“Ef til kemur” pólitíkin

 

Um þessar mundir eru pólitísk og efnahagsleg umbrot í heiminum meiri en verið hefur um langt skeið. Mikið er í húfi fyrir Ísland. Einu gildir í því efni hvort litið er til öryggismála, efnahagslegs samstarfs eða viðskiptatækifæra.

Ætla mætti að við aðstæður sem þessar væru öryggismál og utanríkispólitík í víðara samhengi fyrirferðarmikil í stjórnmálaumræðunni. Í reynd er þessu öfugt farið. Að því marki sem þau mál eru á dagskrá minnir umræðan helst á kött sem fer í kringum heitan graut. Þetta er því furðulegra sem ljóst má vera að viðreisn þjóðarbúskaparins verður ekki slitin úr samhengi við stöðu landsins í alþjóðasamfélaginu.

Fyrr á þessu ári flutti ríkisstjórnin tillögu til þingsályktunar um afturköllun á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Skemmst er frá því að segja að þau áform vöktu bæði hörð og víðtæk mótmæli. Eftir skoðanakönnunum er mikill meirihluti þjóðarinnar á því að ljúka þeim viðræðum sem hafnar voru.

Ríkisstjórnin sýndi af sér ráðvísi. Hún friðmæltist við þjóðina með því að láta tillöguna liggja í þekktri nefndarskúffu fram yfir þinglok í vor. Þegar þing kom saman í haust birtist þessi tillaga aftur á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

Utanríkisráðherra lét þá sérstöku athugasemd fylgja með að „ef til kæmi“ að tillagan yrði lögð fram lægi ekki fyrir hvenær það yrði. Ekki verður því sagt að ráðherrann hafi afráðið að rjúfa þann frið sem varð með því að setja tillöguna ofan í skúffu í vor sem leið. Orðalagið bendir fremur til að innan ríkisstjórnarinnar séu skiptar skoðanir á því hvernig tefla eigi úr stöðunni.

Gleymdur stjórnarsáttmáli

Markmið utanríkisráðherra sýnist vera jafn skýrt og áður. Andstæðingar frekari Evrópusamvinnu saka hann aftur á móti um hálfvelgju. Ef til vill hafa þeir nokkuð til síns máls. En eins og sakir standa skiptir hitt þó meira máli að ráðherrann sýnist vilja kunna fótum sínum forráð áður en lengra verður haldið. Það verðskuldar fremur lof en last.

Nokkra athygli vakti þegar sáttmáli núverandi ríkisstjórnar var birtur að þar var hvorki minnst á aðildina að Atlantshafsbandalaginu né evrópska efnahagssvæðinu. Þar hafa þó legið hornsteinar utanríkisstefnunnar. Sáttmálinn lagði hins vegar ríka áherslu á að nýja utanríkisstefnu ætti að byggja á samvinnu við nýmarkaðsríki eins og Kína, Indland, Rússland og Brasilíu.

Í byrjun fór utanríkisráðherra með þennan boðskap. En eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið er þó eins og þessi texti hafi smám saman gleymst. Það bendir til þess að utanríkisráðherra hafi áttað sig á að sú grundvallarbreyting á utanríkisstefnunni sem lesa mátti úr texta stjórnarsáttmálans hafi ekki verið alls kostar skynsamleg. Og svo má vera að textinn hafi einfaldlega verið lítt hugsaður.

Þær nýju aðstæður sem komnar eru upp í kjölfar deilunnar um Krímskaga varpa ljósi á þann veruleika að Ísland þarf fremur að dýpka og efla samstarfið við Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið en losa um það. Utanríkisráðherra sýnist einnig gera sér grein fyrir því að aðstæður hafa breyst að þessu leyti.

Augljóst var að stjórnarsáttmálinn var afrit af hugmyndasmíð forseta Íslands. Nú bendir flest til að utanríkisráðherra sæki hollráð annað; að minnsta kosti í einhverjum mæli. Það er framför.

Móta þarf skýra stefnu    

Í stjórnarsáttmálanum var ekki vikið einu orði að væntanlegum efnahagssamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. En þrátt fyrir það hefur utanríkisráðherra látið fylgjast með framgangi þess máls. Það ber merki um aðra hugsun en lesa má úr sáttmálanum. Það lýsir á hinn bóginn þröngsýni að ekki megi nálgast þetta framfaramál með Evrópusambandsþjóðunum.

Kjarni málsins er sá að Ísland getur ekki búið við utanríkisstefnu eins og henni er lýst í sáttmála núverandi ríkisstjórnar. Brýnir öryggis- og viðskiptahagsmunir kalla á skýra stefnumótun og framtíðarsýn á þessu sviði. Þó að utanríkisráðherra hafi gætt betur að sér upp á síðkastið en í byrjun verður ekki framhjá því litið að þessa stefnumótun þarf að ræða á breiðum grundvelli og í tengslum við viðreisn efnahagskerfisins.

Það var skynsamlegt hjá utanríkisráðherra að láta liggja milli hluta hvort til þess kæmi að tillagan um slit á aðildarviðræðunum yrði endurflutt. En menn komast ekki hjá umræðunni. Hún þarf hins vegar að eiga sér stað í stærra og víðara samhengi en sú tillaga gerði ráð fyrir.

Eðlilegast er að ráða framhaldi aðildarviðræðnanna til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjósi ríkisstjórnin hins vegar að slíta viðræðunum aukast líkurnar á að hún sjálf verði felld frá völdum í næstu kosningum. Á endanum mun þjóðin taka af skarið.

Utanríkisráðherrann virðist horfa meir á endataflið í þessari skák meðan sumir samherjar hans telja vænlegast að koma miðtaflinu í uppnám.

21. November 2014