Fljót framfaranna verður ekki stíflað

 

  Fljót framfaranna verður ekki stíflað, ræða á iðnþingi 6. mars 2014

Reiptog ólíkra hagsmuna leiðir stundum til stöðnunar. En sagan sýnir einnig að í því má oft sjá fyrstu vísa að framvindu hlutanna. Og við þekkjum að stundum verða þeir að miklu hreyfiafli.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref inn á vettvang stjórnmálanna bar stjórnmálaumræðan enn merki liðinnar tíðar: Þeirra tíma þegar stjórnmálamenn þurftu ekki annað til þess að vera teknir alvarlega en að setja í ræður sínar brýningu um að standa vörð um höfuðatvinnuvegina.

Þegar ég gekk út af Alþingi í síðasta sinn heyrði slíkt orðbragð sögunni til. Frumatvinnuvegirnir voru að sönnu í sókn og stóðu vel fyrir sínu en hagsmunir framfaranna voru þá þegar orðnir víðtækari. Tal um þá eina heyrði því til rétttrúnaði liðinnar tíðar.

Eftir hrun krónunnar og fall bankanna bergmálaði á ný úr sölum Alþingis sú skoðun að réttast væri að hverfa aftur til þess tíma þegar allt hjálpræði okkar kom frá höfuðatvinnuvegunum.

Spurning dagsins snýst um það hvort þessi afturhverfa hugsun er happadrýgst fyrir framtíðina.

Nítjándaöldin fékk í vöggugjöf frá þeirri fyrri ritið Deo, regi, patrie, fyrir guð, konunginn og föðurlandið, sem Jón Eiríksson hafði samið upp úr gamalli ritgerð Páls Vídalín. Þetta framfarasinnaða rit um viðreisn Íslands byggir á þeirri hugsun að kvikfjárræktin og fiskveiðarnar séu aðalatvinnugreinar landsmanna. Þar komast höfundar að svohljóðandi niðurstöðu:

„Og ekki má gleyma því, að fiskveiðarnar verða ekki reknar eða áhersla lögð á þær nema að því leyti, sem hinn atvinnuvegurinn fær stutt þær.“

Þarna var hugsunin komin svo langt að framsæknustu baráttumennirnir fyrir viðreisn landsins litu á sjávarútveginn sem höfuðatvinnugrein. En enginn hafði hugmyndaflug til að sjá að hann gæti staðið á eigin fótum án styrkja frá landbúnaðinum.

Ég lærði betur að skilja hversu stuttur þráðurinn er í samhengi kynslóðanna þegar ég áttaði mig á að föðurafi minn fæddist á Eyrarbakka árið áður en Jón forseti dó. Hans kynslóð og ömmu minnar lifði þau firnamiklu umbrot og umskipti í íslensku samfélagi þegar sjávarútvegurinn varð að helstu uppsprettu verðmætanna.

Þessi feiknlega lífskjarabylting spratt upp úr togsteitu mikilla hagsmuna. Það var ekki auðvelt fyrir landbúnaðinn að gefa sjávarútveginum olnbogarými. Í þeirri hagsmunabaráttu var einfalt að sýna með útreikningum fram á hversu mikið væri í húfi að varðveita óbreytta stöðu. Á hinum enda kaðalsins í reiptoginu höfðu menn ekki aðra viðspyrnu en trú á þá ávexti sem jarðvegur frjálsa framtaksins gæti gefið af sér.

Kynslóð foreldra minna lifði aftur á móti tíma mikillar hugsjónabaráttu. Hugsjónir sósíalismans og kapitalismans blönduðust þá inn í reiptog hagsmunanna. Þessi hugsjónabarátta birtist mér á æskuheimili mínu í því að móðir mín sá um að Morgunblaðið kom í póstkassann á hverjum degi en faðir minn tryggði að Þjóðviljinn var aðgengilegur til lestrar um helgar.

Þrátefli þessara höfuðhugsjóna lauk eins og kunnugt er með jafntefli. Menn sættust á að virkja krafta hins frjálsa markaðar en tryggja um leið jafna möguleika allra og velferð með traustu öryggisneti samfélagslegrar ábyrgðar. Í Svíþjóð höfðu sósíaldemókratar frumkvæði að því að bjóða upp á þetta jafntefli. Á Íslandi var það Sjálfstæðisflokkurinn.

Með hæfilegri einföldun má segja að sex þjóðir Evrópu hafi ákveðið að skjóta traustum stoðum undir þetta jafntefli hugsjónanna með pólitískri og efnahagslegri samvinnu sem smám saman hefur þróast í það Evrópusamband tuttugu og átta fullvalda þjóða sem við þekkjum í dag. Sú samvinnuhugsjón hefur myndað einn öflugasta markað í heimi og eina sterkustu mynt alþjóðaviðskiptanna.

Á tíma minnar kynslóðar hafa menn glímt við það viðfangsefni að tryggja framtakssamri hugsun athafnarými utan þeirra landamæra sem fullveldisréttur þjóðarinnar nær til. Það hefur verið gert með varfærnislegum skrefum sem eðli máls samkvæmt byggja á gagnkvæmum ávinningi þeirra sem eiga með sér samstarf. Við eigum einfaldlega engan ókeypis rétt fyrir innan fullveldislínu annarra þjóða.

Að baki sérhverju skrefi sem stigið hefur verið liggur saga deilna og mikilla átaka ólíkra hagsmuna. Engum blandast þó hugur um að það aukna frelsi sem þannig hefur verið áunnið hefur verið mikilvæg forsenda framfara.

Kynslóð barnanna minna finnst svo að það eigi að vera jafn sjálfsagt eins og að drekka Gvendarbrunnavatnið að hún megi nýta þekkingu sína og tækni nútímans án þeirra gömlu landamæratakmarkana sem voru sjóndeildarhringurinn sem langafar þeirra og langömmur þurftu að sætta sig við. Okkar stærsta hlutverk er að gefa þessari kynslóð færi á að veita þekkingu sinni og kröftum viðnám.

Flestir eru á einu máli um að stíga þurfi ný skref í alþjóðasamvinnu til að skapa frekari skilyrði til vaxtar. Deilan stendur um það hvort það eigi að gera innan ramma þess samstarfs sem efnahags- og utanríkispólitík landsins hefur grundvallast á til langs tíma eða með hinu að leita nýrra bandamanna.

Þriðja leiðin er ekki til; því við getum ekki fremur en okkur aflmeiri þjóðir skákað hagsmunum stórvelda heimsins sitt á hvað. Við höfum þrátt fyrir smæðina alla burði til að standa á eigin fótum og verja hagsmuni okkar í samvinnu þeirra vestrænu þjóða sem eru brjóstvörn mannréttinda, lýðræðis og frjálsrar samkeppni.

Þeir sem andmæla því að nýtt skref verði stigið á þessari braut og á grundvelli þessara hugsjóna bera helst fyrir sig hagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar. Við verðum því að brjóta þá umræðu til mergjar.

Forystumenn þessara gömlu höfuðatvinnugreina hafa ekki einasta fullan rétt til að verja hagsmuni þeirra. Við eigum beinlínis að líta svo á að það sé skylda þeirra í þágu hagsmuna alls almennings í landinu.

Sjálfur er ég afar þakklátur fyrir það tækifæri sem mér gafst til þess að berjast fyrir því á pólitískum vettvangi að útvegurinn fengi kost á að auka arðsemi sína í aflahlutdeildarkerfi og með frjálsu framsali veiðiréttarins. Réttilega hefur verið á það bent að þessi skipan hefur takmarkað aðgang að atvinnugreininni.

Kaldi veruleikinn var bara sá að þetta var eina leiðin til að knýja fram meiri afrakstur með minni tilkostnaði. Þetta var vegurinn til aukinnar framleiðni sem er undirstaða batnandi lífskjara allra. Það var einfaldlega ekki hægt að fjölga þeim sem rétt höfðu til veiða nema allir aðrir væru tilbúnir til að sætta sig við verðminni krónur í launaumslaginu.

Þetta má kalla forréttindi en þau hafa óumdeilanlega verið í almannaþágu og til stórstígra framfara í þjóðarbúskapnum. En útgerðin nýtur annarra forréttinda: Hún má færa reikninga sína í erlendri mynt, hún hefur tekjurnar í erlendri mynt og hún tengir laun sjómanna við erlenda mynt. Aðeins fáir aðrir njóta þessarar aðstöðu og alls ekki launafólk.

Í þessu tilviki eru engar líffræðilegar takmarkanir á því hversu margir geta notið sambærilegrar aðstöðu svo að það megi teljast hagkvæmt. Það eru því ekki réttmætir hagsmunir útvegsins þegar hann þrýstir af öllu sínu mikla afli á stjórnvöld til að koma í veg fyrir að nýsköpunaratvinnugreinarnar og launafólk fái notið þessa sama hagræðis.

Fyrir slíkri kröfu eru hvorki siðfræðileg né hagræn rök.

Á sínum tíma var ég kjörinn til setu á Alþingi í stærsta landbúnaðarhéraði landsins. Ég hafði sannfæringu þá og hef reyndar enn, þótt ég sæki ekki lengur atkvæði til bænda, að rétt sé að verja hagsmuni þessarar rótgrónu atvinnugreinar burtséð frá hefðbundnum arðsemisútreikningum. Sinfónían uppfyllir ekki heldur þær kröfur. Og mér þætti líka óhugsandi að missa hana.

Landbúnaðurinn er hluti af atvinnumenningu þjóðarinnar. Forystumenn hans eiga þakkir skyldar fyrir ötula baráttu fyrir rífandi framleiðniaukningu og til að viðhalda skilningi almennings á mikilvægi þess að hann hverfi ekki. Þjóðin hefur sýnt að hún lítur svo á að þessi hagsmunagæsla sé í þágu heildarinnar.

Hitt er ekki siðferðilega réttmætt að forystumenn landbúnaðarins notfæri sér þennan almannavilja til fá stjórnvöld til að hindra að nýsköpunargreinarnar fái nauðsynlega aðstöðu og frelsi til að auka verðmætasköpunina í búskap þjóðarinnar. Það er einmitt hún sem í framtíðinni á að standa undir þeim almannahagsmunum að unnt verði að halda áfram að styrkja landbúnaðinn og ekki þurfi til þess að koma að forgangsraða milli hans og velferðarkerfisins.

Það er alltaf svo og verður alltaf að einhverjir hafa skammtíma hagsmuni af því að halda niðri hagsmunum annarra. Enn það á ekkert skylt við þá hagsmunaglímu þar sem nýir kraftar brjótast fram.

Veruleikinn er sá að engin framfaraskref hafa verið tekin sem ekki hafa haft í för með sér einhvern sársauka við aðlögun að nýjum aðstæðum, stundum mikinn og stundum lítinn. Þeir stjórnmálamenn sem loka augunum fyrir því ættu að snúa sér að öðru. En það ættu þeir líka að gera sem treysta sér ekki til að sækja og verja þann málstað að meiri hagsmunir séu teknir fram yfir þá minni.

Þegar stjórnvöld ákváðu að sækja um aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu á áttunda áratug síðustu aldar var í mörg horn að líta. Margir horfðu ekki á viðfangsefnið frá víðara sjónarhorni en svo, að það væri hlutverk sjávarútvegsins að afla gjaldeyris, iðnaðarins að spara hann og veslunarinnar að eyða honum.

Ein stærsta grýlan í umræðunni var sú framtíðarsýn að bakaraiðnin myndi hverfa og landið sökkva niður á hafsbotn innfluttra tertubotna. Þetta töldu ýmsir sig hafa sannað með útreikningum. Fylling tímans færði okkur aftur á móti samkeppnishæfa, framfarasinnaða og blómstrandi iðngrein.

En það voru fleiri ljón á veginum. Margir iðnrekendur sáu ekki hvernig landið fengi þrifist án þess að þeir sjálfir nytu tollverndar. Svo var hitt að Fríverslunarsamtökin snerust einvörðungu um iðnað. Okkar stóru hagsmunir voru fríverslun með fisk.

Ef metnaður forystumanna ríkisstjórnarinnar á þeim tíma hefði verið lítill og sjálfstraustið minna hefðu þeir væntanlega sagt við þjóðina: Þetta er ekki hægt. Þarna eru þjóðir sem við eigum í stríði við vegna útfærslu landhelginnar. Þær munu aldrei fallast á íslenska sérhagsmuni vegna sjávarútvegsins, sem regluverk þeirra nær ekki einu sinni til. Við skulum því sitja heima með hendur í skauti.

Það varð þjóðinni til happs að hún átti á þessum tíma forystumenn með metnað fyrir hennar hönd og sjálfstraust til að bera fram og semja um íslenska sérhagsmuni, þó að ekki væri í byrjun augljóst að þeir myndu hafa erindi sem erfiði.

Það þarf hvorki sjálfstraust né metnað til þess að taka stórt upp í sig í kappræðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu gegn samningum við útlendinga. Sá leikur byggist á því að tala ekki við nokkurn mann utan landsteinanna. En þessir mannlegu eðliskostir eru forsenda fyrir hinu að unnt sé að tryggja íslenska hagsmuni með einörðum málflutningi og rökum við samningaborðið.

Í þessu sögulega ljósi ættu allir að sjá að það eru ekki haldbær rök gegn nýju viðbótar skrefi til frekari samvinnu við þær þjóðir, sem við höfum svo lengi átt samleið með, að þær muni ekki hlusta á okkur. Þeir sem hafa stolt og metnað fyrir landið sitt láta á það reyna. Svo samþykkjum við ekkert nema við séum sannfærð um að það sé til heilla og horfi til framfara fyrir heildina.

Allt þetta endalausa tal á rætur í því að við viljum auka framleiðni atvinnulífsins og skapa meiri verðmæti í þjóðarbúskapnum. Það er enginn annar vegur að því marki að geta sett fleiri krónur með öruggu verðgildi í launaumslögin og halda megi áfram að treysta velferðarkerfið í stað þess að horfa á það molna.

Léleg framleiðni stafar ekki af leti eða ódugnaði. Hún á fyrst og fremst rætur í ófullkomnum kerfum, ónógri samkeppni, viðskiptahindrunum og veikburða gjaldmiðli. Við eigum ekki að halda áfram að sættast við þröngan kost fyrirtækja og vinnandi fólks heldur breyta kerfunum og aðstæðunum.

Vandinn er að nýgræðingurinn í íslensku atvinnulífi mun á næstu árum gefa miklu minna af sér en vænta mætti fyrir þá sök að hann nýtur ekki sömu skilyrða og þeir keppinautar sem hafa bólfestu í grannríkjunum.

Við getum ekki reiknað tapið sem af því hlýst að nýjabrumið á þessu sviði hverfur nú úr landi eða uppgötvanir þess eru seldar fyrirtækjum í öðrum löndum þegar að því kemur að leita þarf eftir viðskiptavinum. Því er spurt:

Hvað er að því að íslensk fyrirtæki hafi sama aðgang að mörkuðum og erlendir keppninautar?

Hvað er að því að þau greiði álíka vexti?

Hvað er að því að þau geti gert áætlanir í sama gjaldmiðli?

Hvað er að því að þau geti fengið fjárfestingarfé erlendis frá?

Hvað er að því að launafólk á Íslandi njóti sama afkomuöryggis og launamenn þeirra ríkja sem njóta sveifluminni gjaldmiðla?

Hvað er að því að lifeyrisspanaður landsmanna verði ávaxtaður í traustari mynt en íslenskri krónu?

Auðvitað er ekkert að þessum óskum. Enginn svarar heldur á þann veg.

En hér er tekist á um hagsmuni. Leyfum góðum og gildum hagsmunum að takast á. Forðumst hitt að leyfa hagsmunum eins að takmarka hagsmuni annars. Lofum afli hagsmunatogstreitunnar og framfaraviljans að leysast úr læðingi.

Sýnum það stolt og þann metnað sem þörf er á til að starfa með öðrum þjóðum og semja um gagnkvæma hagsmuni þegar þess er kostur.

Gefumst aldrei upp fyrir fram.

Er ekki í raun og veru auðvelt að sameinast um þetta? Síðustu dagar hafa sýnt að umræðan um þetta stóra viðfangsefni er föst í þrætum um formsatrið, og í skotgrafahernaði stjórnmálamanna um það álit sem þeir hafa hver á öðrum.

Sá jarðskjálfti sem orðið hefur í umræðunni um þessa hlið málsins ætti að gefa okkur tilefni til að setja efnislega umfjöllun aftur á byrjunarreit og reyna að brjóta til mergjar þá heildarhagsmuni sem eru í húfi.

Það er ekkert lyf til án aukaverkana. Ekkert skref fram á við í alþjóðasamstarfi er án aukaverkana. Verkefnið er að meta þær og ávinninginn en ekki að horfa á hvorn þáttinn fyrir sig.

Trúum því að allir vilji Íslandi vel þó að þeir leggi ólíkt mat á viðfangsefnið. Aðeins þannig getum við nálgast málefnalega og skynsamlega niðurstöðu. Tíminn er dýrmætur, en tökum þann tíma sem þarf.

Gerum bara ekkert sem stíflar fljót framfaranna.

7. March 2014