Þorsteinn Pálsson:
Hófsemdarstefnan
Ræða á fundi Félags atvinnurekenda 6. okt. 2010.
Öndvert við kenningu þjóðskáldsins fengu þeir að njóta eldanna frá Austurvelli í fyrrakvöld sem fyrstir kveiktu þá. En er það svo að allir þeir sem á Alþingi sitja séu óhæfir? Hugsar engin þar um þjóðarhag?
Er hitt hugsanlegt að rætur vandans séu dýpri en einföld svör við spurningum af þessu tagi veita? Má vera að við höfum ekki fundið hugmyndafræðilega fótfestu til að standa á þegar við sækjum fram og þegar við þurfum að verjast áföllum?
Engum blandast hugur um að Íslendingar standa á krossgötum. Það höfum við áður gert. Í byrjun síðustu aldar fengum við heimastjórn á sama tíma og það stóra verkefni blasti við að lyfta landinu úr fátækt til bjargálna.
Hvers vegna tókst það? Einföld grundvallaratriði skýra svarið við þeirri spurningu. Á þeim tíma var Ísland hluti af Norræna myntbandalaginu. Viðskipti voru tiltölulega frjáls og erlend fjárfesting var boðin velkomin.
Með því að við bjuggum við sama fjármálastöðugleika og hin Norðurlöndin treystu erlendir fjárfestar sér til að koma með hlutafé í nýjan banka. Þessi banki átti aðgang að erlendu lánsfé. Því var veitt til uppbyggingar fiskiskipaflotans.
Það var mesta atvinnubylting í sögu þjóðarinnar.
Að því kom svo að bæði ytri aðstæður og breytt pólitísk viðhorf leiddu til þess að Norræna myntsamstarfið hvarf úr sögunni. Við innleiddum takmarkanir á erlendri fjárfestingu og brugðumst við kreppunni með öllum þeim haftareglum sem hugmyndaflug manna og útsjónarsemi leyfði.
Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni um miðja síðustu öld stóðu Íslendingar enn á krossgötum. Þá þurftu forystumenn þjóðarinnar að svara teimur mikilvægum spurningum:
Sú fyrri var þessi: Hvernig á að tryggja pólitíska og viðskiptalega stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna?
Sú síðari var þessi: Hvernig hagkerfi á að þróa í landinu svo að þjóðin njóti sömu velsældar og grannríkin?
Það merkilega er að mönnum gekk betur að svara spurningunni um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna en um hagkerfið. Mönnum var ljóst að Ísland gæti ekki staðið hlutlaust og treyst á tvíhliða samninga við aðrar þjóðir.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins mynduðu þá bandalag gegn sósíalistum til að taka boði um stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu.
Þetta voru grundvallarumskipti. Þessi ákvöðrun styrkti stöðu Íslands pólitískt. Hún hafði einnig jákvæð efnahagsleg áhrif. Ný pólitísk staða opnaði einfaldlega ný viðskiptatækifæri.
Þessi ákvörðun um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna byggði á skýrri hugmyndafræði. Henni var fylgt eftir með aðild að Fríverslunarsamtökunum og síðar innri markaðnum og Schengen. Framvinda tímans kallaði hverju sinni á ný skref af þessu tagi.
Erfiðara reyndist að ná samstöðu um þá hugmyndafræði sem vera skyldi undirstaða efnahagsstarfseminnar. Þannig var höftum viðhaldið hér í áratugi eftir að grannríkin höfðu horfið frá þeim.
Eftir fall Norræna myntbandalgsins á fyrri hluta síðustu aldar náðist ekki samstaða um nýja undirstöðu peningastefnunnar. Það leiddi okkur inn í höftin.
Eftir fall alþjóðlega Bretton Wodds peningamálasamstarfsins í byrjun áttunda áratugarins lentum við á ný í vandræðum. Við tóku tveir áratugir óðaverðbólgu.
Enn á ný er peningastefnan lykillinn að þeim lausnum sem við leitum að. Enginn ræddi þó framtíðina í þeim efnum á Alþingi í fyrrakvöld.
Frá miðri síðustu öld höfum við fegnið þrjár gífurlega miklar en ósjálfbærar innspýtingar í hagkerfið. Fyrst var það stríðsgróðinn. Síðan kom okkar eigin rányrkja eftir útfærslu landhelginnar. Loks tók erlent lánsfé í byrjun þessarar aldar að streyma stjórnlaust inn í landið.
Þessar ósjálfbæru innspýtingar færðu okkur lífskjör sem þjóðarbúið hafði ekki skapað og gat því ekki staðið undir.
Hver er pólitíska skýringin á því að síðasta falska innspýtingin varð okkur að falli?
Sumir segja að óheftur kapitalismi hafi ráðið öllu þar um. Svarið er þá að afnema kapitalismann. Það er annar af tveimur hugmyndafræðilegum áttavitum sem ríkisstjórnin siglir eftir. Hinn er samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Hugmyndafræðilega stefnir ríkisstjórnin því í tvær gagnstæðar áttir.
Stóra spurningin er hins vegar þessi: Er víst að þessi pólitíska greining á hruninu sé alls kostar rétt?
Skoðum það nánar. Á árunum fyrir hrun skipti pólitíkin forystumönnum í atvinnulífinu í fylkingar góðra manna og vondra. Það sem verra var: Menn voru ekki dæmdir eftir því hvað þeir gerðu eða höfðust að heldur hinu, hverjir þeir voru eða hverra vinir þeir voru.
Afstaða margra til stórra pólitískra viðfangsefna eins og stefnunnar í peningamálum réðist af því hvernig tengja mátti mismunandi sjónarmið við fyrirfram skilgreinda hópa góðra manna og vondra í forystu fjármálalífsins.
Með öðrum orðum: Þrátt fyrir tilfinningu um annað var þetta tími skorts á stefnufestu og skýrri hugmyndafræði.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lækkaði skatta verulega. Til þess var hún dyggilega studd af Samfylkingu í stjórnarandstöðu og að hluta til af Vinstri grænu.
Á sama tíma jók ríkisstjórnin verulega opinber útgjöld og fjölgaði opinberum starfsmönnum. Stjórnarandstaðan vildi ganga miklu lengra á því sviði en raun varð á.
Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan horfðu á vaxandi viðskiptahalla. Á hvorugum vængnum gáfu menn því gaum að þetta var hægt vegna þess að þjóðin í heild var að auka lántökur langt umfram verðmætasköpun þjóðarbúsins.
Hér réði mestu á báða bóga hugsunin um skammtíma vinsældaráðstafanir. Í reynd hljóp ófvöxtur í sósíalísk úrræði í ekki minna mæli en í kapitalismann.
Að þessu virtu væri miklu nær að segja að hrunið eigi rætur að rekja til þess að enginn fylgdi eftir þeirri íhaldshugmyndafræði eða hófsemdarhugmyndafræði sem nauðsynleg er til að tryggja stöðugleika og koma í veg fyrir að hraði breytinga, í hvaða átt sem er, verði svo mikill að sjálf gildi samfélagsins bresti.
Í hugmyndafræðilegu ljósi varð hrunið þannig vegna skorts á íhaldssamri eða hófsamri hugsun. Fram til ársins 2007 var Einar Oddur Kristjánsson nánast eini talsmaður þeirra viðhorfa á Alþingi.
Íslendingar standa enn á krossgötum. Að því leyti erum við í svipaðri stöðu og eftir síðari heimsstyrjöldina. Svara þarf sömu spurningum um framtíðina og þá:
Hvar á Ísland heima í alþjóðasamfélaginu í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar? Hvers kyns hagkerfi ætlum við að þróa eftir efnahagshrunið?
Um miðja síðustu öld gat pólitíkin leyst það verkefni að svara fyrri spurningunni með afgerandi og árangursríkum hætti. Vegna skorts á hugmyndafræðilegri fótfestu er hætt við að hvorugri spurningunni verði svarað nú.
Sósíalistar í Vinstri grænu ásamt meirihluta Sjálfstæðisflokksins eru nú Þrándur í Götu frekara samstarfs Íslands við Evrópuþjóðirnar. Þar með er útilokað að íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf geti reist nýja framtíð á stöðugri mynt.
Grundvallarágreiningur er hins vegar á milli Sjálfstæðisflokksins og sósíalista í Vinstri grænu um skattamál, orkunýtingu og fiskveiðistefnu. Þessir flokkar geta því ekki unnið saman þó að þeir eigi samleið í Evrópumálum og peningamálum.
Evrópumálin útiloka samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þótt ágreiningur á öðrum sviðum sé brúanlegur.
Komi til þess að Samfylkingin króist af í Evrópumálunum er líklegt að hún gefi þau fremur eftir gagnvart samstarfsflokknum í núverandi ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokknum.
Ólíklegt er að Samfylkingin myndi í því falli kjósa að standa utan stjórnar. Þó er ekki unnt að útiloka það.
Þetta er einföld mynd af þeirri óleysanlegu málefnakreppu á vettvangi stjórnmálanna sem veldur stöðnun efnahagslífsins og upplausn í samfélaginu.
Eigi þessi staða að breytast þarf þingmönnum á miðju og hægri væng stjórnmálanna sem styðja frekari Evrópusamvinnu að fjölga til muna. Ella verður málefnakreppan viðvarandi.
Telja verður líklegt að einhvers konar þróun af þessu tagi muni eiga sér stað. Annað væri merki um varanlega grundvallarbreytingu á viðhorfi fólks á miðju og hægri væng stjórnmálanna.
Smám saman mun koma í ljós að pólitískir og efnahagslegir hagsmunir kalla á að slíkt hugmyndafræðilegt jafnvægi verði á ný að veruleika í íslenskum stjórnmálum.
Núverandi ríkisstjórn mun mjög ólíklega leiða aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið til lykta. Það gerist ekki nema með öflugri forystu frá miðjunni og hægri væng stjórnmálanna.
Annar mögulegur kostur til að ákveða stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu er sá að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína. Forseti Íslands og ýmsir aðrir helstu talsmenn andstöðunnar við Evrópusamvinnu ræða þennan möguleika i fullri alvöru.
Þessi kostur útilokar Evrópusambandsaðild. Smám saman myndi hann því færa landið fjær helstu viðskiptaþjóðum okkar í Evrópu.
Við stöndum einnig frammi fyrir tveimur skýrum kostum á sviði peningamála. Annað hvort veljum við krónuna með einhvers konar höftum eða Evruna.
Ríkisstjórn sem vinnur að því að velja báða kostina er ekki líkleg til að finna lausn á fjárhagsvanda heimilanna.
Sterk pólitísk og viðskiptaleg rök mæla með því að auka Evrópusamvinnuna. Hitt er einnig mikilvægt að einungis með aðild getum við tryggt landinu sterkari og stöðugri mynt án hafta.
Náttúruauðlindirnar eru takmarkaðar þó að enn séu miklir ónýttir möguleikar í orkufrekum iðnaði. Framtíðin kallar hins vegar á þekkingar- og þjónustustarfsemi til að auka fjölbreytni og skapa ný vellaunuð störf.
Til þess þarf sömu samkeppnisskilyrði og þær þjóðir njóta sem við viljum helst jafna okkur við. Evrópusamvinnan er líklegasta leiðin til að skila okkur nær því takmarki.
Það lýsti vel hugmyndafræðilegri áttavillu þegar forsætisráðherra bað þjóðina afsökunar á því að Samfylkingin skyldi hafa lent inn á glapstigum Blair-ismans.
Blair-isminn var í raun aðlögun breska Verkamannaflokksins að þeirri jafnvægis hugmyndafræði frjálsra viðskipta og velferðar sem lengi hefur ráðið ríkjum á Norðurlöndum.
Það er nú of hættulegur kapitalismi fyrir Ísland. Afleiðing þessarar áttavillu hefur brunnið á Alþingi síðustu daga.
Þá liggur næst við að spyrja: Hvers þarf Ísland við? Svarið er: Ísland þarf efnahagskerfi sem byggt er á hugmyndafræði frjálsra viðskipta og velferðar með hæfilegum skammti af íhaldssemi sem kjölfestu.
Þegar við þurfum nú eins og fyrr að svara spurningu um hvar Ísland á heima í alþjóðasamfélaginu blasir við að Evrópusambandið er í raun réttri góð umgjörð um slíka pólitíska málamiðlun. Ísland á heima í umhverfi hugmyndafræðilegrar málamiðlunar af því tagi.
Engum vafa er undirorpið að slík hugmyndafræðileg málamiðlun myndi auðvelda hægri og miðjuöflum í stjórnmálum að fylla það tómarúm sem nú veldur stjórnmálakreppu í landinu og vinna til traustsins á ný.
Með vissum hætti má segja að með aðild að Evrópusambandinu nú væri Ísland að stíga inn í svipað umhverfi og hér var í byrjun síðustu aldar þegar atvinnubyltingin og sóknin til bættra lífskjara hófst.
Þá kölluðu þarfir atvinnulífsins á skilvirka heimastjórn. Nú kalla þarfir útflutningsgreina á alþjóðlegar lausnir varðandi samkeppnisreglur, umhverfismál og neytendavernd.
þá var aðild að norrænu myntbandalagi forsenda trausts og erlendrar fjárfestingar. Nú er aðild að evrópsku myntbandalagi forsenda trausts og erlendrar fjárfestingar.
Þá voru viðskipti án hafta forsenda nýrrar framþróunar. Nú eru viðskipti án hafta þar á meðal á fjármagnsmarkaði einnig forsenda nýrrar atvinnuþróunar.
Meðan þjóðarskútunni er stýrt eftir tveimur misvísandi áttavitum siglir hún í hringi.
Við þurfum hins vegar skýra stefnumörkun sem byggir á traustum hugmyndafræðilegum grunni.
Líkilegast er að ná málamiðlun um þá hugmyndafræði á meðal fólks nálægt miðju stjórnmálanna.
Takist það getum við hafið siglinguna að því takmarki sem við ætlum okkur.