Moldin hefur sáL

Þorsteinn Pálsson:
Ávarp á Þingvöllum 28. ágúst 2010.
Skógræktarfélag Íslands 80 ára.

 

 

Íslensku skógræktarmenn.

„Hér hefur steinninn  mannamál og moldin sál.“

Þannig skynjaði þjóðskáldið Davíð Stefánsson Þingvelli, þennan stað, sem kynslóðir Íslendinga hafa gert að helgum reit hjartans; og við, hvert fyrir sig og öll saman, virðum umfram aðra á þeirri móður jörð sem fóstrar okkur í blíðu og stríðu.

Þennan helga stað, þar sem við nú stöndum, völdu þeir framsýnu og þjóðhollu landar okkar sem höfðu forgöngu um stofnun Skógræktarfélags Íslands fyrir átta tugum ára.

Það var vel hugsað. Hitt er þó ekki minna um vert að þann dag var hugsað stórt. Þann dag var sjónum beint til langrar framtíðar.

Þetta var á öðrum degi þeirrar miklu hátíðar þegar þjóðin fagnaði tíu alda sögu Alþingis Íslendinga. Heimildir herma að margur hafi vaknað með hroll nokkurn í tjaldi sínu hér á völlunum föstudagsmorguninn 27. júní 1930.

En þegar menn gægðust út var komið blíðuveður eftir hretið kvöldið áður.

„Heil sjá in fjölnýta fold.“ voru ávarpsorð Benedikts Sveinssonar forseta neðri deildar Alþingis þegar hann mælti fyrir minni Íslands á Lögbergi þennan morgun.

Í þessum ávarpsorðum fólst  ekki einasta skírskotun til fornra bókmennta þjóðarinnar.

Þau táknuðu umfram allt annað virðingu fyrir feðrastorðinni, landinu, gögnum þess og gæðum. En ef til vill voru þau einnig áminning um þá miklu og fjölþættu nytsemi sem við höfum af landinu og skyldur okkar við það.

Þær skyldur eru ævarandi og hvíla á herðum sérhvers manns sem hér lifir og starfar.

Það var ræktarsemin við þær skyldur sem kallaði menn saman hér við Furulundinn að kveldi þessa dags til að stofna félagsskap til sóknar og varnar fyrir skógrækt á Íslandi.

Hér höfðu danskir frumkvöðlar meir en þremur áratugum áður stungið niður fyrstu vísum að barrtrjám í landinu.

Hér voru íslensk lög sögð fram í fyrsta sinn. Hér tóku Íslendingar við kristnum sið. Hér hófst íslensk skógrækt. Hver þessara þriggja meiða í íslenskri sögu hefur sitt gildi.

Mönnum kann ef til vill að finnst að einn meiður sé meiri en annar. Og það má rétt vera. Hitt er engin tilviljun að þeir eiga allir rætur hér á þessum stað.

Þegar menn höfðu stofnað Skógræktarfélag Íslands hófst hið fjörugasta þjóðlíf á hátíðarsvæðinu. Samtímafrásagnir segja að Íslendingar hafi þá verið þjóð sem var að skemmta sér, þjóð á hátíð, þjóð án ágreiningsmála, sátt og samlynd, glöð og reif.

Þessi þjóð hefur að sönnu átt margar stundir í sátt og samlyndi og án ágreiningsmála. Þeir tímar hafa líka komið að samlyndið hefur verið grátt og ágreiningsmálin mörg.

Síðustu misseri hafa verið tími sundurlyndis, tortryggni og upplausnar í samfélagi okkar Íslendinga. Þar á sýnist ekki vera neitt lát.

Einmitt þegar svo stendur á er gott að eiga félög skógræktarmanna um land allt og Skógræktarfélag Íslands.

Það segir okkur að minnsta kosti þá sögu að enn er margur bindingurinn í þjóðfélagsgerðinni, sem ekki hefur rifnað eða brostið.

Þegar skógræktarmenn koma hér saman á Þingvöllum í dag mega þeir vera fullir meðvitundar um að starf þeirra hefur því meira gildi sem lausungin er meiri á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Sú gildiseinkunn er ekki fólgin í fyrirferð eða stórum orðum. Í dag eru áhrif manna og samtaka þeirra þó helst mæld í upphrópunum.

Á þann mælikvarða er Skógræktarfélag Íslands ekki tengt þeim kröftum sem helst hreyfa til hluti í samtímanum.

Skógræktarstarfið er að sönnu hversdagslegt jarðræktarpuð. Það getur bæði verið hressandi og lýjandi eins og hvert annað verk sem unnið er.

Hinu má þó aldrei gleyma að skógræktin er hugsjón sem er vígð hér á þessum stað með þeim æðstu draumum og markmiðum sem þjóðin á.

Það er hugsjón að klæða landið. Sú hugsjón á stundum í vök að verjast.

Plöntuaðskilnaðarstefnan hefur sótt í sig veðrið eftir því sem kynþáttaaðskilnaður í mannlegu samfélagi hefur horfið á vit sögunnar.

Jafnvel Furulundurinn hér væri ekki óhultur ef ekki nyti við þeirra sem skilja og meta það hugsjónastarf sem hér á helgan reit, ef ekki væri félagsskapur í sókn og vörn fyrir skógrækt í landinu.

Skógrækt rímar illa við þá óþolinmæði og það kviklyndi sem einkennir þjóðlífið öðru fremur nú um stundir. Hún er þvert á móti verkefni staðfestu, þolinmæði og framsýni.

Ef til vill er íslensk skógrækt þó öðru fremur viðfangsefni þrautseigjunnar.

Hvern lærdóm má draga af starfsemi Skógræktarfélags Íslands í öllu rótleysi líðandi stundar? Hvað getur þjóðin lært af starfi þess umfram það sjálfsagða hvernig stinga á niður græðlingum?

Það helst að minni hyggju, að í búð sögulegrar reynslu mælast áhrif manna gjarnan í öfugu hlutfalli við mælgina.

Þegar listaskáldið góða sat hér í Bláskógaheiðinni og sá bergkastalann búinn frjálsri þjóð, gat ei nema guð og eldur hafa gjört svo dýrðlegt furðuverk.

Þau tímamót sem félagsmenn í Skógræktarfélagi Íslands minnast í dag eru í sjálfu sér ekki tilefni til annars en að halda áfram að klæða þetta furðuverk sem við höfum fengið í arf.

Árnaðarósk mín til félagsins er sú ein að því megi farsællega takast að sinna hér eftir sem hingað til því mikla hlutverki:

„að gera úr melnum gróandi teig

að guðsríki íslenskan haga.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

28. August 2010