Skipstjóri án áttavita

 

Sú persónulega gagnrýni sem forsætisráðherra hefur sætt fyrir að hafa ekki tekið þátt samstöðugöngunni í París um síðustu helgi er um sumt ómakleg. Ákvörðun hans varpar á hinn bóginn ljósi á hættulega veikleika í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar.

Þessi atburður gefur því tilefni til að beina athyglinni að þeim texta sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um í stjórnarsáttmálanum um nýja vini í alþjóðasamfélaginu. Vandi Íslands liggur í hugmyndafræðinni sem þar býr að baki.

Vitaskuld var það vandræðalegt að forsætisráðherra sá ekki fyrir að hann sæti einn þjóðarleiðtoga heima. En hitt skiptir í raun og veru meira máli hvort forsætisráðherra Íslands styðst við þann hugmyndafræðilega bakhjarl í stjórnarstefnunni að samstaða þyki sjálfsögð af þeim sökum hvort sem bregðast þarf skjótt við eða þeir eru fleiri eða færri sem taka sama pól í hæðina.

Það var þetta sem vantaði. Hefði stjórnarsáttmálinn verið skýr um samstarf og samvinnu með Evrópuþjóðunum á grundvelli þeirra hugsjóna sem hún er reist á er ólíklegra að svo stórt pólitískt slys hefði orðið. Skipstjóra án áttavita er einfaldlega hættara við að lenda í hafvillu en hinum.

Engin rök standa til þess að efast um samhug forsætisráðherra með þeim sem létu lífið í hryðjuverkaárásunum í París þrátt fyrir heimasetu hans. Kjarni málsins er sá að ganga þjóðarleiðtoganna var tákn um miklu meira. Hún sýndi virka pólitíska einingu sem andstæðingar lýðræðis og mannréttinda munu ekki geta brotið á bak aftur.

Hvar viljum við vera?

Þetta merkir ekki að ástæða sé til að efast um virðingu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar fyrir lýðræði og mannréttindum. Vandi Íslands er aftur á móti sá að ríkisstjórnin telur sig geta varið þá hagsmuni eftir öðrum leiðum en með frekari samvinnu við aðrar Evrópuþjóðir.

Í stjórnarsáttmálanum er ekki minnst á þá grundvallarþætti sem mótað hafa utanríkisstefnu Íslands í áratugi: Aðildina að Atlantshafsbandalaginu og evrópska efnahagssvæðinu. Í staðinn er í fyrsta skipti lögð sú lína að framtíðarhagsmunir Íslands verði best tryggðir með samvinnu við Kína, Rússland, Indland og Brasilíu.

Ekki var þó unnt að lesa úr sáttmála stjórnarflokkanna að stefnt væri að því að Ísland yfirgæfi þær alþjóðastofnanir sem hafa verið brjóstvörn pólitískra hugsjóna landsins og stökkpallur efnahagslegra framfara. En hitt fór ekki milli mála að áformin voru skýr um að treysta ætti á nýja bandamenn bæði í pólitísku og efnahagslegu tilliti.

Ytri aðstæður leiddu til þess að utanríkisráðherra hætti fljótlega að vísa í stjórnarsáttmálann. Í framkvæmd virðist utanríkisstefnan því reist á einhvers konar hugmyndafræðilegu tómarúmi. Engin skýr sýn er um það hvar við viljum vera í alþjóðasamfélaginu til að verja hugsjónir okkar og sækja fram efnahagslega.

Í gegnum tíðina hefur iðulega komið til ágreinings við einstakar bandalagsþjóðir okkar vegna tiltekinna mála. En menn kappkostuðu jafnan að leysa hann með samningum fremur en að rjúfa samstarfið. Í því lágu meiri hagsmunir. Nú er hver vandi sem upp kemur notaður til þess að skilgreina bandalagsþjóðirnar sem óvinveitt ríki og sérhvert samkomulag sem uppgjöf og skerðingu á fullveldi landsins.

Heimaseta forsætisráðherra um síðustu helgi er tákn um þetta hugmyndafræðilega tómarúm.

Öllu snúið öfugt

Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu telja að þeir erfiðleikar sem sum Evrópuríki hafa glímt við í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 séu rök gegn frekara samstarfi. Þeir telja að þær nýju ógnir sem steðja að vestur Evrópu vegna framgöngu Rússa séu rök fyrir því að Íslands haldi sér sem lengst í burtu.

Það álit hefur jafnvel sést að verjast eigi hryðjuverkum af því tagi sem framin voru í París á dögunum með því að ganga ekki í Evrópusambandið.

Að einhverju marki byggir þessi afstaða á þeirri hugsun að alþjóðasamstarf verði að skila Íslandi einhliða ávinningi. Öll gagnkvæmni feli í sér fullveldisafsal.

Reynsla Íslands og annarra þjóða hefur hins vegar sýnt að í raun eru þessu öfugt farið. Efnahagsörðugleikar okkar og annarra eru rök fyrir meira samstarfi. Nýjar ógnir Rússa eru rök fyrir virkari og þéttari pólitískri samvinnu annarra Evrópuþjóða. Eins er engin þjóð eyland gagnvart hryðjuverkaógn samtímans.

Að öllu þessu virtu verður heimaseta forsætisráðherra heldur ekki slitin úr samhengi við þá ákvörðun hans að eyða næstu mánuðum í stórstyrjöld um afturköllun aðildarumsóknarinnar.

Þó að þátttakan í Parísargöngunni hafi náð út fyrir raðir Evrópusambandsins er alveg ljóst að það hefði verð snúnara eftir að hafa gengið í fylkingarbrjósti á þeim mikla samstöðuvettvangi að koma heim til að knýja á um formleg viðræðuslit við þær þjóðir sem voru burðarásinn í þeirri einingu og þeim styrk sem þar var sýndur.

16. January 2015