Óhefðbundið ráðherraval

Val á nýjum ráðherrum segir jafnan sína sögu um straumfallið í pólitíkinni. Skipan nýs innanríkisráðherra í gær er engin undantekning frá þeirri reglu. Mestu skiptir vitaskuld að til þessa hlutverks valdist einstaklingur sem er hvort tveggja velhæfur og vandur að virðingu sinni.

Ýmsum fannst umtalsverðast að valið skuli hafa komið fjölmiðlum á óvart. Að sönnu er það athyglisvert á tímum þegar pólitísk leyndarmál eru að verða sagnfræðilegt fyrirbæri. Hitt er þó ekki síður vert skoðunar að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa leitað að ráðherraefni bæði innan þings og utan í röðum stjórnmálamanna sem ekki sóttust eftir því. Það er óhefðbundið.

Sú var tíð að við val á ráðherrum þótti ekki við hæfi að láta opinberlega í ljós áhuga á að setjast á þann bekk. Það var að vísu ekki svo að metnaðurinn og ákafinn hafi verið eitthvað minni. Á hinn bóginn þótti það ekki merki um styrkleika að láta um of í hann skína.

Það var ekki fyrr en um miðjan tíunda áratuginn að sú almenna venja skapaðist að þingmenn opinberuðu formlega áhuga sinn á ráðherrastólum. Það sem áður þótti veikleiki var orðið að styrkleikamerki.

Þetta er í sjálfu sér mjög í anda opnari umræðu um pólitík. Getgátur um áhuga þingmanna í þessum efnum hafa horfið. Fjölmiðlar birta einfaldlega upplýsingar um hann frá fyrstu hendi. Ekki er þó endilega víst að þessi breyting hafi bætt stjórnmálamenninguna.

Vegur Alþingis vex

Frá pólitísku sjónarhorni verður þessari skipun ekki jafnað til stöðu þeirra utanþingsráðherra sem sátu um skeið í vinstri stjórninni á síðasta kjörtímabili. Þeir komu úr röðum embættismanna og fræðimanna án pólitískra tengsla. Þeim voru einfaldlega ekki ætluð pólitísk áhrif og var fljótlega ýtt út.

Ólöf Nordal var aftur á móti til skamms tíma þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún kemur því í þungavigtarflokki inn í ríkisstjórnina. Einu gildir í því samhengi hvort hún lítur á þetta sem tímabundið verkefni eða kýs á síðara stigi að stíga skrefið til fulls á ný inn í pólitíkina. Seta hennar sem utanþingsráðherra í þessari stjórn er að þessu leyti eðlisólík veru utanþingsráðherranna í vinstri stjórninni.

Hins vegar er það algengur misskilningur að utanþingsráðherrar auki með einhverjum hætti sjálfstæði Alþingis. Stjórnskipulag sem reist er á þingbundnum ríkisstjórnum felur í sér að þær hafa forystu um þá stefnu sem þingið markar með löggjöf og ályktunum.

En segja má að athyglisverðast við þetta ráðherraval sé að forseti Alþingis skuli hafa hafnað eindreginni ósk forystu Sjálfstæðisflokksins um að taka sæti í ríkisstjórninni. Þess eru ekki mörg dæmi að þingmenn hafi skorast undan slíku kalli.

Í þeim fáu tilvikum sem þingmenn og forystumenn flokka hafa hafnað ráðherraembætti hefur það heldur verið talið veikja viðkomandi ríkisstjórnir. Ekkert bendir þó til að draga megi slíka ályktun af ákvörðun forseta Alþingis nú.

Ákvörðunin er miklu fremur til marks um að vegur Alþingis hefur verið að vaxa. Pundið í forsetastöðunni á Alþingi er einfaldlega þyngra en áður var. Þróun í þá veru hefur átt sér stað um langan tíma. En afstaða þingforsetans markar óneitanlega nokkur kaflaskil í því breytingaferli.

Breiddin var ekki sérstakt markmið     

Það var mjög í takt við hefðbundnar viðmiðanir að leita fyrst til núverandi forseta Alþingis um ríkisstjórnarsetu. Að honum frátöldum hefðu böndin átt að berast að formanni þingflokks sjálfstæðismanna. Ekki er því óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvers vegna það gerðist ekki.

Megi líta á niðurstöður prófkosninga sem merki um hver staða þingmanna er í pólitíska baklandinu stendur þingflokksformaðurinn feti framar en aðrir. Skýringin hlýtur því að eiga sér aðrar pólitískar rætur.

Formaður þingflokksins hefur talað fyrir því minnihlutasjónarmiði í Sjálfstæðisflokknum að Ísland ætti að ljúka samningum við Evrópusambandið og leyfa þjóðinni að ráða því máli til lykta. Í nokkurn tíma hefur verið ljóst að forysta flokksins ætlaði ekki að breikka málefnastöðuna á þann veg.

Að vísu hefði ráðherraembætti lokað stöðu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur til þess að vera virkur málsvari þessa minnihlutasjónarmiðs enn frekar en þingflokksformannsstaðan hefur vissulega gert. En vera hennar í ríkisstjórn hefði samt sem áður breikkað ímynd flokksins á þessu sviði.

Það er því varfærnislega dregin ályktun að meiri breidd í utanríkismálum hafi ekki verið sérstakt markmið við ráðherravalið. Fæstum ætti reyndar að koma það á óvart þó að víðari skírskotun hafi stundum verið ákvörðunarástæða við val á ráðherrum bæði í röðum sjálfstæðismanna og annarra flokka.

Niðurstaðan er sú að nýr ráðherra styrkir Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnina. En það breytir ekki hinu að ráðherravalið hefur varpað ljósi á þrönga afstöðu flokksins til Evrópumála. Hún er aftur líkleg til að takmarka vaxtarmöguleika hans í næstu kosningum; en þarf auðvitað ekki að útiloka þá.

5. December 2014