Er hroki í boðskap Seðlabankans?

 

Þessi vika hófst með því að mótmælaboðskapur fólksins hljómaði neðan frá Austurvelli. Um miðja vikuna kom svo stýrivaxtaboðskapur Seðlabankans ofan af Arnarhóli. Skilaboðin voru þó harla ólík.

Málflytjendur fólksins töluðu í nafni reiðinnar og skírskotuðu til kjaradeilu lækna og tónlistarkennara. Þeir sögðu stjórnmálamenn koma fram af hroka. Lýðræðið væri á fallandi fæti því þeir hlustuðu ekki á raddir fólksins. Fulltrúar þess líktu síðan alþingismönnum við gest í samkvæmi sem skiti á gólf gestgjafans, ældi eftir það yfir ósómann til þess að geta haldið því fram að enginn kúkur sæist á gólfinu.

Talsmenn allra flokka sögðust hafa hlustað á þennan málflutning með næmum skilningi.

Stjórnendur Seðlabankans tilkynntu lækkun stýrivaxta. Þeir sögðu að lítil verðbólga, góður hagvöxtur og innstreymi af erlendum gjaldeyri gerði þetta mögulegt. Það sem meira er: Gefið var til kynna að til frekari vaxtalækkana gæti dregið ef kjarasamningar yrðu hófsamir.

Vikan hefur sem sagt fært okkur heilmikið til að hugsa um. Er Seðlabankinn að tala niður til fólksins? Er hann tákn valdhrokans sem fólkið andæfði með orðavali sínu á Austurvelli? Eða felast í boðskap hans hollráð sem vert væri að hlusta á?  Hvort eiga þingmenn að snúa hlustunum að Arnarhóli eða Austurvelli?

Má læra af reynslunni?

Þegar þannig er spurt er rétt að kalla reynsluna fram til hjálpar.

Fyrir hrun mátti lesa í skýrslum Seðlabankans áhyggjur af vaxandi viðskiptahalla og skorti á samræmi milli peningastefnu bankans og efnahags- og fjármálastefnu þeirra fjögurra ríkisstjórna sem sátu á þeim tíma. Oft var þetta sagt undir rós. Flestir lögðu hlustir við annað og við vitum hvernig fór.

Fyrir síðustu kjarasamninga brýndi Seðlabankinn með skýrum hætti nauðsyn þess að launahækkanir rímuðu við tölurnar um batann í hagkerfinu. Á það var hlustað af flestum þótt einhverjir sökuðu bankann um að sýna skilningsleysi á kjörum almennings. Árangurinn er meiri kaupmáttarbati á þessu ári en við höfum uppskorið í langan tíma.

Með öðrum orðum: Reynslan er vísbending um að það sé andstætt almannahagsmunum að skella skollaeyrum við ráðum Seðlabankans.

Það er síðan sígild spurning hvort þannig standi á um einstaka hópa að rétt sé og mögulegt að halda þeim utan við það sem almennt gerist á vinnumarkaðnum.

Þær kjaradeilur sem nú brenna heitast snúa bæði að sveitarfélögum og ríkisvaldinu. Allir stjórnmálaflokkar sitja því uppi með ábyrgð. Þeir þurfa að meta hvort ætla megi að niðurstaðan í þessum samningum verði fyrirmynd að því sem eftir á að koma. Satt best að segja eru meiri líkur á en minni að svo verði. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Eina leiðin til að greiða samkeppnishæf laun við önnur Norðurlönd er að framleiðni atvinnulífsins hér standist atvinnulífinu þar snúning. Klípan er sú að framleiðnin hér er á talsvert lægra plani en þar. Við munum aldrei eignast samkeppnishæft heilbrigðiskerfi ef allir loka augunum fyrir þessum veruleika; sama hvað menn tala skáldlega og skarplega á Austurvelli.

Brýnt er að ná markmiðinu um alþjóðlega samkeppnishæf laun. En lokaáfanginn í því ferli næst aldrei ef menn byrja ekki á upphafsreitnum. Sá sem hefur ekki tíma til að setja niður útsæði sker ekki upp kartöflur.

Skortur á samkvæmni í málflutningi

Svo er hitt: Það er ekki nóg að halla sér að hollráðum Seðlabankans í einn tíma en blása á þau í annan.

Mikilvægt er til að mynda að hafa hugfast að þau gilda ekki bara um ASÍ.

Ríkisstjórn sem státar af heimsmeti í endurgreiðslu á gamalli verðbólgu í stað þess að grynna á skuldum hefur misst mikinn trúverðugleika þegar hún bendir á rök Seðlabankans í launamálum, þótt hún hafi lög að mæla í þeim efnum.

Forsætisráðherra sem segist hafa fullan skilning á launakröfum tónlistarkennara, sem sveitarfélögin borga, hefur ekki óskoraðan trúnað þegar hann bendir á nauðsyn aðgæslu þegar kemur að launum lækna, sem ríkissjóður greiðir. Eins er erfitt fyrir flokk borgarstjórans að hafa fullan skilning á launakröfum lækna, sem ríkið greiðir, en verja aðhald þegar kemur að launum tónlistarkennara, sem borgin greiðir.

Svo þarf Seðlabankinn sjálfur að gæta sín. Fullyrðing bankans um að útlendingar horfi með stjörnur í augunum til efnahagsundursins hér rímar illa við það álit að útilokað sé að borga sömu laun og þau lönd sem sögð eru öfunda okkur svo mikið.

Þó að rétt sé að halda til haga góðum árangri þarf að segja satt um veikleikana sem gera það að verkum að við stöndum ekki jafnfætis grannþjóðunum. Þær öfunda okkur ekki af miklu minni framleiðni, gjaldeyriskreppu, höftum, lánshæfismati við mörk ruslflokks, neikvæðu framlagi útflutnings til hagvaxtar og spá um viðskiptahalla. Af hverju sagði Seðlabankinn það ekki?

Niðurstaðan er þessi: Ráð Seðlabankans eru skynsamleg og laus við hroka. Á hinn bóginn skortir talsvert á samkvæmni í málflutningi of margra þeirra sem ábyrgð bera til þess að nauðsynlega víðtækur skilningur skapist á því.

7. November 2014