Taflstaða Sjálfstæðisflokksins þrengist

 

Forsætisráðherra rauf þögnina um utanríkismálin um síðustu helgi með því að boða nýja tillögu um afturköllun aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu. Það merkir að í stað hlés á viðræðum verður þeim formlega slitið.

Ríkisstjórnin seig undan almenningisálitinu síðastliðið vor og stakk tillögu af þessu tagi ofan í skúffu utanríkisnefndar Alþingis. Eftir það hefur allt verið á huldu um hvernig stjórnin hygðist halda á málinu.

Yfirlýsing forsætisráðherra er því ekkert aukaatriði. Hún hefur augljós áhrif á stöðu landsins út á við. En hún gæti einnig leitt til breytinga á pólitísku landslagi inn á við. Samt sem áður bar hún öll merki þess að vera tilviljanakennt andsvar við áreiti fremur en ígrunduð og þaulrædd niðurstaða við ríkisstjórnarborðið eftir sjö mánaða umhugsunartíma.

Um áramótin deildu hatrömmustu andstæðingar Evrópusambandsaðildar mjög hart á ríkisstjórnina fyrir að þegja um áform sín um slit á aðildarviðræðunum. Yfirlýsing forsætisráðherra eyðir vissulega þeirri óvissu. Þó að málið sýnist að mestu órætt milli stjórnarflokkanna eru þeir eigi að síður bundnir í báða skó á eftir.

Forsætisráðherrann svaraði hins vegar engu um hitt hvernig ríkisstjórn hans hyggst tengja saman markmið um efnahagslega viðreisn þjóðarbúsins og samvinnu við aðrar þjóðir og alþjóðasamtök. Um það lykilatriði ríkir áfram grafarþögn.

Andstætt íslenskum hagsmunum

Í samtímanum ræðst efnahagsleg framþróun einstakra ríkja í verulegum mæli af því hvernig þau koma ár sinni fyrir borð í alþjóðlegri samvinnu. Eftir heimskreppuna miklu gerðu margar þjóðir þau mistök að reisa hærri múra sín á milli í stað þess að fella þá.

Í þessu ljósi er það mikið veikleikamerki fyrir ríkisstjórnina að hugmyndir hennar um utanríkisstefnuna skuli vera svo óljósar að hún er annað hvort afgreidd með þögn eða einföldum slagorðum. Um leið er þessi staða veikleiki Íslands.

Það var viturlegt af ríkisstjórninni að láta undan síga þegar fólkið í landinu reis upp gegn viðræðuslitatillögunni. Að sama skapi er það óviturlegt að ætla að þröngva henni fram nú.

Í fyrsta lagi er það skýr meirihlutavilji þjóðarinnar að hún fái sjálf að gera út um svo stórt mál hvort halda eigi viðræðunum áfram eða slíta þeim. Þar við bætist að forystumenn Sjálfstæðisflokksins lofuðu því fyrir kosningar.

Það er ögrun að hundsa þennan þjóðarvilja og þessi loforð. Svo ekki sé tekið djúpt í árinni er ólíklegt að slík ögrun verki eins og klæði séu borin á vopn. Hitt er sennilegra að hún auki á pólitískar ýfingar í ljósi þeirrar hörku sem nú er í aðsigi í kjaramálum. Það er ekki alltaf skynsamlegt að vera í orrustum á tveimur vígstöðvum samtímis.

Í öðru lagi er engin leið að færa rök fyrir því að það séu hagsmunir Íslands að loka og læsa öllum möguleikum á frekara efnahagslegu samstarfi við helstu viðskiptalöndin. Viðbrögð forystumanna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins við yfirlýsingu forsætisráðherra voru þau að kalla eftir að ríkisstjórnin sýndi þá hvernig hún ætlaði að breyta krónunni í gjaldgenga stöðuga mynt.

Vinnumarkaðurinn hefur ítrekað borið þessa spurningu fram án þess að ríkisstjórnin gæti svarað. Það er veikleiki. En ríkisstjórnin eykur þann vanmátt með því að loka leiðum.

Gíslar

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál er lýst efasemdum um að krónan dugi sem viðskiptamynt og forystu flokksins falið að kanna aðrar leiðir í þeim efnum.

Í ályktun flokksráðs Sjálfstæðisflokksins frá því í nóvember er ítrekað að engin áform séu um að hefja aðildarviðræður á ný. Athyglisvert er hins vegar að þar er hvergi minnst á afturköllun umsóknar né viðræðuslit. Ef flokksráðið hefði stutt tillögu utanríkisráðherra frá síðasta þingi hefði það verið tekið fram.

Í þessu ljósi sýnist umboð þingflokksins til formlegra viðræðuslita og afturköllunar vera afar veikt.

Það er stefna allra stjórnarandstöðuflokkanna að þjóðin eigi að ákveða framhald aðildarviðræðnanna. Ríflegur hluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins er sama sinnis og einnig nokkur hluti kjósenda Framsóknar.

Ætli ríkisstjórnin að slíta viðræðunum og hindra þjóðaratkvæði á þessu kjörtímabili bendir flest til að næstu þingkosningar snúist öðru fremur um hvort þjóðaratkvæðismenn eða þjóðaratkvæðisandstæðingar fái meirihluta.

Þegar forysta Sjálfstæðisflokksins lofaði þjóðaratkvæði fyrir síðustu kosningar var litið á það sem málamiðlun. Málamiðlun um þá málamiðlun er ekki til. Ekki verður því séð að stjórnarflokkarnir geti átt samstarf við einn eða fleiri flokka í stjórnarandstöðunni eftir að þeir hafa skellt í lás.

Neyði forsætisráðherra samstarfsflokkinn til að svíkja kosningaloforðin um þjóðaratkvæði má segja að þingmenn sjálfstæðismanna lendi í gíslingu Framsóknar. Þeir geta þá ekki unnið með neinum öðrum flokki eftir næstu kosningar. Það er þrengri taflstaða en Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í um langt skeið.

 

9. January 2015