Glíma ráðherra við kerfisbreytingar

Leiðin að því marki að Ísland geti staðið jafnfætis öðrum Norðurlöndum þegar horft er til kjara og velferðar liggur í gegnum umfangsmiklar kerfisbreytingar í þjóðarbúskapnum. Helsti veikleiki ríkisstjórnarinnar er sá að hún virðist ekki hafa náð saman um heildarstefnu til að feta sig eftir að því marki. Peningamálin og utanríkisstefnan eru þar helst Þrándur í Götu.

Á tveimur sviðum glíma ráðherrar þó við mikilvægar kerfisbreytingar: Annars vegar er fjármálaráðherra með fjárlagafrumvarp sem byggir á kerfisbreytingum í skattamálum. Hins vegar er menntamálaráðherra með hvítbók um kerfisbreytingar í skólamálum. Ástæða er til að gefa þessum ráðagerðum gaum í því stóra samhengi að það er samkeppnisstaða Íslands sem er á vogarskálunum.

Fjárlagafrumvarpið og skattabreytingarnar brenna á Alþingi næstu vikur. Þó að þær séu nægjanlega umfangsmiklar til að teljast alvöru kerfisbreytingar eru þær eigi að síður afar hófsamar. Það eru ekki stigin stærri skref en svo að heildaráhrif breytinga á sköttum og bótum skilja skattborgarana eftir í betri stöðu en áður. Og fjárlagafrumvarpið mælir jöfnuð þótt óheilbrigt vörugjaldakerfi sé með öllu hreinsað út.

Enn sem komið er hefur enginn hrakið útreikninga fjármálaráðherrans um heildaráhrif kerfisbreytinganna. Eini vegurinn til að setja fram gagnrýni er að loka augunum fyrir heildaráhrifunum og einblína einungis á afmarkaða þætti. Það má vitaskuld gera en er ekki vitnisburður um það besta sem fá má út úr málefnalegri umræðu. En orðræðan er samt föst þar.

Minnihlutafrumvarp

Gagnrýni VG á kerfisbreytingar er skiljanlegri en Samfylkingarinnar. Flokkar lengst til vinstri vilja nota skattkerfið í ríkari mæli en aðrir til að stýra bæði framleiðslu og neyslu. Frjálslyndir sósíaldemókratar í Evrópu standa margir nær miðjunni að þessu leyti. Hugsunin er sú að skattkerfið eigi að vera hlutlausara. Það örvi framleiðni sem aftur er forsenda kaupmáttar.

Í þessu ljósi kemur á óvart að Samfylkingin skuli vera jafn hnýflótt í gagnrýni sinni eins og VG. Tveir skýringarkostir leita á hugann þegar svara er leitað við þessu.

Önnur útlistunin gæti legið í fyrirvara Framsóknar. Formlega lýsti hún ekki andstöðu við kerfisbreytingar. Á hinn bóginn taldi hún að fjármálaráðherra hefði ekki sýnt fram á að útreikningar á heildaráhrifum þeirra stæðust.

Þessi skýring á fyrirvaranum er ekki trúverðug. Allir sem til þekkja vita að einfalt var að ganga úr skugga um það álitamál fyrir framlagningu frumvarpsins. Sennilega hefur staðan því verið sú að ráðherrar Framsóknar hafa ekki haft óskoraðan stuðning í röðum sínum.

Að því leyti virðist fjárlagafrumvarpið hafa svipaða stöðu og mál frá minnihluta stjórn. Það á einfaldlega eftir að semja um framgang þess. Þingmeðferðin sker úr um hvort muni ráða meir um niðurstöðuna stefna fjármálaráðherra eða fyrirvarar þingmanna Framsóknar. Aðeins annar stjórnarflokkanna getur komið standandi niður fyrst svona var lagt af stað. Og hætt er við að bræðrabylta við lokaafgreiðslu veiki báða.

Fyrirvari af þessu tagi við fjárlagafrumvarp er merki um pólitískan veikleika sem skiljanlegt er að stjórnarandstaðan reyni að hagnýta sér. Von hennar er sú að efasemdarmennirnir standi fast á sínu og sprengi frumvarpið en áhættan er að harkan í umræðunni reki þá til undanhalds og samstöðu með fjármálaráðherra.

Ef þetta er skýringin verða kjósendur að hafa í huga að umræðan snýst fremur um lögmál samstarfsins í ríkisstjórninni en efni þeirra breytinga sem settar hafa verið á dagskrá.

Urðu engin veðrabrigði í Samfylkingunni?

Hin útlistunin lýtur að hugmyndafræði og þeim mismunandi sjónarmiðum sem verið hafa í Samfylkingunni um það hvar hún eigi heima í litrofi stjórnmálanna.

Á síðasta kjörtímabili færðist Samfylkingin hugmyndafræðilega fast upp að VG. Afleiðingin var meðal annars sú að efnahagsstefnan samræmdist illa markmiðinu um aðild að Evrópusambandinu. Það fjaraði því undan trúverðugleikanum í Evrópumálum og flokkurinn tapaði miklu fylgi.

Flestir túlkuðu niðurstöðuna í leiðtogakjörinu í fyrra á þann veg að frjálslyndari vængur flokksins hefði náð undirtökunum á ný. En ekki er víst að þau pólitísku verðrabrigði hafi í raun verið svo skörp ef það er virkilega svo að hin harða og óvægna andstaða gegn skattkerfisbreytingunum byggi alfarið á hugmyndafræði en ekki pólitískum skyndibitasjónarmiðum vegna veikleika í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Þannig gæti afstaðan í þessu máli verið til marks um að allt standi óbreytt að því leyti til að Samfylkingin sjái ekki málefnalegan kost á samstarfi yfir miðjuna heldur aðeins við VG. Þá er andstaðan við þessar kerfisbreytingar vísbending um að tómarúmið, sem myndaðist á miðju stjórnmálanna á síðasta kjörtímabili, sé enn ófyllt.

17. October 2014