Þorsteinn Pálsson:
Ræða á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 6. mars 2013
Nýsköpun í „gósenlandi“
Fyrir sextíu árum og einu betur fór Halldór Laxness um dönsku landamærin yfir til Svíþjóðar. Honum var vísað frá þeim dyrum sem aðrir Norðurlandabúar fóru hindrunarlaust um, án þess að fá í vegabréf sín stimpil eftirlitsmanna og handhafa fullveldisréttar ríkisins.
Um þennan atburð segir skáldið: „Ég forvitnaðist síðan um það hjá fróðum mönnum, af hverjum sökum íslendingar væru ekki haldnir norðurlandabúar á Norðurlöndum. Mér var svarað því til að íslendingar hefðu neitað að ganga í samband við Norðurlönd um afnám vegabréfaskyldu.
Ég spurði með hverjum rökum, og var sagt að mörlandinn hefði borið það fyrir sig á sameiginlegum fundi norrænna utanríkisráðherra um málið, að Ísland væri svo auðugt að íbúar þess veigruðu sér við að hleypa fólki af Norðurlöndum vegabréfalausu inn í slíkt gósenland.“
Tveimur árum eftir að Halldór Laxness færði þetta í letur fór hann um sömu landamæri, til að taka við Nóbelsverðlaunum, án þess að fá staðfest og stimplað leyfi valdsmanna. Ísland hafði í millitíðinni gengið í Norræna vegabréfasambandið.
Þessi saga minnir okkur á tvennt: Annað er að Íslendingar byrja gjarnan á að segja nei. Hitt er að skáld rétt eins og athafnaskáld biðja um frelsi til að skapa.
Eftir hremmingar efnahagshrunsins þarf Ísland að kalla alla þá sem vettlingi geta valdið til að skapa nýja framtíð.
Við þurfum að byrja á að gera upp við hrunið, segja menn. Það er hverju orði sannara. Þeir þurfa að hljóta sína refsingu sem brotið hafa lög. Þjóðin öll, en ekki síst viðskiptalífið, verður að berja í þá siðferðisbresti sem leiddu okkur og fleiri þjóðir af leið. Þar sem of margir litu svo á að frelsi eins gæti náð lengra en að nefi þess sem næst stóð.
En uppgjörið kallar á enn ríkari gagnrýni. Fyrir hrunið lifðum við um efni fram. Flestir sem véla um málefni þjóðarinnar verða flóttalegir um augun þegar þá staðreynd ber á góma. Lífskjörin fyrir hrun voru að of stórum hluta froða en ekki smjör. Þegar veislan stóð sem hæst þorðu fáir að kveða upphátt og tæpitungulaust um þá staðreynd, utan Einar Oddur Kristjánsson, ef ég man rétt.
Efnahagshrunið átti rætur í skorti á íhaldssömum viðhorfum um meðferð peninga og uppruna verðmæta. Ef við náum ekki flóttanum úr augunum andspænis þeim veruleika lendum við í endalausum vegvillum við nýsköpunina.
Við rötum líka í vegvillur ef við náum ekki saman um nokkur lykilviðfangsefni í búskap þjóðarinnar. Þau lúta að:
- Breytingum á efnahagsstjórninni.
- Nýjum skrefum í alþjóðasamvinnu til að auka athafnafrelsið.
- Og sameiginlegum skilningi á því að skapa verður stóraukin verðmæti til að bæta velferðarkerfið.
Samstaðan þarf að ná til allra þessara þátta. Í þeim skilningi er þetta eitt verkefni en ekki þrjú. Meðan helstu stjórnmálaflokkarnir koma sér ekki saman um heildarlausn breyta kosningar litlu um að útlitið verður áfram svart.
Ráðgjafafyrirtækið McKinsey birti snemma vetrar skýrslu um samkeppnisstöðu Íslands. Hún dró fram hrollvekjandi staðreyndir, sem komið hefur verið fyrir í góðri nefnd. En það sýnir veruleikaflóttann í íslenskri stjórnmálaumræðu að nú í aðdraganda kosninga er skýrslan hvorki umræðuefni né úrlausnarefni.
Í skýrslunni má lesa þá dapurlegu staðreynd að framleiðni á hverja unna klukkustund í „gósenlandinu“ er á plani með Grikklandi. Þrettán þúsund vinnandi Íslendingar í þjónustu þurfa að kalla á ný atvinnutækifæri bara til þess að gera þennan mikilvæga þátt efnahagslífsins samkeppnishæfan.
Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin sem stenst alþjóðlegan samanburð í þessu efni bæði að því er varðar vinnu og fjármagn. En þá bregður svo við að þeir sem ráða ríkjum hafa í full fjögur ár barist fyrir því að vinda ofan af þessum mikla efnahagslega árangri sem tekið hefur tvo áratugi að ná.
Meðan atvinnulífið nær ekki framleiðni á við það sem best gerist í grannlöndunum geta stjórnmálamennirnir aldrei tryggt samekppnishæfni velferðarkerfisins. Loforð þar um hljóma eins og hvellandi bjalla og klyngjandi málmur.
Á næstu fimmtán árum þarf að tvöfalda verðmæti útflutningsframleiðslunnar. Það er háleitt markmið.
Auðlindanýting stendur nú undir fjórum af hverjum fimm hlutum sem út eru fluttir. Þegar horft er til þess að tvöfalda útflutningsframleiðsluna verða menn að horfast í augu við þá staðreynd að fiskimiðin eru fullnýtt. Vaxtarmöguleikar í orkunýtingu eru miklir en þó takmarkaðir.
Stærsti hluti viðbótarinnar við útflutningsverðmætin þarf því að spretta upp úr jarðvegi nýrrar atvinnustarfsemi. Þar með er talin ríkari fullvinnsla sjávarafurða. En þann jarðveg þarf að plægja, annars gefur hann ekki ávöxt.
Stjórnmálamenn skapa ekki þessi verðmæti með átaksverkefnum. Þeir gera það aðeins með því að plægja jarðveg sem athafnasamir og hugvitsamir einstaklingar geta sáð í.
Með þessu móti er að vísu ekki unnt að mæla verðmætin og telja störfin fyrirfram og færa kjósendum loforð í rósabúntum. Þessi aðferð byggir á því að frjáls aðgangur að jafn frjósömum jarðvegi og aðrar þjóðir búa við skili jafn miklum ávöxtum og þar gerist best.
Ekkert í McKinsey skýrslunni segir að Íslendingar séu þeir búskussar að geta ekki staðið jafnfætis þeim sem lengst hafa náð ef þeir fá sömu tækifæri og sömu aðstæður til að veita sköpunarmætti og framtaksemi sinni viðnám. Árangurinn í sjávarútveginum sýnir það.
Það tókst að stöðva efnahagshrunið. En vöxturinn sem við höfum séð er sama lánafroðan og varð að engu haustið 2008. Til þess að snúa þeirri þróun við þarf breytingar.
Sumir kalla á kerfisbreytingar. En með því að ég sleit barnsskónum í Flóanum kýs ég heldur að taka þannig til orða að opna beri aðgang að nýjum slægjum. En hafi áveitan á sínum tíma verið kerfisbreyting fyrir Flóamenn kalla ég á viðlíka kerfisbreytingu fyrir alla Íslendinga nú í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar.
Í þessu samhengi ætla ég að nefna hér til sögunnar tvö viðfangsefni. Bæði skipta þau sköpum ef við ætlum í alvöru að bæta samkeppnisstöðu landsins og tvöfalda útflutningsframleiðsluna. Og bæði kalla á breiðara póltiískt samstarf en nú virðist vera kostur á.
Annað er gjaldmiðillinn. Hann er óhjákvæmilegur milliliður í viðskiptum. Um leið er hann mælieining þeirra verðmæta sem að baki búa.
Verkurinn er sá að krónan er ekki gjaldgeng í milliríkjaviðskiptum. Ungur maður, sem skrifar beittar en flestir aðrir nú um stundir, benti nýlega á að í raun réttri hefði krónan ekki miklu sterkari stöðu en inneignarnóta í Bónus.
Tommustokkurinn er nákvæmari mælieining en nokkur gjaldmiðill og jafn langur meðal allra þjóða. Í félagsskap gjaldmiðlanna er krónan hins vegar óvissari mælieining en aðrar þjóðir búa við. Hvers vegna er þá keppikefli að halda henni?
Ef ríkisstjórnin nýtti fullveldisrétt sinn til að breyta lengd tommustokksins jafn oft og gengi krónunnar myndi ört fækka í stétt byggingameistara. Það er hverju mannsbarni ljóst. Á nákvæmlega sama hátt er óvissan um stærð og verðgildi krónunar frá einum degi til annars Þrándur í Götu þeirra sem ætla að skapa ný verðmæti fyrir búskap þjóðarinnar.
Tvöföldun útflutningsframleiðslunnar kallar á að karlar og konur, framtaks og hugvits, geti fullnýtt orku sína og sköpunarmátt. Til þess þurfum við að fullnýta möguleika okkar á innri markaði Evrópu sem er okkar heimamarkaður og stóri stökkpallur í aðrar áttir.
Það gerum við ekki með mynt sem ekki er gjaldgeng þar og heldur engu verðgildi nema með höftum eða strangari varúðarreglum en aðrar þjóðir sæta. Svo einfalt er það.
Þá spyrja menn: Getum við ekki valið krónunni betri stjórnendur? Horfum nokkur ár til baka, þegar við svörum þessari spurningu.
Hverjir efast um að þeir sem þá voru við stjórnvölinn hafi ekki borið fullt skynbragð á hagsmuni útflutningsframleiðslunnar? Og höfðu þeir ekki einmitt meira áhrifavald en við þekkjum, í sögulegu samhengi, til að beita fullveldisréttinum yfir krónunni?
Samt ofreis krónan gegn hagsmunum útflutningsframleiðslunnar og hrundi svo gegn hagsmunum launafólks. Ástæðan er sú að bestu menn gátu ekki og geta ekki haldið svo lítilli mynt stöðugri án hafta eða verulega íþyngjandi varúðarreglna. Góð pólitísk hugsun og hæfileikar breyta litlu þegar kerfið dugar ekki.
Hitt atriðið sem ég ætla að nefna er sjávarútvegsstefnan.
Ef framleiðni minnkar í sjávarútvegi versna lífskjörin að sama skapi. Ef sjávarútvegurinn hefur ekki burði til að jafna sveiflur í afla og afurðaverði með eiginfé sínu eða greiðslum í sveiflujöfnunarsjóð er ekki unnt að viðhalda stöðugleika í hagkerfinu.
Á þessum vettvangi ætla ég ekki að deila við þá sem telja að markaðslausnir eigi að víkja fyrir félagslegum markmiðum í sjávarútvegi. Eins og sakir standa erum við þó eina vestræna þjóðin sem stefnir að því að láta félagsleg sjónarmið fremur en markaðslögmál ráða þróun höfuðatvinnugreinar sinnar.
Fórnarkostnaðurinn er augljós. Hann mælist ekki bara í lakari lífskjörum. Hitt ætti að verða þeim til umhugsunar sem forystu hafa fyrir þessum grundvallarbreytingum að möguleikinn á upptöku stöðugrar alþjóðlegrar myntar er úr sögunni ef þetta verður raunin.
Fyrir félagslegum markmiðum má vissulega færa ýmis góð og gild rök. En það er jafnan vandasamt að setja lóðin á vogarskálar réttlætis og ranglætis.
Útgerðin hefur allar sínar tekjur í erlendum gjaldeyri. Hún bindur jafnframt stærstan hluta launakostnaðarins við erlendar myntir. Á sama tíma fær hún loforð frá þeim sem vilja halda í krónuna um að geta gengið í vasa almennings í gegnum gengislækkanir þegar mæta þarf óhagstæðum sveiflum.
Í þessu felst aðstöðumunur. Hann er óréttlátur. Það sem meira er: Nýjar atvinnugreinar spretta ekki upp til að tvöfalda útflutningsframleiðsluna ef þessi aðstöðumunur helst.
Það er því réttlát krafa að biðja útveginn að sýna skilning á þessum aðstæðum. Á móti á hann réttláta kröfu á því að þjóðfélagið viðurkenni að hann getur ekki jafnað sveiflur upp á eigin spýtur nema sjávarútvegsstefnan byggi á markaðslausnum.
Þessi tvö réttlætissjónarmið eru að mínu viti mikilvægari en önnur. Þjóðin hefur einfaldlega ekki efni á öðru en að taka meiri hagsmuni fram yfir minni. Það er hins vegar ekkert réttlæti að velja bara aðra hagsmunina en sleppa hinum.
Fjölmargir iðnrekendur voru á móti fríverslun með iðnaðarvörur á sínum tíma. Það var skiljanlegt því margir voru í þægilegri stöðu verndartolla. Stærri hagsmunir réðu hins vegar niðurstöðunni.
Í þessu ljósi er andstaða útgerðarinnar við breytingar sem opnað geta leiðir inn á nýja akra verðmætasköpunar um margt útskýranleg. En með sama hætti og áður, þegar við höfum stigið ný skref til að dýpka efnahagssamvinnu okkar við vestrænar þjóðir, verða menn að setja ofar öðru þá heildarhagsmuni sem eru í húfi.
Það þarf ný skref til að skapa ný verðmæti. Það reyndist ávöxtur fríverslunarinnar, það var ávöxtur af þátttöku í innri markaðnum og það verður ávöxtur stöðugrar gjaldgengrar myntar.
Það er auðvelt að setja í samhengi mikilvægi þessara tveggja þátta: Stöðugrar myntar og markaðslausna í sjávarútvegi. En við stöndum samt andspænis pólitískum vanda sem setur allt í hnút.
Á annað borðið róa flokkar sem vilja sjávarútvegsstefnu sem getur verið grundvöllur stöðugleika og vaxandi framleiðni. Þeir flokkar geta aftur á móti ekki fallist á að tekin verði upp stöðug alþjóðleg mynt.
Á hitt borðið róa flokkar sem vilja taka upp nýja mynt. Þeir geta hins vegar ekki fallist á sjávarútvegsstefnu sem er forsenda fyrir því að unnt verði að stíga það skref.
Meðan þjóðin er föst í þessari málefnalegu bóndabeygju stjórnmálanna stöndum við nær tímum óðaverðbólgu en nýsköpunar í þjóðarbúskapnum.
Nýtt skref í alþjóðasamvinnu með aðild að evrópska myntbandalaginu er augljós leið til aukinnar verðmætasköpunar. Á sama tíma er ekki unnt að loka augunum fyrir hinu að Evrópusambandsaðild hefur vakið spurningar um fullveldið sem ekki hafa verið ræddar af nægjanlegri dýpt.
Menn segja réttilega: Eftir því sem við fengum meiri sjálfstjórn batnaði efnahagurinn. Hví þá að deila sjálfsákvörðunarréttinum með öðrum þjóðum? Hverju erum við bættari með því?
Svarið er þetta: Það var ekki fullvedisrétturinn í höndum okkar fullhuga stjórnmálaforingja sem bjó til verðmætin og velmegunina. Hún kom smám saman eftir því sem stjórnmálamennirnir beittu fullveldisréttinum til að auka athafnafrelsið.
Það kostaði ekkert meðan takmörk athafnafrelsisins voru innan lögsögu ríkisins. Um leið og við þurfum að tryggja hugvitsmönnum okkar og framtaksmönnum, körlum og konum, athafnafrelsi innan lögsögu annarra ríkja þurfum við að gjalda í því sama.
Í dag þurfum við að beita fullveldisréttinum til að auka athafnafrelsið utan landsteinanna. Það eru engin önnur ráð til að sá í nýja akra og fá nýja uppskeru. Evrópusambandið er vettvangur helstu viðskiptaþjóða okkar til að ná þessu markmiði. Því er það nærtækasti kosturinn.
Það er ekki markmið fullveldisréttarins að tryggja frelsi valdhafanna til ákvarðana heldur að tryggja frelsi fólksins. Þegar við blasir að athafnafrelsi einstaklinganna utan landamæra Íslands verður betur tryggt með því að stíga ný skref í alþjóðlegu samstarfi þarf gild rök til verja Þránd í Götu.
Fullveldisrétturinn í peningamálum er ekki til fyrir Seðlabankastjórann. Hann er ekki til fyrir stjórnmálaforingjana. Hann er fyrir fólkið.
Stundum er ég spurður hvernig mér hugnist að flytja ákvarðanir um ramma ríkisfjármálanna yfir á alþjóðlegan vettvang. Ég veit að þeir sem hér sitja í dag koma úr röðum ólíkra stjórnmálaflokka. En mitt svar byggist á hugsjón þess stjórnmálaflokks sem ég vígðist ungur:
Þannig er ég sannfærður um að það er farsælla fyrir fólkið og fyrirtækin, að flokkurinn minn skuldbindi Ísland í alþjóðlegu samstarfi til að fylgja ríkisfjármálastefnu sinni, fremur en að semja á fjögurra ára fresti um afslátt frá þeirri stefnu við aðra flokka í landinu. Ég skil hins vegar efasemdir sumra sósíalista.
Spurningin um aðild að evrópska myntbandalaginu og Evrópusambandinu snýst um það hvort við viljum kyrrstöðu eða hvort við viljum auka frelsi fólksins, auka frelsi þeirra sem skapa verðmætin.
Sumir tala um aðildina að evrópska myntbandalaginu og Evrópusambandinu sem eitt mál sem unnt sé að fresta meðan önnur mikilvæg eru rædd. Þetta er blekkingarleikur.
Veruleikinn er annar. Spurningin um að stíga þetta skref snýst um að nota þá heildstæðu umgjörð um efnahagssamvinnu, sem felst í samstarfi Evrópuþjóðanna, til að plægja nýja akra. Við erum þegar að stærstum hluta þátttakendur í þessu samstarfi. Svo lengi sem við eigum færi á að bæta stöðu okkar með því að ganga þar feti framar er óskynsamlegt að útiloka þann kost fyrir fram.
Til þess að geta stigið þetta skref þarf að tryggja að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni gangi okkur ekki úr greipum. Sumir segja: Það er ekki hægt. En við náum aldrei að stíga framfaraskref ef við byrjum alltaf á að semja við sjálfa okkur um að hlutirnir gangi ekki upp.
Þeir sem fullyrða að með engu móti sé unnt að fá skilning bandalagsþjóða okkar á efnahagslegu mikilvægi fiskveiðanna, með svæðisbundinni stjórn og markaðslausnum, hafa í raun stillt sér upp við hliðina á Evrópusambandinu og eru harðari en þeir, sem þar eru tregastir, að tala á móti lausnum.
Við þurfum vissulega að sýna mikið raunsæi í samningum við aðrar þjóðir og ríkjabandalög. En hitt að gefast með öllu upp fyrir fram ber ekki vitni um sókndirfsku.
Það stendur upp á þá sem ætla að tvöfalda útflutningsverðmætin án þess að auka athafnafrelsið á erlendum mörkuðum að svara á hvern veg það skuli gert.
Þeir sem lofa hærri launum, endurgreiðslu á verðbólgu liðinna ára og bættu velferðarkerfi án þess að skapa fyrst verðmæti til að borga brúsann eru í raun boðendur verðbólgu og nýs efnahagshruns.
Staða þjóðarbúsins er svo alvarleg að þörfin á samstöðu hefur aldrei verið brýnni. Þegar útilokað virðist að fá stjórnborðs og bakborðs ræðara þjóðarskútunnar til að taka eitt mið er það fremur háð heppni en hyggindum ef komist verður hjá nýju strandi.
Það er við þessar aðstæður sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands fá nýtt hlutverk. Það er eins konar neyðarhlutverk sem þau hafa áður gegnt.
Þau þurfa að taka að sér að segja þjóðinni satt um raunverulega stöðu þjóðarbúsins. Þau þurfa að ná saman um hvernig leysa á meginmálin úr bóndabeygju stjórnmálanna. þau þurfa að sannfæra þjóðina um að það sé rétt leið.
Þá munu hindranir hverfa úr vegi. Þá verður unnt að varða veg þjóðarinnar fram á við til nýsköpunar eftir leið stöðugleika og bættrar samkeppnisstöðu.
Þetta er ekki bara spurning um athafnafrelsi. Þetta er spurning um undirstöðu lífskjara. Þetta er spurning um undirstöðu velferðar.
Halldór Laxness þurfti ekki að bíða lengi eftir því að stjórnvöld skynjuðu að við vorum, eftir allt, ekki sérstæðari þjóð en svo, að óhætt væri að taka þátt í gagnkvæmu samstarfi um opin vegabréfalaus landamæri. Hann gat farið um þau til að sækja stærstu menningarlegu umbun sem Íslendingur hefur áunnið sér og þjóð sinni.
Athafnaskáldin þurfa líka að sækja umbun sköpunarmáttar síns yfir landamærin á erlenda markaði.
Nú er spurning hversu lengi þau þurfa að bíða þar til menn sjá, að við erum ekki einstæðari þjóð en svo, að óráð er að útiloka nokkra þá leið sem opnað getur lokuð landamærahlið fyrir alla þá sem skapa vilja ný efnisleg verðmæti á erlendum mörkuðum.
- Markmiðið er nýsköpun þjóðarbúsins í stað verðbólgu.
- Aflið er í samstöðu ykkar og Alþýðusambandsins.
- Verkið er að virkja það afl.