Æviágrip

Fjölskyldan

Ég er fæddur á Selfossi 29. Október 1947. Faðir minn var Páll Sigurðsson fæddur á Eyrarbakka 1916. Hann lést  2007. Móðir mín var Ingigerður Nanna Þorsteinsdóttir fædd í Reykjavík 1920. Hún lést 1982.

Í lagadeildinni kynntist ég Ingibjörgu Þórunni Rafnar. Við giftum okkur í Háteigskirkju á fullveldisdaginn 1. desember 1973. Hún var fædd á Akureyri 6. júní 1950 og lést 27. nóvember 2011. Foreldrar Ingibjargar voru Jónas G. Rafnar alþingismaður og bankastjóri, fæddur 1920 og látinn 1995,  og Aðalheiður Bjarnadóttir Rafnar hjúkrunarkona fædd 1923 og látin 1999.

Eftir að Ingibjörg lauk embættisprófi í lögfræði 1975 var hún um skeið lögfræðingur Búnaðarbanka Íslands. Á árunum 1982 til 1986 sat hún í borgarstjórn, var varaforseti borgarstjórnar, sat í borgarráði og var formaður hafnarstjórnar og formaður félagsmálaráðs. Síðan starfaði hún sem hæstaréttarlögmaður til ársins 1999. Eftir dvöl okkar erlendis 2005 var hún skipuð umboðsmaður barna og gegndi því embætti til 2007.

Elsta barn okkar er Aðalheiður Inga fædd  1974. Hún er með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics og starfar nú  í utanríkisráðuneytinu. Eiginmaður hennar er Skúli Malmquist.  Börn: Ingibjörg Þórunn Ingvadóttir fædd 2002 og María Svanfríður Malmquist fædd 2006.

Sonur okkar er Páll Rafnar fæddur 1977. Hann lauk meistaranámi í stjórnmálaheimspeki frá London School of Economics og síðar doktorsprófi í heimspeki frá  Cambridge University. Hann er nú sviðstjóri félagsvísindasviðs Háskólans á Bifröst.

Yngri dóttir okkar er Þórunn Rafnar fædd  1979. Hún lauk doktorsprófi í líffræði frá læknadeild Háskóla Íslands og starfar nú við rannsóknarstofnun Háskólans á Keldum. Eiginmaður hennar er Höskuldur Daði Magnússon. Börn: Dagur Höskuldsson Rafnar fæddur 2009 og Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar fædd 2011.

Skólaganga.

Skólagöngu mína byrjaði ég í barnaskólanum á Selfossi en barnaskólaprófinu lauk ég frá Melaskólanum í Reykjavík. Síðan var ég tvö ár í Hagaskólanum en hóf nám í Verslunarskóla Íslands 1962 og lauk þaðan verslunarprófi 1966 og stúdentsprófi 1968.

Haustið 1968 innritaðist ég í lagadeild Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi í lögfræði 1974. Árið 1976 hlaut ég svo héraðsdómslögmannsréttindi.

Störf

Vorið 1970 hóf ég sörf á ritstjórn Morgunblaðsins við að skrifa greinar og fréttir er tengdust stjórnmálum svo og leiðara, Staksteina og Reykjavíkurbréf. Ég vann við þetta öll sumur meðan ég var í Háskólanum og í tvo vetur skrifaði ég einnig borgarstjórnarfréttir og þingfréttir.

Eftir að embættisprófinu lauk vorið 1974 hélt ég þessu starfi áfram á Morgunblaðinu í eitt ár. En vorið 1975 var ég ráðinn ritstjóri að dagblaðinu Vísi. Því starfi gegndi ég í tæp fjögur.

Í ársbyrjun 1979 tók ég síðan við starfi forstjóra Vinnuveitendasambands Íslands og gegndi því fram á vor 1983.

Í alþingiskosningunum sem fram fóru í apríl 1983 var ég í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi. Ég var þá kosinn fyrsti þingmaður kjördæmisins og sat í því sæti þar til í maí 1999.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins  1983 var ég kjörinn formaður flokksins og gegndi því starfi til 1991.

Árið 1985 tók ég við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og gegndi því til 1987. Á sama tíma gegndi ég embætti ráðherra Hagstofu Íslands. Um nokkurra mánaða skeið árið 1987 fór ég einnig með embætti iðnaðarráðherra.

Eftir kosningarnar  vorið 1987 myndaði ég ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum og gegndi embætti forsætisráðherra þar til stjórnin baðst lausnar vegna ágreiningmála haustið 1988.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins undir forsæti Davíðs Oddsonar var mynduð 1991 tók ég við embætti sjávarútvegsráðherra og var jafnframt dóms- og kirkjumálaráðherra. Þessum sömu ráðherraembættum gegndi ég síðan áfram í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum sem mynduð var 1995 en baðst lausnar um leið og ég lét af þingmennsku í maí 1999.

Í júní 1999 tók ég síðan við embætti sendiherra Íslands í London og var þar til ársloka 2002. Í ársbyrjun 2003 fluttist ég til Kaupmannahafnar og varð sendiherra þar til 2005.

Eftir þetta sneri ég mér aftur að blaðamennsku þegar ég gerðist ritstjóri Fréttablaðsins í ársbyrjun 2006. Því starfi gegndi ég fram á mitt ár 2009. Frá þeim tíma og fram í september 2014 skrifaði ég vikulega pistla í blaðið um stjórnmál.

Trúnaðarverkefni af ýmsu tagi

Á Háskólaárunum tók ég að mér ýmis trúnaðarverkefni: Formaður Vöku félags lýðræðissinnaðra stúdenta frá 1969 til 1970. -Í Stúdentaráð frá 1971 til 1973. – Í háskólaráði Háskóla Íslands 1971 til 1973. – Í skólanefnd Verslunarskóla Íslands frá 1972 til 1977. Formaður Orators félags laganema 1972 til 1973. – Í nefnd til að endurskoða stjórnsýslu Háskóla Íslands 1973 til 1974.

Forstjórastarfinu hjá Vinnuveitendasambandi Íslands fylgdu ýmis trúnaðarverkefni: Í fastanefnd Norrænu vinnuveitendasamtakanna 1979 til 1983. – Í kauplagsnefnd 1979 til 1980. – Í kjararannsóknanefnd 1979 til 1983. – Í verðlagsráði 1979 til 1983. – Í nefnd til að endurskoða lög og reglugerðir um réttindi farandverkafólks 1980.

Fljótlega eftir að háskólanáminu lauk komu verkefni á vettvangi stjórnmálanna til sögunnar: Í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna 1977 til 1979. – Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1981 til 1999. – Formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1983 til 1991.

Ýmis verkefni fylgdu í kjölfar þess að taka sæti á Alþingi: Formaður nefndar til að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands og viðskiptabanka 1983 til 1984. – Í nefnd til að endurskoða lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins 1983 til 1984. – Í nefnd til að gera tillögur um breytingar á skattalögum í því skyni að örva fjárfestingu í atvinnulífinu 1983 til 1984. – Í Þingvallanefnd 1983 til 1987. –  Í Norðurlandaráði 1988 til 1991.

Þegar ég sneri heim eftir sex ára dvöl erlendis tóku við önnur verkefni: Í stjórnarskrárnefnd 2005 til 2007. – Formaður Hjálparstarfs kirkjunnar 2006 til 2011. – Formaður Menningarsjóðs SPRON 2007 til 2011. – Í samninganefnd um aðild Íslands að Evrópusambandinu 2009 til 2013. – Formaður stjórnar MP banka frá 2011. – Formaður stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá 2013.

1. október 2014