Fregnir af yfirvofandi afnámi haftanna hafa glætt vonir margra um að sú stóra stund sé senn upp runnin.
Enn sem komið er hafa stjórnvöld þó sagt fátt um inntak breytinganna utan lokaðra funda með stjórnarandstöðunni og þeim sem mestra hagsmuna eiga að gæta. Það er eðlileg og varfærnisleg nálgun að almennri umræðu.
Ýmislegt er því enn á huldu. Er til að mynda verið að tala um afnám hafta eða breytingar á þeim? Og hafa menn svör við því hvernig á að stýra krónunni í ólgusjó frjálsra viðskipta?
Af því sem sagt hefur verið má draga þá ályktun að áform séu uppi um að stíga tiltölulega fljótt mikilvæg skref til að breyta höftunum. Það gæti aftur verið fyrsti áfangi á lengri leið að afnámi þeirra síðar. Flest bendir því til að það sé ofsögum sagt að gjaldeyrisviðskipti án takmarkana séu á næsta leyti. Eigi að síður eru væntanlegar breytingar framför og fagnaðarefni.
Svokallaður útgönguskattur á gjaldeyrisyfirfærslur þýðir að viðskipti af því tagi verða áfram háð takmörkunum. En þær verða einfaldari, gegnsærri og um margt réttlátari en núverandi haftareglur.
En hitt ber að varast að lýsa góðum áfanga sem ferðalokum.
Stundaglas hiksins er að tæmast
Enginn ágreiningur er um nauðsyn þess að leysa höftin. Lítill ágreiningur er um að það þurfi að gera í áföngum eftir ákveðinni áætlun. Flestir eru á einu máli um að á áfangastað þurfi svo að vera umhverfi stöðugleika og jafn frjálsra viðskipta og helstu viðskiptalöndin búa við.
Skoðanir eru aftur á móti skiptar um það hver stefnan eigi að vera í gjaldeyrismálum og peningamálum til að ná þeim markmiðum þegar haftaslóðin er loks að baki.
Ákúrur Samfylkingarinnar á forsætisráðherra fyrir að ná ekki þeim upphæðum úr þrotabúunum sem hann gaf fyrirheit um sýnast fremur vera stríðni en ágreiningur um stefnu.
Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr að því leyti að Ísland á að nota eigin mynt til frambúðar. Sú stefna gengur að vísu á svig við efnahagsályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Þar var ákveðið mælt fyrir um könnun á öðrum gjaldmiðilsmöguleikum.
Tvær skýringar geta verið á þessu misræmi milli landsfundarafstöðunnar og stjórnarstefnunnar. Önnur er sú að þingflokkur sjálfstæðismanna hafi ekki náð þessu fram í samningum við Framsóknarflokkinn. Hin er sú að þingflokkurinn sé efnislega á öndverðum meiði við landsfundinn.
Stefna ríkisstjórnarinnar er á aftur á móti óljós um það hvernig stýra á peningamálunum eftir losun hafta þannig að tryggja megi hvort tveggja stöðugleika og frjáls viðskipti. Óvissan um þetta er helsta ástæðan fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins eru komnir í blindgötu með áform sín um norræna kaupmáttarlíkanið.
Það er býsna alvarleg staða. Með hliðsjón af því sýnist vera kominn tími til að ríkisstjórnin sýni fyrirtækjum og launafólki hvernig það umhverfi verður sem tekur við eftir höft. Stundaglas hiksins með þau svör er að tæmast.
Landsfundarályktunin eða Framsóknarstefnan?
Að baki landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins býr sá veruleiki að hvergi hefur verið sýnt fram á með rökstuddum kenningum eða með tilvísun í reynslu að unnt sé að skapa umhverfi stöðugleika og frjálsra gjaldeyrisviðskipta í litlu myntkerfi.
Um leið og fyrsti áfangi til afnáms hafta er kynntur þarf ríkisstjórnin því að birta útfærða stefnumörkun sem sýnir fram á að hún geti það sem öðrum hefur enn ekki tekist.
Gerist það ekki verður efnahagsályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um nauðsyn þess að kanna aðra kosti stöðugt áleitnari sem andsvar við framtíðarstefnu Framsóknar og ríkisstjórnarinnar. Björt framtíð, Samfylkingin, VG og Píratar, sem hafa nú meirihlutafylgi í könnunum, ganga feti framar með því að vilja þjóðaratkvæði um hvort stefna eigi að upptöku evru.
Ríkissjóður notar reyndar þrjár myntir. Fyrst er almenna krónan. Síðan er það verðtryggða krónan sem virkar líkt og útlend mynt án þess að vera gjaldgeng á erlendum mörkuðum. Loks lætur ríkissjóður Landsvirkjun nota Bandaríkjadal. Öll stærstu útflutningsfyrirtæki landsins gera upp í evrum eða Bandaríkjadal. Almenna krónan er því fyrir minni fyrirtæki og launafólk.
Það er framleiðni atvinnufyrirtækjanna sem ræður mestu um kaupmátt launa. Þegar Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins kalla eftir skýrri stöðugleikastefnu í peningamálum er það til þess að búa til umhverfi sem líklegt er til að auka framleiðni og bæta kaupmátt.
Markmiðið með krónustefnunni er hins vegar að búa til umhverfi þar sem auðvelt er að flytja verðmæti frá launafólki til útflutningsfyrirtækja með gengislækkunum. Það er síður líklegt til að auka framleiðni og styrkja kaupmátt.
Draga má fram hagfræðilega kosti og galla við báðar leiðirnar. En frá pólitísku sjónarhorni merkja fréttir síðustu daga að ríkisstjórnin hefur náð það langt að rökræða og reiptog um þessi ólíku sjónarmið hlýtur að setja sterkan svip á stjórnmálaumræðuna fram að kosningum. Þær munu snúast um hvaða gjaldmiðils- og peningastefna tekur við eftir höft.