Vopn varpa ljósi á pólitískt tóm

 

Umræðan um endurnýjun vopna Landhelgisgæslunnar og lögreglunnar hefur um margt verið á villigötum. Þetta er þó viðkvæmt alvörumál sem er rétt og skylt að ræða.

Í byrjun snerist umræðan upp í einhvers konar heilaspuna um vopnavæðingu og grundvallarbreytingar á löggæslu. Hugsanlega stafar það af fákunnáttu sumra þingmanna um löggæsluna. Hitt er þó sennilegra að gott vald margra þeirra á lýðskrumsfræðum hafi ráðið meir um að umræðan og fréttaflutningurinn báru í fyrstu fremur merki um æsingar en alvöru og yfirvegun.

Lögreglan hefur ráðið yfir vopnum frá árdögum fullveldisins. Landhelgisgæslan hefur verið vopnuð alla tíð. Ef í ljós hefði komið að hvorug þessara stofnana réði yfir nauðsynlegum og eðlilegum vopnabúnaði hefði með góðum rökum mátt gera talsvert veður út af því.

Þessar löggæslustofnanir, mannafli þeirra og búnaður eru nauðsynlegur og órjúfanlegur hluti af því mikla viðfangsefni að viðhalda fullvalda ríki.

Íslendingar hafa samið við Bandaríkin um að öflugasta vopnabúri heimsins verði beitt stafi sjálfstæði og öryggi landsins ógn utan frá. Í því ljósi er það skinhelgi þegar því er haldið fram að Íslendingar séu svo heilagir að þeirra eigin löggæslustofnanir megi ekki og þurfi ekki að ráða yfir lágmarks vopnabúnaði.

Upplýsingum haldið frá ráðherra

Nú er það svo að endurnýjun vopna Landhelgisgæslunnar og lögreglunnar getur átt sér stað án þess að opinber umræða fari fram um það í hvert sinn. Í þessu tilviki verður hins vegar að hafa í huga að um verulega og umtalsverða endurnýjun er að ræða.

Ennfremur er það svo að gjafir eða vildarkjör á vopnum frá erlendum ríkjum kalla á skoðun og mat í hverju falli. Einu gildir þótt vinaþjóðir eigi í hlut og að samskipti af því tagi byggi á hefð. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að óeðlilega hafi verið staðið að málum í þeim tilvikum sem greint hefur verið frá. Frásögnum kaupanda og seljanda ber þó ekki í einu og öllu saman. Það er athugunarefni.

En það er önnur hlið á þessu máli sem þarfnast miklu rækilegri skoðunar. Fréttir herma að innanríkisráðuneytið hafi ekki átt aðkomu að málinu. Það er ekki alveg skýrt orðalag en þýðir væntanlega að innanríkisráðuneytið og þá um leið innanríkisráðherrann hafi ekki haft hugmynd um þessa endurnýjun. Sé svo að upplýsingum hafi verið haldið frá ráðuneytinu og ráðherranum er það mjög alvarlegt mál.

Þótt allt sé með felldu er hér verið að fjalla um þýðingarmikla og viðkvæma hluti. Lýðræðislega skipuð yfirstjórn ráðuneytisins ber ábyrgð á þessum málefnum og hefur þá skyldu að ræða og verja stefnuna og framkvæmd hennar á hverjum tíma bæði gagnvart almenningi og Alþingi. Því mikilvæga hlutverki getur hún ekki gegnt með þeim skjóta og yfirvegaða hætti sem ætlast má til sé upplýsingum haldið frá henni.

Það er með öðrum orðum óeðlilegt að ráðuneytið skuli hafa verið vitundarlaust um þetta mál. Þar af leiðir að upplýsa þarf hvernig á því stendur. Einhver ber ábyrgð á því.

Það kann að flæða undan trausti

Svo háttar til í okkar litla landi að tveir ráðherrar fara nú með málefni innanríkisráðuneytisins og þeirra stofnana sem hér eiga hlut að máli. Athygli vekur að hvorugur þeirra tók forystu í umræðunni um leið og fjölmiðlar greindu frá málavöxtum.

Þögn ráðherranna tveggja fyrstu klukkustundirnar eftir að málið kom fram skýrist sennilega af því að ráðuneytið var ekki upplýst. Þetta getur verið gild afsökun fyrir þögn þeirra í byrjun. En töfin á upplýsingaflæði til ráðuneytis og ráðherra er eftir sem áður óafsakanleg.

Hitt er að verða alvarleg stjórnskipuleg staða að þögn ráðherranna virðist vera viðvarandi ástand. Þrátt fyrir tvo ráðherra er engu líkara en ráðuneytið sé í pólitísku tómi.

Þyki ráðherrunum sem Landhelgisgæslan og lögreglan hafi farið út fyrir umboð sitt eða breytt rangt þarf að taka á því. En sé allt með felldu að þeirra mati þurfa þeir að verja stofnanirnar óhikað. Gerist hvorugt kann að flæða undan nauðsynlegu trausti.

Að upplagi hafa báðir ráðherrarnir burði til að veita þá forystu sem umræða af þessu tagi krefst. Því er erfitt að draga aðra ályktun af þessari sérkennilegu stöðu en að lekamálið svokallaða hafi hér afgerandi áhrif.

Í því er annars vegar beðið eftir dómsniðurstöðu og hins vegar eftir áliti umboðsmanns Alþingis. Við slíkar aðstæður er vel skiljanlegt að ráðherra standi ekki nægjanlega föstum fótum til að veita þá pólitísku forystu sem fylgir embættinu.

Stjórnskipulegi vandinn er á hinn bóginn sá að það er ekki unnt að láta mál af þessu tagi veikja þetta mikilvæga ráðuneyti mánuðum saman. Ríkisstjórnin glímir vissulega við mörg stærri mál. En þetta viðfangsefni er þó mikilvægara og viðkvæmara en svo að unnt sé að láta umræðuna reka á reiðanum.

 

 

 

31. October 2014