Þorsteinn Pálsson:
Geta Íslendingar gert nokkuð annað en elska Dani?
Kveðjuræða í Dansk islandsk samfund, 5. okt. 2005.
Fyrir nokkrum vikum var haldin íslensk kvikmyndavika hér í Kaupmannahöfn. Sá atburður er ekki í frásögu færandi hér nema fyrir þá sök að í hléinu rakst ég á Steen Lindholm formann Dansk islandsk samfund. Ég hafði fyrir löngu lofað að skjóta að honum yfirskrift á þau fátæklegu orð sem ég hafði áður með ljúfu geði fallist á að flytja hér í dag. Þarna í hléinu á kvikmyndavikunni spurði formaðurinn svo hæverkslega hvort yfirskriftin færi ekki að koma því nú þyrfti að senda út fundarboð.
Ég bað formanninn margfaldlega afsökunar og sagðist koma að vörmu spori með hugmynd. Hvað ég gerði í trausti þess að formaðurinn myndi skella upp úr og bæta síðan góðlátlega við að svona vitleysu gæti ég ekki komið með og þannig myndi ég verða mér út um viðbótarfrest til þess að hugsa eitthvað gáfulegt. En ég hékk fastur á króknum því að formaðurinn sagði ekki annað, þegar hann hætti að hlæja, að þetta gæti orðið bráðfyndið og hann hlakkaði til að hlusta á mig tala um það hvort Íslendingar gætu gert nokkuð annað en að elska Dani.
Með öðrum orðum: Ég kom mér sjálfur í þá klípu að tala hér um efni, sem ég hafði ekkert hugsað og sennilega engum óvitlausum manni dottið í hug að fjalla um áður. Þegar ég koma heim frá opnun íslensku kvikmyndavikunnar, þar sem tveir Danir höfðu farið lofsamlögum orðum um íslenskar kvikmyndir og lyft þjóðernismetnaði mínum, áttaði ég mig fyrst fullkomlega á því hversu alverlegt glappaskot mitt var.
Ég gerði mér sem sagt grein fyrir því að allar þjóðir elska fyrst og fremst sjálfar sig. Við köllum það stundum þjóðernishyggju eða þjóðernismetnað. Flest höfum við upplifað stundir þar sem ástin til landsins okkar blossar upp og færir okkur í einhvers konar hamingjuvímu. Ég finn þessa tilfinningu í hvert skitpi sem ég lendi á Keflavíkurflugvelli og flugfreyjan býður mig velkominn heim. En þessi tilfinning kemur yfir okkur við margs konar önnur tækifæri. Þegar við sjáum fánann okkar dreginn að húni, þegar afreksmenn okkar vinna frækilega sigra í útlöndum, þegar þjóðsöngurinn er sunginn og þannig mætti lengi telja.
Stundum blossar ástin á landinu og þjóðinni upp þegar hættu steðjar að eða þjóðin hefur farið halloka í samskiptum við aðrar. Þannig eflist þjóðernisást okkar Íslendinga í hvert skipti sem við töpum fyrir Dönum í fótbolta. Hitt höfum við ekki upplifað, svo ég viti, að öðlast þjóðernislega ástarsælu út á það að vinna Dani í fótbolta fyrir utan það eina sinn sem ekki verður leikið aftur er við buðum danska landsliðinu í heilsdags útreiðartúr daginn fyrir leik.
Sem sagt það væri unnt að halda langa ræðu um það hvernig Íslendingar elska sjálfa sig. En þar sem ég var kominn heim af íslensku kvikmyndavikunni, sem snannarlega hafði aukið þjóðernisstlolt mitt og ást mína á Íslandi, gerði ég mér grein fyrir því að ég hafði aldrei heyrt að nokkurn tíman hefðu verið sagðar sögur af því, að ein þjóð hefði borið svo sterkar eða hlýjar tilfinningar til annarrar þjóðar að líkja mætti því við svo stórt hugtak sem ást, eða hafa um það samband þjóða þau orð að önnur elskaði hina eða þær hvor aðra.
Ég hafði einfaldlega tekið að mér að svara spurningu um eðli í samskiptum þjóða sem engum hafði nokkru sinni dottið í hug að svara. Þar að auki rann það upp fyrir mér að ég gat ekki vitað meir um þetta skrýtna fyrirbæri eða hugtak, ástina, en þeir sjálfir, sem hugsanlega nenntu að koma til að hlusta á það sem ég gæti haft fram að færa.
Auk þess kom það upp í hugann þarna um kvöldið að ég hafði einhvern tíman lesið þá fullyrðingu eftir þekktan rithöfund og hugsuð, að það væri með öllu útilokað að elska og vera vitur í senn. Ef ég gengi út frá því sem réttum sannindum væri ekki unnt að svara spurningunni um það hvort Íslendingar gætu annað en að elska Dani með jákvæðum hætti öðru vísi en að viðurkenna að Íslendingar væru ekki nógu greindir. Það viðurkennum við að sjálfsögðu aldrei. Og ef til vill mætti ljúka málinu þar með. En það væri að vísu half vandræðalegt.
Hefur nokkur maður nokkru sinni í hléi á kvikmyndasýningu komið sér í önnur eins vandræði og ég? Mér er það sannarlega til efs. Þá kom upp í huga minn mynd af Alþingishúsinu í Reykjavík. Það var byggt árið 1881. Arkitektinn var að sjálfsögðu danskur. Þau fáu gömlu hús, sem til eru á Íslandi, eru hluti af danskri menningu. Það verðum við að viðurkenna, hvað sem öðru líður. Árum saman átti ég dagleg erindi í þetta litla musteri lýðræðisins á Íslandi. Enginn sem þangað fer inn kemst hjá því að ganga undir merki Kristjáns IX., sem gert er úr steini og gænfir efst á þinghúsinu fyrir miðju.
Einu sinni var ungur þingmaður sem lagði til að þetta gamla konungsmerki yrði rifið niður því að það væri tákn um gamla yfirstjórn ef ekki kúgun, sem við hefðum fyrir löngu losað okkur undan. Enginn tók undir tillöguna. Öllum þótti hún fjarstæð. Konungsmerkið sögðu menn réttilega að væri bæði hluti af húsinu og sögu þjóðarinnar. Sagan yrði aldrei strokuð út. Í fáum orðum sagt var það talin mesta fjarstæða að láta sér detta í hug að taka gamla konungsmerkið niður.
En því fannst mér þessi mynd af konungsmerkinu á Alþingishúsinu, sem ég sá þarna fyrir mér eftir kvikmyndasýninguna, koma mér til bjargar í þrengingum hugsana minna að ég gat ekki ímyndað mér að á nokkrum öðrum stað í veröldinni væri þinghús einnar þjóðar prýtt með konungsmerki annarrar. Hlaut það ekki að vera tákn um einstakt og alveg sérstakt samband tveggja þjóða, sem hvergi ætti sér algjöra hliðstæðu.
Vel má vera að meira þurfi til en eitt konungsmerki á þinghúsi til þess að unnt sé með rökum velta því fyrir sér hvort sú þjóð, sem á þinghúsið elski hina sem á konungsmerkið. En hvað sem því líður er hér komið tilefni til hugleiðingar um sérstakt samband tveggja þjóða, sem deildu örlögum um langan tíma. Konungsmerkið geymir minningar um samband þjóðanna, sem vissulega má líkja við hjúskap. En hitt vitum við að hjúskapur og ást þurfa ekki alltaf að fara saman. Því verður konungsmerkið á Alþingishúsinu eitt og sér ef til vill ekki til sönnunar um ást Íslendinga á Dönum.
Ein fyrsta rensla mín af norrænu samstarfi var á móti norrænna lagastúdenta, sem haldið var í Finnlandi sumarið 1972. Þangað komu tólf laganemar frá hverju hinn fimm landa. Dag einn meðan á mótinu stóð uppgötvaði einn íslensku þátttakendanna að danskt par sem deildi saman herbergi var skráð undir tveimur mismunandi ættarnöfnum. Á þeim tíma vakti slíkt spurningar því að Íslendingar höfðu þá ekki enn lært danskt frálsræði á þessu sviði.
Hann hét Jensen,en ég þori ekki að fara með hennar nafn. En tilvísunin í þessa fyrstu samnorrænu reynslu mína snýst einfaldlega um það, að Jensen var að því spurður hvort þau væru ekki örugglega gift. Hann svaraði að bragði: Ju, det er vi, men ikke med hin anden. Er þetta ekki einmitt í hnotskurn lýsingin á sambandi Íslands og Danmerkur? Við deilum saman herbergi í sögunni. Danmörk er hins vegar í nútímannum gift Evrópusambandinu, en Ísland er þar enn ólofað. En þó að hjónabandið sé þannig gengið í sundur getur samt sem áður logað í gömlum glæðum. Það er einmitt þetta sem er í glæðunum sem ég ætla að reyna að skoða nánar.
En hvað er þetta, sem logar í sambandi fólks og jafnvel þjóða og getur geymst í gömlum glæðum þeirra á milli? Visslulega er það svo að ég verð að leita til mér fróðari manna til þess að geta talað um þetta fyrirbrigði, sem kallað er ást, af einhverju skynsamlegu viti. Og miklu fremur til að sjá hvort slíkar skilgreiningar geti passað við samband Íslendinga og Dana í gegnum tíðina eða eins og það er nú.
Sören Kirkegaard hélt því fram að menn yrðu að hafa sterka sjálfsímynd til þess að geta elskað. Ástin væri eins konar áhersla á persónulegri tilvist þess sem elskar. Samkvæmt þessu ættu Íslendingar að geta elskað því að ekki skortir þá sjálfsímynd. Hitt er svo annað mál að þessi skilgreining sannar ekkert um að þeir elski Dani. Hún segir ekki annað en þeir geti gert það ef þeir vilja.
Fyrir um það bil 2500 árum settust mestu menningarvitar þess tíma að samdrykkju (symposium)til þess að rökræða hugmyndir sínar um ástina. Sókrates var í þeim hópi. Þó að hann teldi sig ekki vita annað en það, að hann vissi ekki neitt, hafði hann yfirleitt meir til málanna að leggja en aðrir.
Um ástina sagði Sókrates meðal annars að hún fæli í sér svo mikið afl eða kraft, að þegar hún blossaði upp í einum manni gæti hann vart um annað hugsað en ástina sína. Á hann hlypi eins konar rómantískt æði. Þó að mörg dæmi séu um að margs konar æði renni á Íslendinga, ein jól þurftu til að mynda allir Íslendingar að eignast fótanuddtæki, verður ekki séð að nokkru sinni hafi beinlínis runnið á þá æði gagnvart Dönum. Það tók til dæmis meira en hundrað ár að koma skilnaðinum í kring. Meiri var nú ákafinn ekki. Þessi fyrsta skilgreining Sókratesar færir okkur því ekki nær neinu skynsamlegu svari við spurningunni um það hvort Íslendingar elski Dani eða geti hreinlega ekki annað.
En Sókrates sagði meira. Hann komst að þeirri niðurstöðu að sú tegund af ást sem bundin er við líkamlega fegurð og stundlega ánægju sé aðeins einfaldasta og reyndar auðvirðulegasta tegund þessa fyrirbrigðis, sem við köllum ást. Þróunin felist í því að byrja á því að skynja og skilja hvað það er sem gerir einhvern aðlaðandi, að sjá hið fallega í fari einhvers og laðast að því sem einhver gerir vel eða fallega, göfuglega og siðferðilega rétt.
Þegar hér er komið sögu getur maður samkvæmt Sókratesi loks í raun orðið ástfanginn af hinu góða í sjálfu sér. Það felur í sér að hugmyndir og skilningur þeirra sem ástfangnir eru fellur saman um það sem er fagurt, gott og satt. Hér förum við að komast nær kjarna málsins. Æðri hugmyndir okkar Íslendinga og Dana eins og um lýðræði og mannréttindi falla jú vel saman.Trúarlegur skilningur okkar er áþekkur. Bókmenntalegur smekkur um margt svipaður. Viðhorf okkar til jafnréttis kynjanna, uppeldis barna og umönnunar aldraðra og þeirra sem höllum fæti standa eru svipuð.
Þegar kemur að þessu æðra þroskastigi ástarinnar förum við sem sagt að standa nær því en áður að geta fikrað okkur í átt til niðurstöðu um þá áleitnu spurningu, sem erindið snýst um. Ekki síst þegar haft er í huga að flest það sem við eigum sameiginlegt í þessum efnum höfum við sótt til Danmerkur. Menn sækja jú í það sem þeir hafa elsku á.
Fáum nú Aristoteles í lið með okkur. Hann greindi á milli þriggja tegunda af ást og vináttu.
Í fyrsta lagi kom þar til hagsmunahyggja eða vinátta, sem byggir á gagnkvæmum hagsmunum. Hvor aðili um sig hagnast á samskiptunum og sérhagsmunagæslan er grundvallarmarkmið hvors um sig.
Hér vandast málið. Við lentum undir dönskum konungsráðum fyrir tilviljun og vegna flókinnar uppstokkunar í dönsku konungsfjölskyldunni, sem á þeirri tíð komst til valda í allri Skandinavíu. Í því voru engir hagsmunir fólgnir fyrir okkur. Síðar þegar danska konungsveldið kom á einokunarverslun við Ísland og danskir kaupmenn fóru að selja okkur myglað og maðkétið mjöl varð þetta samband okkur beinlínis efnahagslega óhagkvæmt. Það ástand gat sannarlega ekki leit til ástar vegna hagsmunahyggju. Þetta maðkaða mjög stendur raunar enn svolítið í okkur.
En þessar aðstæðpur hafa breyst.Íslenska efnahagskerfið hefur aldrei verið stórt í sniðum. En það hefur vaxið hratt á síðustu árum. Samt er það enn svo smátt að nýríkir og stórhuga menn í viðskiptum finna ekki heima á Íslandi nægjanlega stóran markað fyrir sig og hugmyndir sínar. Þess vegna kaupa Íslendingar nú danska banka, dönsk fiskvinnslufyrirtæki og helstu stórverslanir við Strikið og Kongens Nytorv.
Íslenskir námsmenn nutu lengi sérstakra forréttinda á Garði allt fyrir góðan skilning og náð konungs og þeir eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr sem stunda nám við danska háskóla. Íslenskir listamenn koma hinga til að starfa af því að þeir hafa trú á að það gefi meiri í aðra hönd eða skili þeim lengar út í heim í hörðum heimi alþjóðlegrar menningar.
Með öðrum orðum: Það eru ýmis skilyrði fyrir hendi eins og sakir standa til þess að hafa hagsmunaást á Dönum.
Önnur tegund ástar samkvæmt skilgreiningu Aristotelesar var sældarhyggjan. Hún felur í sér vináttu sem getur af sér ánægju og afþreyingu. Báðir aðilar skemmta sér vel og njóta samvista við hinn. En samt sem áður er þroskinn ekki meir en svo að báðir hugsa mest um eigið skinn eða sína eigin nautn.
Hvernig er nú sambandi þjóðanna komið að þessu leyti? Danir matreiða síld, sem veidd er á Íslandsmiðum, allra þjóða best. Þeir steikja svínakjöt þannig að ekki jafnast á við neitt annað í matreiðslu annarra þjóða. En hvernig koma þessar staðhæfingar stoltum og sjálfstæðum Íslendingum við? Ég kann ekki að svara því öðru vísi en að benda á þá staðreynd að hingað koma fjórar flugvélar dag hvern frá Íslandi nema þá daga þegar þær eru fimm og allar fullar af fólki.
Margir koma hingað af hagsmunahyggju einni saman en hinir eru miklu fleiri sem hingað koma af sældarhyggju. Þeim finnst einfaldlega gott að borða í Danmörku. Ef Bandaríkjamenn ættu hlutfallslega að senda jafnmargar flugvélar til Danmerkur og Íslendigar gera kæmu hingað dag hvern fjögur til fimmþúsund flugvélar frá Bandaríkjunum. Að teknu tilliti til mannfjölda má því segja að sældarhyggja Íslendinga í garð Dana sé á all háu stigi.
Skoðum loks þriðju skilgreiningu Aristitelesar á ástinni, dygðahyggjuna. Samkvæmt henni laðast aðilar saman fyrir þá sök að þeir virða og dá dyggðir hins. Þeir virða viðkomandi sem persónu, sem er góð í sjálfri sér. Það er ekki lengur síngrinin eða sérhyggjan sem rekur menn áfram. Þeir gleðjast yfir velgengni vinar, vinarins vegna. Forsendan eru sameiginlegar hugmyndir um fallegt og gott og satt að elska dygðina dygðarinnar vegna.
Hér vandast málið á ný. Höfum við nokkurn tíman virt Dani vegna þeirra eigin dygða? Horfum við ekki alltaf á samband okkar við þá eins og aðra út frá eigin hagsmunum? Móðgumst við ekki í hvert sinn sem okkur finnst Danir líta á okkur sem litla bróður?
Þessum efasemdarspurningum verður sennilega best svarað með öðrum spurningum. Myndum við sækjast eftir félagsskap Dana í samfélagi þjóðanna ef við virtum ekki dyggðir þeirra? Myndum við sækjast eftir menntun í háskólum Danmerkur ef við virtum ekki dyggðir þjóðarinnar þekkingu hennar og menntun?
Hefðum við tekið á móti handritunum sem gjöf frá dönsku þjóðinni ef við hefðu ekki litið svo á hún væri með því að sýna veglyndi sitt og vináttu í garð Íslendinga? Getur nokkur Íslendingur sem stóð á hafnarbakkanum í Reykjavík vorið 1971 og sá Vædderen leggja upp að með fyrstu handritin gelymt þeirri stundu?
Má ekki líka segja að okkur sé hollt að öðru hvoru segi einhver við okkur að ef til vill séum við ekki eins stórir í samfélagi þjóðanna eins og við þykjumst vera eða vildum vera?
Og ég held ennfremur að ég meti íslenska þjóðarsál rétt, þegar ég staðhæfi, að hún samfagnar jafnan með Dönum þegar þeir vinna aðrar þjóðir í fótbolta en okkur sjálfa. Þegar grannt er skoðað má því færa að því rök að jafnvel á þessu æðsta stigi ástar og vináttu geti verið fyrir hendi skilyrði til að segja megi að Íslendigar hafi nokkra ást á Dönum.
En spurning er hvort hér liggja sannar dyggðir að baki af okkar hálfu. Virðum við ekki Dani fyrst og fremst vegna þess að við teljum okkur eiga sitthvað í menningu þeirra? Erum við ekki að hreykja okkur af því að hafa skilið H.C. Andersen á undan Dönum sjálfum? Erum við ekki stöðugt að eigna okkur Thorvaldsen af því að faðir hans var íslenskur? Segjumst við ekki eiga Ólaf Elíasson vegna þess að foreldrar hans voru íslenskir. Teljum við okkur ekki eiga lítið eitt í Litlu hafmeyjunni af því að móðir listamannsins var íslensk?
Þessu er til að svara að H.C. Andersen skrifaði sjálfur að íslenski rithöfundurinn Grímur Thomsen hafi fyrstur veitt honum skilyrðislausa rithöfundarviðurkenningu af ríkulegri þekkingu og kærleika. Á skírnarfonti Thorvaldsens í Heilagsandakirkju við Strikið er áletrun á latínu þar sem listamaðurinn tileinkar verkið ættlandi sínu Íslandi í ræktarskyni. Og nú hefur Ólafur Elíasson ekki aðeins listskreytt hið glæsilega operhús Kaupmannahafnar heldur einnig gerst listrænn ráðgjafi við byggingu tónlistarhúss í Reykjavík.
En kjarni þessa máls er sá, að við værum ekki að mikla okkur af þeim smávægilegu ítökum í danskri menningu fyrr og nú, sem við þykjumst eiga, ef okkur þætti ekki sómi af því. Við getum sagt sem svo að þessi sérhyggja Íslendinga, sem Dönum finnst hún ugglaust vera, byggi á því að okkur þykir það nokkurs um vert að eiga slík ítök í danskri menningu. Ef til vill ber þessi sérhyggja Íslendinga í sér að við viðurkennum öðru fremur danskar dyggðir. Því má vera að hún sé einfaldlega þáttur í því að fella samband okkar við Dani undir þessa æðstu skilgreiningu Aristotelesar á ástinni.
Í byrjun 18. aldar sagði Holberg á einhverjum stað að þeim skjátlaðist stórkostlega, sem héldu að Íslendingar hefðu nálega ekkert annað mannlegt við sig en sköpulagið. Og eitt af þjóðernisskáldum 19. aldarinnar á Íslandi sagði í kvæði að við þekktum ekki djöfullegra dáðlaust þing en danskan Íslending. Danir og Íslendingar hafa vissulega með margvíslegu móti sent hvorir öðrum kveðjurnar í gegnum tíðina.
Þegar ég var í barnaskóla lærðum við lítið annað um Dani en að þeir hafi kúgað okkur um aldir. Og allir gátu vitnað í Snorra sem sagði að yrkja skyldi Danakonungi níðvísu fyrir nefn hvert í landinu. Og nú um stundir held ég að ungir Danir viti hrala lítið um Ísland. Mörgum Dönum finnst eðlilega að Ísland sé ekki annað en lítill hólmi norður í höfum, semm þeir hafi nú ekki lengur vandræði af. Og okkur finnst Danir ekki skilja að við erum í eigin augum að minnsta kosti stærri en við sýnumst vera.
Í þessu ljósi fer ekki á milli mála að við mættum gera meira í því að efla gagnkvæman skilning á því sem þessar þjóðir hafa átt og eiga sameiginlegt.
Við lutum vissulega sama konungi um aldir. En þjóðirnar voru alltaf tvær og löndin tvö. Og það er í fullu samræmi við eðli máls að það gat varla gerst án nokkurra tilfinningalegra hræringa á báða bóga þegar hugmyndir komu fryst fram um að Íslendingar fengju stjórn sinna mála í eigin hendur.
Og það er ekki svo eins og margir halda í Danmörku, að Íslendingar hafi notað sér hernám Danmerkur til þess að slíta konungssambandinu 1944. Sú ákvörðun byggðist á samningi frá 1918 sem fól í sér að Íslendingar gætu eftir 25 ár stigið þetta skref. Alþingi tók með þingsályktun stefnu þar um þegar árið 1937. Það má miklu fremur segja að stríðið hafi ekki breytt áður teknum ákvörðunum um að nota heimildir samningsins þegar þar að kæmi.
En hverjar svo sem tilfinningar manna voru á Íslandi og í Danmörku er það svo að sjálfstæðisbarátta Íslendinga, sem hefst á 19. öldinni, var í raun og veru grein á sama meiði og barátta Dana sjálfra fyrir þingræði og málfrelsi.
Hugmyndirnar voru sprottnar úr sama jarðvegi. Þær áttu rætur að rekja til nýrra hræringa og hreyfinga í Evrópu þess tíma. Þessir nýju straumar færðu margt úr stað, bæði í tilveru Íslendinga og Dana.
Segja má, að í hverri götu og hverju stræti í gamla borgarhluta Kaupmannahafnar finni menn minnismerki íslenskrar sögu. Þar eru íbúðarhús og ölkrár sem deila menningu tveggja þjóða með einn konung. Þar bjuggu íslenskir stúdentar, fræðimenn og skáld sem gerðu danskan frelsisanda að íslenskri sjálfstæðisvakningu.
Hér í Kaupmannahöfn hafa nokkrir Íslendingar það meira að segja að atvinnu nú um stundir að fara með hundruð Íslendinga í viku hverri í gönguferðir um gamla borgarhlutann til þess að upplifa íslenska sögu. Þar eru farþegar með flugvélunum fjörum sem koma hinga dag hvern. Þessi nýja atvinnugrein lýsir því einu að það er lifandi áhugi á Íslandi fyrir þessari sameiginlegu arfleifð, sem hér er að finna. Íslendingar koma einfaldlega með öðrum huga til Kaupmannahafnar en annarra borga.
Halldór Laxness sagði að engir útlendingar hefðu farið til Kaupmannahafnar til þess að læra list nema Íslendingar. Segir það ekki heilmikið um þær tilfinningar sem listamenn okkar hafa borið til okkar gömlu höfuðborgar? Ef til vill er í því fólginn vísbending um að í þeim tilfinningum hafi verið fólgin nokkur ást til þeirrar þjóðar sem við vorum svo tengdir en vildum samt segja skilið við og sækjum nú heim í stærri hópum en nokkra aðra þjóð.
Lítum nú sem snöggvast á ný í samdrykkjuna og sjáum hvað Aristofenes hafði fram að færa um ástina. Hann skýrði út fyrir sessunautum sínum hvernig ást milli karls og konu væri tilkomin. Skýring hans var á þá leið að karl og kona hafi í fyrndinni verið eitt og allt það sem áður var eitt en nú er tvístrað leitast náttúrulega við að sameinast á nýjan leik.
Þannig má hafa orð Aristofenesar fyrir því að eðlislægt aðdráttarafl ríki á milli fyrirbæra, sem slitið hafa náin bönd. Er ekki stóra spurningin sú, hvort baksviðið í samskiptum Íslendinga og Dana falli ekki einmitt að þessari skýringu Aristofanesar á ástinni. Við verðum aðeins að hafa það í huga þegar við hugsum um samskipti landa okkar út frá þessum sjónarmiðum, að ástin, sem Grikkir kenndu við Eros, er ekkert lamb að leika sér við. Í raun er hún slíkur ógnarkraftur að hún er mannlegu þreki ofviða. Það þarf að minnsta kosti að virkja hana egi ekki hætta að verða á ferðum.
Þegar allt kemur til alls þori ég einfaldlega ekki að svara spurningunni, sem ég í aðgæsluleysi henti fram í hléinu á íslensku kvikmyndavikunni á dögunum og formaður Dansk islandsk samfund greip á lofti. Satt best að segja tel ég mig ekki umkominn þess að svara svo stórri spurningu. En mér finnst hvað sem því líður að við höfum ríkar ástæður til þess að leggja rækt við samband þjóðanna.
Ef til vill er kominn tími til að Íslendingar og Danir taki það sem verkefni að skrifa sameiginlega sögu þjóðanna og skýra atburði liðins tíma í nýju ljósi, ljósi, sem ekki beindist að þeim tilfinningum sem villa mönnum oft sýn þegar meta þarf staðreyndir af yfirvegun og réttsýni. Sá tími er lögnu kominn að við metum samskipti landanna á nýjum forsendum án þeirra tilfinninga, sem áður réðu ríkjum.
Og af því að þessar bollaleggingar hófust í raun og veru í kvikmyndahúsi væri ekki úr vegi að við enduðum umræðuna hér í kvöld með því að leggja til að gerð verði heimildarmynd um þann hug sem þjóðirnar bera nú til hvor annarrar. Kannski gætu snjallir listamenn bæði íslenskir og danskir á þeim vettvangi eða í því listformi leyst þá gátu hvort Íslendingar geti annað en elskað Dani.
Að lokum vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka Dansk islandsk samfund fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf þann tíma, sem ég hef dvalið hér í Danmörku. Alveg sérstaklega vil ég þakka formanninum Steen Lidholm og stjórn hans fyrir mikilsvert framlag þeirra til þess að viðhalda og auðga menningarsamskipti þjóðanna. Allt finnst mér það hafa verið gert með sannri ást á viðfangsefninu. Slika ást á menningarsamskiptum landanna viljum við gjarnan endurgjalda Dönum.