Hví má þjóðin ekki ráða för?

Forsætisráðherra hefur ákveðið að ríkisstjórn hans skuli hvað sem það kostar ganga á hólm við mikinn meirihluta fólksins í landinu og afturkalla aðildarumsóknina að Evrópusambandinu án þjóðaratkvæðis. En hví má þjóðin ekki ráða för í þessu stóra máli?

Kenningin ríkisstjórnarinnar er þessi: Það má slíta aðildarviðræðum og afturkalla umsóknina með einfaldri samþykkt Alþingis en á hinn bóginn þarf þjóðaratkvæði til að sækja um á ný. Sjálf ætlar ríkisstjórnin aldrei að leggja það til. Því verður aldrei þjóðaratkvæði svo lengi sem hún situr.

Stórir hópar stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna og allir stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi eru fylgjandi því að þjóðin fái að ákveða hvort viðræðum verður haldið áfram eða slitið. Skoðanakannanir sýna að ríflegur meirihluti þjóðarinnar er á þessu máli. Auk þess hafa meir en fimmtíu og fimm þúsund kjósendur skriflega skorað á ríkisstjórnina að efna til þjóðaratkvæðis.

Alþingi getur samkvæmt stjórnarskrá ákveðið afturköllun. En ljóst er að það verður ekki gert eins og sakir standa nema í stríði við þorra kjósenda. Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa engin rök fært fram fyrir því að það stríð sé þjóðhagslega nauðsynlegt.

Almenningsálitið knúði ríkisstjórnina til að láta undan síga í málinu í vor sem leið fyrir þá sök helsta að hún gat ekki fært rök fyrir þjóðhagslegu mikilvægi viðræðuslitanna. Auðveldara reyndist að sýna fram á hitt að fyrir hagsmuni þjóðarinnar væri skynsamlegra að halda þessari leið opinni. Ríkisstjórnin tapaði rökræðunni og hikaði við að beita valdinu.

Svikakenningin

Málefnalega hefur ekkert breyst síðan í fyrra. Það eina sem horfir á annan veg við er að ríkisstjórnin sýnist nú vera staðföst í því að beita valdinu sem hún hefur á Alþingi gegn rökræðunni sem hún tapaði úti á meðal fólksins.

Ríkisstjórnin teflir aðallega fram tveimur málsástæðum til höfuðs þeirri ósk að þjóðin fái sjálf að taka þessa ákvörðun.

Önnur er að ákvörðun Alþingis um aðildarumsóknina á sínum tíma hafi verið fengin með svikum og hafi því aldrei haft raunverulegt gildi. Hin er að ríkisstjórninni sé ómögulegt, sannfæringar sinnar vegna, að framkvæma þjóðarviljann eins og hann birtist í skoðanakönnunum.

Lítum fyrst á svikakenninguna. Aðildartillagan byggði vissulega á samkomulagi milli Samfylkingar og VG. Það dugði þó ekki til því nokkrir þingmenn VG greiddu atkvæði á móti. Hins vegar stóðu nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með málinu og tryggðu því framgang. Tveir þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og VG sátu svo hjá.

Sannarlega hefði verið rétt á þeim tíma að fara að tillögu formanns og þáverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæði. Það hefði pólitískt styrkt umsóknarferlið. En hvernig svo sem kaupin gerðust á milli þáverandi stjórnarflokka tók Alþingi lögmæta ákvörðun. Enginn hefur umboð til að segja að sumar ákvarðanir Alþingis séu gildar en aðrar ekki.

Kjarni málsins er þó sá að það er fullkomin rökleysa að halda því fram að fyrir þá sök að meirihluti þingmanna VG hafi samþykkt umsóknina án þjóðaratkvæðis séu ekki efni til að halda þjóðaratkvæði um framhaldið. Þessu geta þeir einir haldið fram sem vilja síður að þeir séu teknir alvarlega.

Ómöguleikakenningin

Lítum síðan á ómöguleikakenninguna. Hún er vígstaða sem stjórnarflokkarnir sömdu einir um eftir kosningar. Fyrir þær gáfu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins mjög skýr fyrirheit um þjóðaratkvæði á fyrri hluta kjörtímabilsins.

En þeir gerðu meira. Þeir hétu því að ný ríkisstjórn sem þeir ættu aðild að myndi framfylgja vilja þjóðarinnar á hvern veg sem hún yrði. Það er velþekkt í öðrum þingræðisríkjum að flokkar heiti því að fylgja meirihlutavilja sem fæst í þjóðaratkvæði. Vissulega er það heldur ekki óþekkt að ríkisstjórnir kjósi að víkja gangi þjóðaratkvæði gegn vilja þeirra.

Hitt er aftur á móti alveg fordæmalaust að flokkar sem lofað hafa þjóðaratkvæði hafni því þegar til kastanna kemur með þeim rökum að þeim sé eftir eðli máls ómögulegt að framfylgja niðurstöðunni. Það gera þeir einir sem sækjast ekki eftir að vera teknir alvarlega.

Stjórnarsáttmálinn er reyndar stundum notaður sem afsökun fyrir svikum á kosningaloforðunum. Trúlega er það rétt að Framsókn hafi króað samstarfsflokkinn af í þessari blindgötu þegar í stjórnarmyndunarviðræðunum. Nú telur hún stríðið um afturköllun augljóslega mikilvægara og brýnna en öll önnur mál.

Framsókn hefur tapað meir en helmingi fylgis síns meðan Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu. Sjálfstæðisflokkurinn gæti knúið fram alþingskosningar ef hann vildi. Það kynni að vera leið út úr ógöngunum í þessu máli fyrst forystuflokkur ríkisstjórnarinnar telur það stærra og meira en önnur sem hún glímir við.

Þá verður kosið á milli þeirra flokka sem vilja þjóðaratkvæði og hinna. Að því kemur óhjákvæmilega. Og trúlega er betra að það gerist fyrr en seinna í ljósi þess að nú á að setja önnur mál í skuggann hvort eð er. Í þingkosningum er alltént enginn í bóndabeygju ómöguleikakenningarinnar.

 

23. January 2015