Af kögunarhóli var heiti á pistlum sem ég skrifaði reglulega í Fréttablaðið um stjórnmál líðandi stundar frá 2009 til 2014. Eftir að ég felldi þau skrif niður hafa ýmsir komið að máli við mig og hvatt mig til að taka til við skrif af þessu tagi á ný. Ég ætla nú að gera tilraun með það á þessari heimasíðu. Yfirskriftin á síðunni verður sú sama og á pistlunum í Fréttablaðinu.
Kögunarhóll stendur við suðvestur enda Ingólfsfjalls. Nafnið merkir sjónarhóll eða útsýnishæð. Hóllinn hreykir sér ekki hátt, en þaðan er góð sýn yfir flatlendið í Ölfusinu og Flóanum og til fjalla. Nafnið er eitt af fyrstu kennileitunum sem ég lærði í æsku minni á Selfossi og tengist þannig því umhverfi sem ræturnar eru bundnar í.
Jafnframt því að skrifa vikulega pistla um þjóðfélagsmálefni frá degi til dags hyggst ég smám saman birta hér greinar og ræður frá gömlum tímum og nýjum.
Í október 2014.