Gamla Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?

 

Í vikunni birtust þær góðu fréttir í hagskýrslum að á þessu ári hefði kaupmáttur launa aukist meir en í annan tíma. Frá þingi ASÍ hljómuðu svo tíðindi af öðru tagi: Annars vegar þau að tilraun til hófsamra kjarasamninga hefði mistekist. Hins vegar þau að launamenn þyrftu nú að vígbúast til varnar fólskulegustu árás ríkisvaldsins í áratugi.

Sú spurning er áleitin hvort það eru fréttirnar úr hagskýrslunum sem ekki ríma við veruleikann eða þær sem bergmála frá þingi ASÍ. Og svo má velta fyrir sér hvort það er of mikil einföldun að gera kröfu til þess að ályktanir forystumanna launafólks rími við þessar afmörkuðu hagtölur. Veruleikinn er vissulega flóknari.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sætti hún harðri gagnrýni frá ASÍ. Hún var bara í eðli sínu allt önnur en í dag. Þá var réttilega dregið fram að skortur á skýrri stefnu í peningamálum útilokaði stöðugleikasamninga til lengri tíma. Niðurstaðan varð sú að gefa ríkisstjórninni svigrúm til umhugsunar og semja á forsendum stöðugleika til skamms tíma.

Markmiðið var að fara inn á sömu braut við hagstjórn og kjarasamninga og Norðurlandaþjóðirnar hafa langa reynslu af. Kaupmátt og velferðarkerfi framtíðarinnar átti að reisa á meiri framleiðni, stöðugleika og sterkari samkeppnisstöðu Íslands. Réttilega var á það bent að allar aðrar leiðir kynnu að færa Ísland áratugi aftur í tímann.

Í fyrra vörpuðu ályktanir frá ASÍ ljósi á nýja framtíð. Nú er hins vegar búið að dusta rykið af þrjátíu ára gömlum baráttuyfirlýsingum. Það er eins og tímaflakk til verðbólguáranna sé hafið. Gamla Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?

Svo rífa menn hár sitt engum til gagns

Svo geta menn rifið hár sitt næstu áratugina og þrætt um á hvern eigi að skella skuldinni. Það rifrildi verður aftur á móti engum að gagni. Hitt skiptir máli að fara ekki af þeirri braut sem ASÍ boðaði og barðist fyrir í fyrra. Hún lá til nýrrar og betri framtíðar en ekki aftur á bak.

Nær væri því að ræða til þrautar hvort það er rétt staðhæfing hjá ASÍ að tilraun til stöðugleikasamninga hafi mistekist. Kaupmáttartölurnar benda til hins gagnstæða. Sú staðreynd að Seðlabankanum hefur tekist að halda sig innan verðbólgumarkmiðsins á þessu ári er hin hliðin á þeim peningi.

Það sem Alþýðusambandið gæti sagt með nokkrum rétti er að því fari fjarri að á vísan sé að róa með þennan árangur. Hann er sýnd veiði en ekki gefin. Eftir stendur að stöðugleikasamningar sem gerðir voru til skamms tíma fyrir ári voru eins konar undirbúningslausn sem um flest tókst.

Staðan er að sönnu þrengri varðandi framhaldið. Það má saka ríkisstjórnina um það. En með rökum er ekki unnt að halda því fram að sú leið hafi lokast.

Í fjárlagafrumvarpinu eru ýmsar ákvarðanir eins og gerist og gengur sem auðvelt er að skilja að ASÍ andmæli. En hitt eru öfugmæli að það sé árás á launafólk. Fyrir því eru ekki haldbær rök. Sá málflutningur virkar meir sem afsökun til þess að hverfa aftur í skotgrafir gamla verðbólgusamfélagsins.

ASÍ hefur á hinn bóginn gild rök til þess að gagnrýna ríkisstjórnina með tvöfalt meiri þunga nú en í fyrra fyrir að sýna enn autt blað varðandi framtíð peningastefnunnar. Það er einfaldlega rétt sem ASÍ sagði þegar stjórnin tók við að þar væri lykillinn að því að byggja upp það traust sem vinnumarkaðurinn þarf á að halda svo hann geti samið af ábyrgð um kjarabætur á grundvelli stöðugleika og framleiðniaukningar.

Meiri metnað fyrir framtíðina

Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins lögðu mikla vinnu í að setja fram metnaðarfullar hugmyndir sem stuðlað gætu að aukinni framleiðni og vaxandi kaupmætti. Ekki er líklegt að hér komi ríkisstjórn sem náð getur þeim markmiðum án víðtækrar samvinnu með forystufólki launafólks og atvinnlífs.

Lausn þeirra miklu vandamála sem steðja að þjóðarbúskapnum og hitt að varða leiðina til nýrrar framtíðar kallar hvort tveggja á samstarf ríkisstjórnar inn á við og út á við, við vinnumarkaðinn og alþjóðastofnanir. Núverandi forsætisráðherra lagði til á sínum tíma að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn yrði slitið í miðjum klíðum. Það kann að skýra það áhugaleysi sem ríkisstjórn hans hefur á samstarfi af því tagi sem aðilar vinnumarkaðarins kölluðu eftir.

Það þarf sameiginlegan metnað og sameiginlega sýn á framtíðina til að árangur náist. Ef samstaðan sem var milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins um að fara inn á nýjar brautir rofnar eru afleiðingarnar alveg þekktar.

Þótt ríkisstjórnin hafi verið treg til að ræða stjórn peningamálanna í þessu ljósi standa engin málefnaleg rök til að sleppa henni við þann þrýsting. Allra síst með því að dusta rykið af heitum baráttusamþykktum verðbólguáranna áður en sá gamli púki blæs út á fjósbitanum.

Fyrir þá sök er það harmsefni ef Alþýðusambandið hvikar í ótíma frá fyrri metnaði sínum í þessu efni.

 

 

 

 

 

 

24. October 2014