“Nógu oft og nógu lengi”

 

„ Nógu oft og nógu lengi“

„Ég hef í þessu erindi reynt að gera nokkra grein fyrir því hversu oft og hversu lengi við erum búnir að hika og bíða í þessum málum. Ég held að það sé orðið nógu oft og nógu lengi.“

Þetta voru lokaorð Jónasar Haralz í fyrirlestri í Vísindafélagi Íslands í apríl 2009. Þar setti hann í sögulegt samhengi umræðuna um peningamál frá fullveldi til hruns. Þessi hæverska en alvöruþunga áminning var rifjuð upp á ráðstefnu í vikunni sem hagfræðideild Háskóla Íslands og Landsbankinn gengust fyrir af því tilefni að níutíu og fimm ár eru liðin frá fæðingu Jónasar.

Í fyrirlestrinum dregur Jónas fram ummæli Ásgeirs Ásgeirssonar, síðar forseta, þar sem hann árið 1929 brýnir mikilvægi þess að Ísland fylgi þeim reglum í peningamálum sem tíðkist í alþjóðaviðskiptum. Þótt sú brýning hafi verið viðhöfð um gullfótinn álítur Jónas að hún hafi eins getað átt við það fyrirkomulag sem efnt var til með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1944 og á okkar dögum um það myntbandalag sem nágrannaþjóðir okkar hafa stofnað til um evruna.

Þessi upprifjun er holl ein og sér. En það er líka mikils um vert að menn velti fyrir sér hvers vegna þjóðin hefur kosið að hika og bíða í þessum efnum í hart nær heila öld. Það er ekki síst áhugavert fyrir þá sök að þar koma við sögu ríkisstjórnir í öllum litum regnbogans.

Í grein í Sögu frá því í janúar 2009 nefnir Jónas Haralz tvö atriði til skýringar á hikinu og biðinni í peningamálum. Annað er hversu slitrótt og erfitt samband okkar við umheiminn hefur verið. Hitt er hversu mikla áherslu við höfum lagt á öflun framleiðslutækja og framkvæmdir en látið undir höfuð leggjast að búa efnahagslífinu það almenna umhverfi góðra stjórnarhátta sem er forsenda traustrar hagþróunar.

Að láta hálfan sannleikann duga

Engum vafa er undirorpið að Jónas Haralz hefur hitt naglann á höfuðið þegar hann dró þennan tvíþætta lærdóm af hagþróun og hagstjórn á fullveldistímanum. En hér getur ýmislegt fleira komið til.

Eitt er að það hefur sjaldan verið til vinsælda fallið að segja sannleikann umbúðalaust um brothætta stöðu þjóðarbúskaparins. Ef forseti Íslands er fráskilinn verður þó ekki sagt að menn stundi það beinlínis að segja ósatt. Hitt er algengara að menn láti hálfan sannleikann duga.

Þó að bjartsýni sé holl og svartsýni óholl er það samt svo að greini menn ekki aðstæður rétt í opinberri umræðu fæst ekki stuðningur við þau ráð sem nauðsynleg eru á hverjum tíma til að berja í brestina. Bjartsýnistal sem ekki byggir á raunhæfum forsendum er því ekkert betra en svartsýnin þegar til lengdar lætur.

Tökum dæmi: Með efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tókst að koma málum í það horf eftir hrun að hagkerfið fór að vaxa tveimur árum síðar. Í dag getum við státað af góðum hagvexti. Full ástæða er til að gera mikið úr þeim árangri.

En á sama tíma lokum við augum fyrir hinu, sem líka má lesa úr hagskýrslum, að framlag útflutnings til hagvaxtar er neikvætt. Sú staðreynd bendir til að við eigum við djúpan kerfislegan vanda að etja í þjóðarbúskapnum sem við leiðum hjá okkur.

Á árunum fyrir hrun vorum við ánægð með hagvöxtinn en slepptum að ræða um viðskiptahallann. Stjórnarandstaðan vildi ekki fremur en stjórnvöld verða óvinsæl fyrir þá sök. Og svo fór sem fór.

Ósamrýmanleg markmið

Annar vandi er fólginn í því að góð og gild markmið eru ekki alltaf samrýmanleg samtímis. Menn þurfa oft að fórna einu óumdeildu markmiði um tíma til að ná öðru áður. Það er hins vegar ekki ávísun á gott gengi í vinsældamælingum augnabliksins. Þá hafa menn freistast til að hika og bíða eða lofa upp í ermina á sér.

Það er rétt sem andstæðingar evrunnar benda á að vond hagstjórn og óábyrgir kjarasamningar geta leitt til atvinnuleysis þegar ekki er unnt að flytja fjármuni frá launafólki til útflutningsfyrirtækja með gengisfellingu. Þetta má sjá í nokkrum ríkjum sem nota evruna.

Að sama skapi hafa önnur og reyndar fleiri evruríki með skynsamlegri hagstjórn og ábyrgum kjarasamningum hagnýtt sér stöðugleikann sem traustur gjaldmiðill opnar möguleika á til að auka framleiðni og bæta lífskjör.

Við notum afur á móti mynt sem ekki er gjaldgeng í milliríkjaviðskiptum og fer  eins og korktappi af hæsta öldufaldi niður í lægsta öldudal óaflátanlega nema þegar hún er í höftum. Fyrir vikið er framleiðni minni og kaupmáttur lægri en í viðmiðunarlöndunum og Landspítalinn er í uppnámi af því að við erum ekki samkeppnishæf. Á móti erum við að mestu laus við tímabundið atvinnuleysi sem fylgir því þegar fyrirtæki með litla framleiðni víkja fyrir nýjum sem gefa meira af sér.

Það er enginn kostur algóður. En hér þarf að velja og hafna. Krónan hentar skammtímasjónarmiðum. Evran er álitlegri þegar metnaðarfyllri markmið eru sett til lengri tíma.

Núverandi ríkisstjórn hefur enn ekki gefið í skyn að hún hyggist rjúfa sögulegt samhengi hiks og biðtíma í peningamálum.

10. október 2014

10. October 2014