ekki að leggja mat á tilfinningalegt samband Vigdísar og þjóðarinnar. Það segir hins vegar meir en mörg orð um þann hluta málsins að nú fjórtán árum eftir að hún lét af forsetaembætti er hún enn eina sameiningartákn þjóðarinnar.

 

Árið 1926 bað breski utanríkisráðherrann konung um að takast á hendur opinbera heimsókn til Spánar til að liðka

 

 

 

 

 

 

 

fyrir málum í samskiptum við þarlend stjórnvöld. Konungur neitaði og sagði að slíkar heimsóknir væru úreltar og hefðu ekki pólitískt gildi lengur. Tímarnir voru að breytast og konungur skynjaði það.

 

Þegar Vigdís Finnbogadóttir fór í fyrstu opinberu heimsókn sína til Danmerkur höfðu tímarnir breyst á ný. Einstæð móðir og fyrsta konan í heimssögunni til þess að verða kjörin þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum opnaði hug og hjarta dönsku þjóðarinnar.

 

Það er enn í minnum haft. Hitt er þó merkilegara að áhrif þessarar heimsóknar eru ekki horfin. Þeir sem til þekkja vita að enn er það svo að enginn þjóðkjörinn fulltrúi Íslands kemur til Danmerkur með jöfn áhrif og sömu geislavirkni eins og finna má þegar Vigdísi ber þar að garði.

 

Þegar Vigdís hafði setið í átta ár var sérstakt ánægjuefni fyrir mig, dag einn fyrir ríkisstjórnarfund, að fara yfir ganginn í stjórnarráðshúsinu til reglulegs samráðs við forseta. Þar var Vigdís hvött til framboðs á ný.

 

Kjarni málsins er sá, þegar hér var komið, að nú vissu allir

 

 

 

 

 

 

 

hvaða forseta Vígdís hafði að geyma. Getgátur tilfinninganna þar um heyrðu sögunni til.

 

Nú var hvatningin sett fram af kaldri rökvísi. Hún hafði unnið til þess trausts sem flestir höfðu aðeins á tilfinningunni átta árum fyrr.

 

Stuðningurinn við Vigdísi 1988 var svo afgerandi að

honum verður aðeins jafnað til fjölda þeirra sem samþykktu lýðveldisstofnunina á sínum tíma. Það segir sína sögu um stöðu Vigdísar á hátindi ferilsins.

 

Allir forsetar lýðveldisins hafa aukið veg sinn í embætti. Flestum finnst svo sjálfgefið að forsetar skili jafn risháu embætti og þeir tóku við. Ég held reyndar að Vigdís hafi hækkað burst þess lítið eitt.

 

Reynslan hefur síðan sýnt að það er ekki sjálfgefið. Embættið sjálft getur einfaldlega risið og fallið eftir því hver situr það.

 

Þegar öllu er á botninn hvolft gaf Vigdís meira af sér í embætti en þjóðin átti réttmætt tilkall til. Í því liggur

 

 

 

 

 

 

 

 

árangur starfs hennar og sú ástsæld er hún naut.

 

Af ævisögu Vigdísar má ráða að hún og flestir stuðningsmenn hennar hafi litið svo á, þegar hún fór fyrst í framboð, að hún þyrfti að sanna að einstæð móðir gæti valdið þessu hlutverki.

 

Þetta var varnarstaða. Án þess að vita hygg ég að hún hafi sjálf skynjað þessa stöðu sem vörn en ekki sókn. Að sumu leyti held ég líka að hún hafi allan tíman verið að sanna

fyrir sér og þjóðinni að þetta gengi upp.

 

Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að þessi mynd sé eins og hún er sögð vera. Þvert á móti: Trúlega hefði Vigdís ekki orðið sá forseti sem hún reyndist hefði hjúskaparstaða hennar verið sú sem flestir töldu normal fyrir Bessastaði á þeim tíma.

 

Ástæðan er sú að 29. júní 1980 varð hún meira en forseti. Hún gekk bókstaflega í hjúskap við þjóðina. Ég held að ástríða hennar og samviskusemi í þeirri sambúð hafi ekki skilið eftir orku í hefðbundið stúss af því tagi.

 

 

 

 

 

 

 

Tvöfaldur hjúskapur í þessum skilningi hefði sennilega fært okkur ástríðuminni forseta. Frá fyrsta degi var hún einfaldlega ómeðvituð í sókn en ekki vörn.

 

Þetta er sú mynd af forsetaferli Vigdísar Finnbogadóttur sem ég hef keypt í búð reynslunnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

28. April 2010