Er ánægjuvísitalan besti áttavitinn?

 

Óumdeilt er að ríkisstjórnin hefur sett heimsmet í niðurgreiðslu á verðbólgu húsnæðislána liðins tíma. Forsætisráðherra mælti á Alþingi í vikunni fyrir skýrslu um málið eftir að umsækjendur höfðu fengið svör um hvað kom í hlut hvers og eins. Mat hans á mikilvægi aðgerðanna var hins vegar mjög misvísandi.

Annars vegar sagði ráðherrann að dagurinn væri sá gleðilegasti á þingferlinum. Hins vegar mátti hann ekki vera að því að taka þátt í umræðunni því hann hafði öðrum miklu mikilvægari hnöppum að hneppa. Forseti Alþingis átti því ekki annarra kosta völ en að slá gleðinni á frest.

Þetta atvik segir nokkra sögu um virðinguna fyrir Alþingi. En það sýnir líka að forsætisráðherra mat einhver önnur mál meir en þessa miklu gleðistund. Það kann vel að vera eðlilegt mat. Þar af leiðandi vaknar sú spurning hvaða mælikvarða er rétt að nota til að meta gildi þessa heimsmets.

Menn geta sett heimsmet bæði í framförum og axarsköftum. Þau eru því ekki ein og sér góður mælikvarði. En svo er ánægjuvísitalan. Er almenningur ánægður eða óánægður? Það er einfalt að mæla.

Forsætisráðherra var sannfærður um að þjóðin fyndi til sömu gleði og hann sjálfur daginn sem tilkynnt var um skiptingu silfursins. Nú hefur verið staðfest í skoðanakönnun að hann hafði rétt fyrir sér um ris ánægjuvísitölunnar.

Spurningin er aftur á móti hvort nota eigi einhverja aðra mælistiku en gleði fólks á þeirri stundu, sem það fær tilkynningar um innborganir á reikninga sína, til að finna út hvort þessi ráðstöfun telst skynsamleg, ábyrg og horfi til framfara?

Viðskiptahallavísitalan fyrir hrun

Almennt er erfitt að andmæla því að afstaða kjósenda sé stóridómur um verk stjórnmálamanna. Samt er það svo að ánægjuvísitala augnabliksins hefur stundum reynst vegvilluvísir.

Á árunum fyrir hrun reis ánægjuvísitalan meir en elstu menn rak þá minni til. Gengi krónunnar hækkaði og hækkaði. Það var unnt að fá meir og meir fyrir hverja krónu sem kom í launaumslagið, fara oftar til útlanda en draumar manna höfðu áður staðið til og kaupa nýja bíla í stærri stíl en áður þekktist. Fáir vildu fella ánægjuvísitöluna með því að segja að allt þetta væri óraunverulegt og byggt á froðu.

En svo kom að því að raunveruleikinn tók í taumana. Við köllum það hrun. Flestar þjóðir urðu fyrir miklum áföllum á sama tíma en fáar eins þungum og við. Í reiðinni sem fylgdi í kjölfarið voru æði margir á því máli að tölurnar um viðskiptahallann hefðu verið betri áttaviti en ánægjuvísitalan.

Þetta var auðvelt að sjá eftir á. En það hefði vissulega verið pólitískt vafningasamt að eyðileggja alla gleðina þegar hún stóð sem hæst.

Í ljósi þessarar reynslu sem þjóðin hefur sannarlega ekki enn bitið úr nálinni með er ærið tilefni til þess að skoða í alvöru hvort ekki sé rétt að nota aðra mælikvarða á heimsmetið en ánægjuvísitölu líðandi stundar. Markmiðið hlýtur að vera að skapa þær raunverulegu undirstöður í þjóðarbúskapnum að við getum kinnroðalaus borið kaupmátt heimilanna og velferðarþjónustuna saman við það sem best gerist í grannlöndunum. En það næst ekki fyrirhafnarlaust.

Ríkisskuldavísitalan eftir hrun

Í fjárlögum ársins fyrir hrun vildi stjórnarandstaðan nota allan ávinning ríkissjóðs af froðumynduninni í hagkerfinu til að auka útgjöld til mikilvægra verkefna. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að nota hluta af tekjuaukanum, sem froðan gaf, til að greiða niður skuldir. Hún horfði jöfnum höndum á ánægjuvísitöluna og viðskiptahallavísitöluna meðan stjórnarandstaðan horfði einungis á ánægjuvísitöluna.

Sem betur fer var íhaldssamari leiðin valin. En við sjáum nú að ríkisstjórnin hefði betur verið miklu íhaldssamari og einblínt á viðskipahallavísitöluna.

Aðstæður eru með öðrum hætti nú. Vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs eru svo miklar að um mörg ókomin ár verða skólarnir og heilbrigðisþjónustan í fjárhagsfjötrum. Brýnasta málið er því að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er einnig forsenda fyrir því að Ísland eigi kost á fjármagni á samkeppnishæfum kjörum.

Aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum hafa fram til þessa aðeins skilað hallalausum ríkissjóði. Menn sjá enn ekki fram á að geta greitt niður skuldir. Í því ljósi sýnist vera alveg ljóst að til lengri tíma litið hefði verið ábyrgara og skynsamlegra að nota þá fjármuni sem nú fara í niðurgreiðslu á sex ára gömlu verðbólguskoti til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Stjórnarandstöðuflokkarnir gagnrýna ríkisstjórnina réttilega. Þeir vilja nota peningana í allt mögulegt annað en þessa niðurgreiðslu á verðbólgu liðins tíma. En gagnrýni þeirra væri markvissari og þyngri ef þeir hefðu forgangsraðað og tekið þá erfiðu en ábyrgu afstöðu að einvörðungu væri réttlætanlegt að nota þennan tímabundna tekjustofn í því skyni að lækka sameiginlegar skuldir allra.

Þannig hefði gagnrýni stjórnarandstöðunnar getað þyngt til muna róður ríkisstjórnarinnar eftir striki ánægjuvísitölu líðandi stundar.

14. November 2014