Þegar Bör Börson endurholdgaðist

Þorsteinn Pálsson:
Ris og fall krónunnar og bankanna
Ræða á starfsmannaráðstefnu Landsbankans, 24. ágúst 2010

 

 

Þeir þættir í mannlegu eðli sem orsökuðu íslenska Hrunið eru sígilt viðfangsefni og fjarri því að vera sér íslenskir.

Í skáldsögu sinni um Bör Börson, krambúð hans og Sparisjóð Öldurdæla leiddi norski rithöfundurinn Johan Falkberget hugann að mörgum þeim sömu mannlegu brestum sem við sjáum í minna skáldlegri framsetningu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Ef við vissum ekki að þessi vinsæla skáldsaga var skrifuð á öndverðri síðustu öld gætum við hiklaust sagt að hún væri býsna nákvæm skopstæling á því sem hér gerðist.

Halldór Laxness velti líka svipuðum álitaefnum fyrir sér. Var hann forspár þegar hann skrifaði Guðsgjafarþulu? Þar lét hann Íslandsbersa segja:

„En því miður, Íslandi er haldið á floti af bánka í London, Ísland getur sokkið á morgun ef þeir vilja í London.“

 

 

 

 

Bendir slíkur skáldskapur til að hugsunin um atburði af þessu tagi hafi lengi blundað í undirmeðvitund þjóðarinnar?

Eftir Íslandsbersa er einnig haft: „Þeir veita ekki lán út á ekkjur í London; guð ekki heldur.“

Var þetta ef til vill það einfalda lögmál sem á endanum brást? Skynjaði Halldór Laxness fyrir fjórum áratugum það sem bankamenn og forstjórar 21. aldar lokuðu augunum fyrir, að á bak við lán þurfti verðmæti, ekki bara snoturt hjartalag?

Við tölum gjarnan um bankahrunið. En voru það bara bankarnir sem hrundu? Svarið er nei. Fyrst hrundi sjálf undirstaða bankastarfseminnar, gjaldmiðillinn.

Ísland á ekki lengur gjaldgenga mynt. Sú staðreynd er hins vegar lítið rædd, nema að því leyti sem flestir forystumenn þjóðarinnar lofsyngja krónuna sem einhvers konar þjóðargæfu eða kraftaverkalækningu.

Hætt er við að umræðan um Hrunið færi okkur lítið úr stað ef við ætlum til frambúðar að loka augunum fyrir því hvað hrundi. Í dag erum við í sömu stöðu og Íslandsbersi þegar víxlarar á Englandi vildu heldur kaupa falsaða peninga en íslenska.

 

 

 

 

Við erum enn að velta því fyrir okkur hverjir brugðust. Voru það stjórnmálamennirnir? Voru það bankamennirnir? Eða var það þjóðin öll?

Hvað var það sem brast með þjóðinni? Var það siðferðið? Var það þekkingin? Eða ef til vill kjarkurinn til að horfast í augu við veruleikann?

Þjóðin hafði það gott árið 2007. Vandinn er sá að hún lifði um efni fram. Að því leyti var hrunið leiðrétting. Það var vitlaust gefið. Eins má segja að þjóðin hafi verið vakin úr draumaheimi. Spurningin er: Vildum við vakna fyrr til þess veruleika sem við blasti?

Holtaþoka

Stjórnmálaumræðan mótar andrúmsloft hvers tíma. Andrúmsloftið hefur aftur áhrif á ákvarðanir þeirra sem stjórna landinu, fyrirtækjunum og heimilunum.

Í ævisögu séra Sigurðar Stefánssonar alþingismanns í Vigur greinir frá því hvernig Jónas frá Hriflu skipti mönnum í samvinnumenn og stuðningsmenn kaupmanna, góða menn og vonda.

Þessi skipting eitraði síðan alla stjórnmálaumræðu á þeirri tíð.

 

 

 

 

Einu gilti hvað menn aðhöfðust í viðskiptum. Samvinnumenn voru hvítir englar en kaupmenn þrjótar eða öfugt eftir því hvaðan á var horft.

Á síðustu árum liðinnar aldar fór þess að gæta að forystumenn í stjórnmálum skiptu atvinnulífinu á ný upp í fylkingar góðra manna og vondra. Allt var það með svipuðum hætti og á Hriflungatíð.

Siðferðilegum mælikvörðum var beitt eftir því hverjir áttu í hlut en ekki eftir því hvað gert var. Siðferðileg viðskiptatvíhyggja löngu liðinnar tíðar var vakin til lífs á ný.

Hættan við að nota viðskiptalífið í þessum tilgangi er augljós. Allir hópar eiga óvini sem sjá brestina, en þeir geta um leið treyst á að þeir sem vinveittir eru loki augunum. Smám saman slaknar á aðhaldinu og menn ganga á lagið. Á endanum fer illa.

Þetta er ein af skýringunum á því að við vöknuðum ekki í tíma. Það sem verra er: Þjóðfélagsumræðan virðist enn vera föst í þessu fari. Á vettvangi stjórnmálanna hefur enginn tekið afgerandi forystu um að lyfta röksemdafærslunni á hærra plan.

 

 

 

 

 

Það gefur tilefni til að spyrja: Er almenningsálitið ekki að kalla á málefnalegri umræðu?

Svo er annað: Fyrir aldarfjórðungi eða svo sátu forstjórar helstu fyrirtækja landsins sjálfir í stjórnum samtaka vinnuveitenda. Þeir sátu á sáttafundum nótt eftir nótt í kjaradeilum við bensínafgreiðslumenn og fiskverkakonur.

Með nýrri kynslóð stjórnenda urðu þeir of stórir og fínir til að standa í slíku sjálfir. Fyrir vikið rofnaði jarðsambandið sem áður tryggði að menn skildu hvern annan þó að þeir gegndu mismunandi hlutverkum í fyrirtækjum.

Hvort tveggja þetta, tvíhyggjan og jarðsambandsleysið, leiddi þjóðina inn í holtaþoku og vegvillur.

Hefði annars konar ríkisstjórn breytt rás atburða?

Spyrja má hvort kjósendur hefðu getað komið í veg fyrir Hrunið með því að velja aðra flokka til valda í byrjun aldarinnar? Til þess að leita svara við þessari spurningu er nauðsynlegt að líta á nokkur kennileiti.

Um einkavæðingu bankanna var lítill hugmyndafræðilegur ágreiningur. Þannig steig vinstri stjórnin 1988 til 1991 fyrsta skrefið með einkavæðingu Útvegsbankans.

 

 

 

 

Gagnrýnin á sölu Landsbankans og Búnaðarbankans í byrjun þessar aldar var tæknileg og laut að söluaðferðinni. Hún sætir líka réttmætri gagnrýni í skýrslunni.

Við hefðum því að öllum líkindum fengið einkabanka með vinstri stjórn en mögulega með öðrum eigendum. Hvort þeir hefðu betur kunnað fótum sínum forráð er ógerningur að dæma um.

Stefnan um fljótandi krónu með verðbólgumarkmiði í opnum alþjóðaviðskiptum var ágreiningslaus og mótuð í samstarfi allra flokka í byrjun aldarinnar. Öll þau vandamál sem af því hlutust hefðu því orðið þau sömu.

Hávaxtastefnan hefði eftir sem áður dælt inn erlendu lánsfé úr öllu samhengi við verðmætasköpunina í landinu.

Trúlega væri engin Kárahnjúkavirkjun og ekkert álver í Reyðarfirði ef VG hefði verið í ríkisstjórn. Það hefði dregið úr þenslu en ekki nóg til að koma í veg fyrir Hrun.

Á móti kæmi að engar gjaldeyristekjur væru nú af útflutningi þaðan.

Enginn grundvallarágreiningur var um auknar lánveitingar Íbúðalánasjóðs fyrr en eftir á.

 

 

 

 

 

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bitust um það í kosningunum 2003 hvor biði meiri skattalækkanir.

Við fjárlagagerðina fyrir árið 2007 vildi stjórnarandstaða Samfylkingar og VG eyða í aukna samneyslu öllum þeim litla afgangi sem þáverandi ríkisstjórn áformaði að geyma.

Á þeim tíma töldu Samfylkingin og VG með öðrum orðum að óhætt væri að kosta samneysluna með tekjum af viðskiptahallanum. Þar var enginn grundvallarágreiningur.

Vafalaust hafa ýmsir séð þær hættur sem stöfuðu af 25% viðskiptahalla. Enginn stjórnmálaflokkur gekk hins vegar hreint til verks og sagði að koma yrði í veg fyrir þann lífskjarabata sem vaxandi viðskiptahalli bauð upp á.

Enn síður fundust þeir sem sögðu að vinda yrði ofan af þeim lífskjörum sem skuldasöfnunin veitti. Kaldi veruleikinn er þó sá að það var eina leiðin til að hindra það sem verða vildi. Það vantaði einfaldlega framboð á íhaldsúrræðum.

Niðurstaðan er þessi:

Álitamál er hvort annars konar einkavæðing hefði leitt til meiri varkárni í bankastarfsemi og við með því komist hjá falli bankanna.

 

 

 

 

 

Ekkert bendir til að önnur stjórn hefði heft viðskiptahallann og með því komið í veg fyrir hrun krónunnar.

Skýrslan er undirstaða málefnalegrar umræðu

Athyglivert er að eðli stjórnmálaumræðunnar hefur ekkert breyst eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Fram hjá því verður þó ekki horft að skýrslan leggur góðan grundvöll að málefnalegri og upplýstri umræðu um endurreisn samfélagsins.

Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan hafa þó kosið að nota skýrsluna sem vegvísi að endurnýjaðri hugmyndafræðilegri umræðu.

Efni hennar hefur helst verið notað til þess að viðhalda þeim skotgrafahernaði sem ríkti fyrir Hrun. Umræðan ber þess lítil merki að menn fengu nýja málefnalega viðspyrnu.

Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á samhengi og baksvið þess sem gerðist. Hún byggir á glöggri hagfræðilegri og viðskiptalegri greiningu á rás efnahagslífsins og þróun bankanna og stærstu fyrirtækja í landinu.

Vera má að það hafi valdið einhverjum vonbrigðum að í henni voru ekki falin mikil ný sannindi. Satt best að segja er það þó

 

 

 

 

 

 

fremur til að auka trúverðugleika verksins.

Með vissum hætti má segja að athyglisverðustu niðurstöður á hagfræðilegri hlið málsins séu þær að í raun réttri var fall bankanna óumflýjanlegt eftir 2006.

Eftir þau tímamörk hefðu nær allar aðgerðir eða athafnir af hálfu ríkisstjórnar, Seðlabanka og fjármálaeftirlits leitt til þess að flýta falli bankanna.

Það er helst að kröftug uppbygging gjaldeyrisvarasjóðs hefði komið að einhverju haldi eftir 2006. Þeir fjármunir hefðu þá ekki verið nýttir til að hækka laun opinberra starfsmanna eða í opinbera fjárfestingu í velferðarkerfinu.

Var þjóðin tilbúin til að færa fórnir og nota þær krónur í varnir fyrir fjármálakerfið og fjármálalegan stöðugleika? Hafði hún skilning á því? Eða brugðust stjórnmálamenn í því að koma henni í skilning um það?

Andvaraleysið hlóðst upp að því er best verður séð frá aldamótum og fram til 2006. Vandinn er hins vegar sá að erfitt er að skilgreina einhvern einn atburð á þeim árum sem þau vatnaskil að allir máttu sjá hvert stefndi.

Viðskiptahallinn sem fylgdi í kjölfarið er þó órækur

 

 

 

 

 

vitnisburður um að þjóðarbúskapurinn færði mönnum betri lífskjör en hann stóð undir.

Það er gömul saga og ný að ekki hefur verið til vinsælda fallið að segja frá þeim veruleika í heyranda hljóði fyrr en í fyrsta lagi eftir á.

Veikleikar skýrslunnar

Veikleikar skýrslunnar snúa ekki að hagfræðilegri og viðskiptalegri greiningu á því að krónan hrundi og bankarnir féllu eða þeirri gagnrýni á viðskiptahætti stjórnenda og eigenda bankanna sem þar kemur fram. Þeir snúa fremur að réttarstöðu þeirra embættismanna og stjórnmálamanna sem sæta áfellisdómum.

Að sumu leyti eru þessir veikleikar formlegs eðlis.Nefna má í því sambandi að skautað er í kringum sjónarmið um vanhæfi nefndarmanna með léttari hætti en lesa má úr dómum og úrlausnum umboðsmanns Alþingis á umliðnum árum.

Þá er ljóst að andmælaréttur þeirra stjórnmálamanna og embættismanna sem hlut eiga að máli var aðeins formlegur en ekki efnislegur.

Hér má einnig nefna að hugtakið vanræksla er notað í rýmri

 

 

 

 

 

 

merkingu en hefð er fyrir í dómaframkvæmd.

Efnislegu ágallarnir eru þeir að ekki er sýnt fram á orsakasamhengi milli falls bankanna og einstakra athafna og athafnaleysis á árinu 2008 sem eru tilefni ásakana um vanrækslu nokkurra stjórnmálamanna og embættismanna.

Þá er erfitt að koma því heim og saman að athafnir eða athafnaleysi á árinu 2008 geti verið tilefni til lagalegrar ábyrgðar í því ljósi að nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að bönkunum hafi ekki verið viðbjargandi eftir 2006.

Hugsanlega hefði verið ódýrara að flýta falli bankanna á fyrri hluta ársins 2008. Nefndin sýnir þó ekki fram á það. Þjóðnýting Glitnis flýtti sennilega fyrir fallinu. Sú ákvörðun sætir eigi að síður gagnrýni í skýrslunni.

Sálin og frystihúsin

Hrun krónunnar og bankanna hefur leitt til þó nokkurrar þrætubókar um hugmyndafræði. Forsætisráðherra hefur hafnað stefnu breska Verkamannaflokksins, svokölluðum Blairisma, og beðist afsökunar á að flokkur hans skyldi hafa gengið slíkri öfga frjálshyggju á hönd.

Við þekkjum hins vegar lítið þá hugmyndafræði sem á að

 

 

 

 

koma í staðinn en kynnumst henni smám saman. Síðan hefur stjórnarandstaðan verið heldur spör á hugmyndafræði af sinni hálfu.

Í Kristnihaldinu lét Halldór Laxness Umboðsmann biskups og séra Jón prímus takast á um djúpar hagfræðilegar og siðrænar spurningar. Þannig sagði Umboðsmaður biskups:

„Það er mín skoðun að sálin hafi forgangsrétt umfram hraðfrystihúsin.“

Séra Jón svaraði: „Ég held að hraðfrystihúsin séu nær guði en sálin.

Umbi: Ég hefði þó haldið að fyrsta skrefið væri að koma sér saman um, að eitthvað sé satt, og reyna síðan að lifa eftir því í félagi.“

Var ekki tilgangur rannsóknarskýrslunnar einmitt sá að við gætum komið okkur saman um það sem er satt, svo að við mættum síðan lifa eftir því í félagi? Hvernig hefur það gengið?

Rannsóknarskýrslan svarar því að vísu ekki hvort sálin standi nær guði en hraðfrystihúsin.

En niðurstaða hennar er skýr um annað. Fall bankanna og

 

 

 

 

hrun krónunnar er ekki skrifað á reikning markaðshagkerfisins og þeirra breytinga í frjálsræðisátt sem orðið hafa síðasta aldarfjórðung.

Það sem á skorti var fyrirhyggja og virðing fyrir reglum og siðferðilegum gildum bæði í rekstri þjóðarbúsins í heild, í bönkunum og einstökum fyrirtækjum atvinnulífsins.

Krónan hrundi og bankarnir féllu í sams konar hagkerfi og nágrannar okkar á Norðurlöndum búa við. Margir kusu hins vegar að nota þessa atburði til að krefjast grundvallarbreytinga á hagkerfinu.

Þau sjónarmið fengu meðbyr í kosningunum fyrir ári. Sá ríkisstjórnarflokkanna sem vill ganga lengra en aðrir flokkar í því að hverfa frá markaðshagkerfinu kaupir augljóslega ekki þá niðurstöðu skýrslunnar að ekki sé við markaðskerfið að sakast.

Þó að skýrslan leiði í ljós að grundvallarreglur hagkerfisins hafi verið þær sömu og hjá þeim þjóðum sem við tengjumst helst menningarlega og viðskiptalega standa hin breiðu pólitísku spjót eigi að síður á frjálshyggjudraug sem hvergi kemur við sögu í rannsóknarskýrslunni.

Engum vafa er undirorpið að við svo búið hljóta

 

 

 

 

 

hugmyndafræðileg átök um grundvöll hagkerfisins að verða Þrándur í Götu endurreisnarinnar. Minni orka fer að sama skapi í að taka á því sem raunverulega brást og rannsóknarskýrslan gerir góða grein fyrir.

Þegar kemur að hugmyndafræðinni um það hvernig stýra á samfélagi eins og okkar hefur skýrslan ekki enn megnað að leiða menn saman um það sem er satt og lifa má eftir í félagi.

Eitt skýrasta dæmið um þetta eru þær breytingar sem verið er að gera á skipulagi sjávarútvegsins. Þar er smám saman verið að hverfa frá markaðsskipulagi til félagslegra sjónarmiða og lausna. Ríkisstjórnin tekur ekki málstað hraðfrystihúsanna af því að þau þurfi að bera sig fremur en séra Jón prímus.

Hvert stefnum við?

Hvert stefnum við? Fátt er til svara við þeirri spurningu.

Við erum enn að lifa á lánum eins og fyrir Hrun. Við erum að veikja höfuðatvinnugrein þjóðarinnar. Við erum ekki að koma fótum undir nýja fjárfestingu til þess að auka verðmætasköpun.

Með tilstyrk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er okkur þó væntanlega að takast að stöðva afleiðingar Hrunsins. Sjóðurinn fer hins

 

 

 

 

 

 

vegar eftir eitt ár.

Eftir það stöndum við á eigin fótum. Þá lýkur félagslegri fjármálaaðstoð alþjóðasamfélagsins. Hvert stefnir þaðan í frá?

Við gerðum upp við fortíðina í kosningum fyrir ári. Við höfum á hinn bóginn ekki fengið tækifæri til að kjósa um framtíðina enn. Enginn stjórnmálaflokkur hefur lagt framtíðarsýn fyrir kjósendur.

Ísland einangraðist í ársbyrjun 2008. Í einni af mörgum bókum um Hrunið er því haldið fram að vondir útlendingar sem vilja Íslendingum illt hafi setið um landið.

Af skýrslu rannsóknarnefndarinnar má þó fremur draga þá ályktun að þá einangrun megi skrifa á okkar eigin reikning.

Mergur málsins er sá að við þurfum að gera upp við okkur hvernig við ætlum að rjúfa einangrun landsins. Viljum við standa einir og sér í samfélagi þjóðanna eða stíga með stolti ný skref í samstarfi fullvalda Evrópuþjóða?

Við þurfum ennfremur að gera upp við okkur hvort við ætlum til frambúðar að nota mynt sem ekki er gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum.

 

 

 

 

 

Þá þurfum við að gera upp við okkur hvort við ætlum að byggja allt okkar á einhæfri framleiðslu sjávarafurða úr auðlind sem ekki stækkar eða hvort hér á að skapa samkeppnisskilyrði fyrir nýjar atvinnugreinar og hagvöxt.

Enn sem komið er hafa stjórnmálin ekki veitt svör við þessum spurningum.

Stjórnskipunin

Hrunið vakti upp umræðu um stjórnskipun landsins. Ýmsir telja að í henni megi finna skýringar á okkar illu örlögum.

Rannsóknarskýrslan bendir þó ekki til þess, þó að í siðferðihluta hennar megi finna skynsamlegar ábendingar um hlutverkaskipti og ábyrgð æðstu handhafa ríkisvaldsins.

Stjórnarskrárbreytingar eru nauðsynlegar fyrir margra hluta sakir. Ekkert rökrænt samhengi er hins vegar á milli Hrunsins og stjórnarskrárinnar.

Stjórnkerfisbreytingar munu ekki færa neinar einfaldar lausnir á þeim vanda sem leitt hefur af Hruninu.

Niðurstaðan

Niðurstaðan er þessi:

 

 

 

 

 

Hrunið hefur ekki aðeins skilið eftir fallna banka, ónýta krónu og skuldabagga heimila og atvinnufyrirtækja heldur hefur það búið til hugmyndafræðilega kreppu.

Þá kreppu hefur okkur ekki enn tekist að leysa. Það er verkefni dagsins. Eða eins og þeir félagar undir jökli sögðu:

„Umbi: Á þá bara að hafa skáldlegt hugarflug í staðinn fyrir réttlæti?

Séra Jón: Samkomulag er það sem skiptir máli. Annars verða allir drepnir.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

28. August 2010