Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja

Þorsteinn Pálsson:
Samfélagsleg ábyrg fyrirtækja.
Ræða á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík, 15. nóvember 2006.

 

Það er góð spurning sem hér er varpað fram. Hún er ekki aðeins góð í þeirri merkingu að vera forvitnileg. Hún er góð fyrir það að vera öðruvísi og svolítið úr takt við tíðarandann.

 

Nú um stundir eru ýmis önnur orð meir í tísku en hugtök eins og ábyrgð og skyldur. Hitt gellur á hverjum degi hver eru réttindi manna. Og fram til þessa hefur það verið áhugaverðara að halda ráðstefnur um allt það sem menn geta með góðri samvisku sagt að réttur þeirra standi til.

 

Hér er brotið upp á þeirri nýbreytni að spyrja hvort fyrirtæki beri ábyrgð gagnvart samfélagi sínu. Spurninguna má jafnvel skilja svo að menn velti vöngum yfir því hvort fyrirtæki beri skuldbindingar umfram þær sem felast í viðskiptasamningum þeirra.

Þarf stjórnandi fyrirtækis að leiða hugann að siðrænum viðfangsefnum? Hefur hann skuldbindingar gagnvart samfélaginu aðrar en þær sem stjórnvöld hafa mælt fyrir um í lögum, reglugerðum og stjórnvaldserinum? Þurfa einhverjir aðrir að hugsa um slíka hluti en þeir sem hlotið hafa sérstakt umboð almennings til þess? Er ekki nóg að þeir sjái um það?

 

Sú skoðun er ekki óþekkt að stjórnendur fyrirtækja eigi ekki að ljá öðru hugsun en að hámarka arðinn. Á það verður að fallast að hagnaðurinn er mælikvarði sem er engu síður mikilvægur stjórnendum fyrirtækja en tommustokkurinn trésmiðnum.

 

Ef veröldin er ekki flóknari en þetta er svarið við spurningu dagsins einfalt: Nei. Fyrirtækin bera enga samfélagslega ábyrgð. En ætli við flest höfum ekki af reynslu séð að samfélag manna er flóknara en svo að svar af þessu tagi sé fullnægjandi.

 

Frá því er sagt í sögu Guðmundar biskups að heilagir menn og ættstórir mæltu af gefnu tilefni þessi hughreytingarorð til konu nokkurrar: “eigi eru á öðrum löndum að jafnmiklum mannfjölda fleiri heilagir menn en á Íslandi, og halda bænir þeirra og vorar landinu uppi, en ella myndi fyrir farast landið.”

 

Hér var hin samfélagslega ábyrgð heilagra manna skýr. Bænir þeirra héldu landinu uppi. Við svo búið þurftu hvorki konur né karlar að óttast um hag sinn eða örlög. En metnaður Íslendinga var mikill. Þá þegar þurftum við miðað við vísitölu mannfjölda að eiga fleiri heilaga menn en aðrar þjóðir. Þar af leiðandi var síst ástæða til hugarvíls eða sálarkvala af einhverju tagi hér nyrst í úthafinu.

 

Nú er heimurinn flóknari. Það eru ekki lengur heilagir menn einir sem halda landinu uppi. Þar koma fleiri við sögu. Leikarar og rithöfundar, ímyndarsmiðir og útrásarmenn svo að einhverjir séu nefndir til sögunnar. En hverjar eru samfélagslegar skyldur þeirra við að halda landinu uppi?

 

Við heyrum sögur frá Danmörku um að hinir nýju upphaldsmenn Íslands sem prófessor Guðmundur Finnbogason kallaði svo hafi á sér misjafnt orð. Svar við þeim aðdróttunum má hins vegar finna í þessum texta eftir Ludvig Holberg frá 1729:

 

“Að því er viðkemur lærdómi og mannsasiðum þá halda margir vegna hinna slæmu frásagna er birst hafa um landsmenn að á Íslandi sé hvorki kristni skírn né lærdómur, og að Íslendingar hafi nálega ekkert annað mannlegt við sig en skpöpulagið, en þar skjátlast þeim stórkostlega.”

 

Holberg komst semsagt að þeirri niðurstöðu að þeir sem þannig töluðu um Íslendinga skjátlaðist fyrir þá sök að þeir hafa sitthvað annað mannlegt við sig en bara sköpulagið sjálft. En hvað er þetta sem gerir okkur að betri mönnum en margir Danir héldu þá og sumir halda nú?

 

Ætli svarið felist ekki í því að trésmiðurinn sem byggir hús notar fleiri skilningarvit en það eina sem dugar til að lesa á tommustokkinn. Hann leiðir bæði hugann að undirstöðum og umhverfi áður en hann ræðst í verkið.

 

Ætli svarið felist ekki líka í því að þeir sem stýra straumi peninganna í fyrirtækjum landsins hafa notað mannlegt innsæi til þess að lesa af fleiri mælikvörðum í umhverfinu en ársreikningurinn einn segir til um. Það þarf meira til að vera maður en sköpulagið. Það þarf meira til að græða en krónur.

 

Halldór Laxnes skapaði þann mikla athafnamann og síldarkóng Bersa Hjálmarsson. Eftir að hafa rekið síldarstúlkurnar heim þegar síldin hvarf lýsti hann hinni köldu hlið auðvaldslögmálsins með þessum orðum: Þeir veita ekki lán út á ekkjur í London; guð ekki heldur.

Þessu var á annan veg farið hjá Birni gamla í Brekkukoti. Hann seldi soðninguna alltaf á sama verði hvort heldur framboðið var meira eða minna. Eða eins og segir í sögu hans: Þessi maður bar í brjósti sér dularfullan mælikvarða á peninga. Var þessi mælikvarði réttur eða rangur? Var kanski mælikvarði bankans réttari?

 

En eins og flestir vita var mælikvarði Björns í Brekkukoti ekki rangari en svo að flestir komu að versla við hann einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum.

 

Þessar persónur eru bara dæmi um þá miklu arfleifð sem Halldór Laxnes lét eftir sig. Ísland er ríkara land fyrir vikið. Sú þjóð sem hefur alið af sér slíkan rithöfund hefur eitthvað mannlegt við sig. Vera má að sá mannlegi þroski sé þeim Íslendingum stoð sem þurft hafa að reiða sig á traust og tiltrú banka í London ekki síður en Íslandsbersi.

 

Rithöfundur sem heldur á handriti er með verðlaus blöð í höndum þangað til einhver fæst til að gefa þau út á bók. Halldór Laxnes stóð sjálfur í þeim sporum. En hann eins og fleiri listamenn, ritöfundar, málarar eða tónlistarmenn áttu hauk í horni þars sem var Ragnar í Smára.

 

En hvaða mælikvarða notði Ragnar í Smára þegar óþekktur höfundur kom með handrit, málari með litasamsetningu eða tónlistamaður með hljóðpípu sína? Voru það peningar, innsæi eða bara hjartagæska?

 

Í afmælisgrein lýsir Laxnes röksemdum Ragnars í Smára í kappræðu um fjárhagsstöðu listanna með þessum orðum:

 

“Hann varði þann málstað að hlutverk peninga væri að auðvelda tilfærslu á verðmætum innan þjóðfélagsins, þeir væru aflgjafi til þess að nauðsynlegar tilfærslur gætu átt sér stað, en hefðu ekkert annað gildi: “ég sýð kæfu, þú spilar á hljóðpípu, peningarnir eru brúin á milli okkar.”

 

Ef þjóðin heldur eins og sumir stjórnmálamenn gera að hún rísi ekki undir því að heyra spilað á hljóðpípu, þá er það af því menn eru búnir að gleyma í hvaða skyni peningar eru búnir til.” – Hér var engin tæpitunga töluð.

 

Í dag efast enginn um að skilningur Ragnars í Smára var happ fyrir Halldór Laxnes. En hitt er ekki þýðingarminna að hann var gæfa fyrir íslensku þóðina. Gefum okkur að brúarsmíð af þessu tagi sé hverri þjóð mikilvæg og að öðrum kosti haldist hún ekki uppi. Þá er spurningin: Hverjir eiga brúarsmiðirnir að vera?

 

Einhverjir kunna að segja: Það eru stjórnmálamennirnir. Þeir einir geta tryggt réttlætið. En þá má spyrja á móti: Hvers vegna búa þeir ekki líka til verðmætin sem flutt eru á milli? Svarið er einfalt: Reynslan hefur kennt okkur að ekkert kerfi ræður við þá fjölbreytni sem þarf til að búa til þau verðmæti sem þjóðirnar lifa á.

 

Þá vaknar önnur spurning: Á þá ekki það sama við um skilningin á þeirri fjölbreyttu flóru annarra verðmæta sem við viljum sjá og upplifa í umhverfi okkar? Þeirri sem við ætlum að láta blómgast með því að nota peningana sem brú til að flytja til verðmæti. Það er erfitt að svara þeirri spurningu á annan veg en játandi.

 

Sannaleikurinn er sá að ekkert þjóðfélag getur þrifist á réttindum einum saman. Það sem gerir mannlegt samfélag eru skuldbindingar og ábyrgð. Þær hvíla á öllum. Þeim sem vita um fjárhagsstöðu sína með því að opna veskið og hinum sem ráða yfir svo miklum fjármunum að enginn vegur er að sjá endimörk þeirra landamæra nema með því að hafa tugi reikniglöggra manna til þess að draga þau upp.

 

Peningarnir eru vissulega afl eins og Ragnar í Smára hélt fram. En þeir eru hlutlausir rétt eins og tommustokkurinn. Í þeim er ekki fólginn afstaða til umhverfsins. Í mannlegu samfélagi getur hins vegar enginn komist hjá því að taka afstöðu byggða á siðrænu mati til umhverfisins.

 

Kjarni þessa máls er sá að í samfélagi mann er enginn eyland. Allir eru með einum eða öðrum hætti bundnir öðrum. Í daglegu lífi skynja flestir böndin sem tengja saman fjölskylduna. Þeir skynja átthagaböndin og þau bönd sem halda heilli þjóð saman. Og í vaxandi mæli skynjum við að útilokað er að heyra um og sjá neyð fólks í fjarlægum löndum og hreyfa hvorki legg né lið.

 

Það sem okkur er ætlað að ræða hér er hvernig beita eigi því afli sem við vitum að fólgið er í mörgum fyrirtækjum. Eiga þau að vera í því hlutverki að sjóða kæfu til þess að aðrir geti spilað á hljóðpípu? Við vitum að þau geta verið farvegur til þess að flytja slíkar skuldbindingar af stigi hugsunar til veruleika. En viljum við að þau séu það?

 

Margir hafa haldið því fram að þær umbreytingar sem gerst hafa með ógnarhraða á síðustu árum hafi ekki bara aukið hagsæld. Þær hafi líka leyst bönd þeirra skuldbindinga sem eru forsenda sérhvers siðaðs samfélags manna.

 

Margvísleg upplausn í þjóðfélagi okkar, rétt eins og ýmsum öðrum, er vissulega til marks um að þetta kunni að vera rétt mat. En dæmin um það gagnstæða eru líka skýr og afgerandi. Ærin ástæða er til að halda þeim merkjum uppi.

 

Þó að fyrirtæki heiti lögaðilar samkvæmt regluverki ríkisins eru þau í raun og veru ekkert annað en fólk og til þess að þjóna fólki. Um skyldur þeirra í samfélaginu gilda því sömu lögmál og um fólkið sjálft.

 

Þetta hafa margir skilið í gegnum tíðina og þetta skilja margir í nútímanum. Ég hef ekki haft tök á að bregða á það mælistikum. En það getur ekki farið framhjá neinum að þessum skyldum sinna fyrirtæki í ríkum mæli. Sem betur fer er það hins vegar handan við mannlega hugsun að segja hvenær slíkur mælir er fullur.

 

Sum fyrirtæki láta fé af hendi rakna til þjóðþrifamála af ýmsu tagi í auglýsingaskyni. Þau telja að það bæti ímynd þeirra. Það er góðra gjalda vert og ekkert við það að athuga. Önnur láta minna fara fyrir framlögum sínum. Það er ekki síður lofsvert.

 

Íþróttamenn vita að skilningur fyrirtækja hefur létt þeim róðurinn. Á margvíslega vísu hefur íslensk menning notið þess að fyrirtækin hafa gert sér grein fyrir skuldbindingum sínum á því sviði. Og framlög fyrirtækja hafa ratað til þeirra sem búa við sára neyð. Þannig mætti lengi telja.

 

Í mínum huga er menntunin stærsta og mikilvægasta samfélagsverkefni okkar tíma. Auðlegð og andi framtíðarinnar er fólginn í því starfi. Án aðkomu fyrirtækja verður það starf snauðara og aflminna en ella. Í bráð og lengd eru þessir hagsmunir sameiginlegir. Það hefur sannarlega aukið gleði mína að sjá fyrirtæki taka þessi viðfangsefni alvarlegum tökum og af miklum þunga.

 

Samfélagsleg ábyrgð er hins vegar annað og meira en peningar eða hlutir sem brugðið verður á hefðbundnum mælistikum. Á þessum tímum hins mikla réttindatilkalls er eins og það vilji gleymast að háttvísi og virðing eru lykilatriði í öllum samskiptum manna.

 

Þeir sem stjórna fyrirtækjum þurfa því að leggja rækt við mannvirðingu. Starfsmenn eru ekki mengi í bókhaldi. Þeir eru einstaklingar, ólíkir að upplagi og hæfileikum sem rétt er og skylt að virða í margbreytileik sínum. Hluti af vandamálum samtímans á rætur að rekja til skorts á gagnkvæmri virðingu í mannlegum samskiptum. Fyrirtækin bera hér samfélagslega ábyrgð eins og aðrir.

 

Um öll þessi verkefni sem hér hafa verið talin má að sjálfsögðu setja lög og reglur. Með skattareglum má nota peninga sem brú til þess að færa verðmæti úr einum stað í annan. Við setjum reglugerðir um samskipti við fólk. Allt er þetta gott og blessað og reyndar óhjákvæmilegur þáttur í lýðræðislegu þjóðskipulagi.

 

Mannlífið og viðfangsefni þess eru hins vegar flóknari en svo að þau verði öll leyst með regluverki. Samfélagslegar skyldur hvíla af þeim sökum á einstaklingum og fyrirtækjum í ríkari mæli eftir því sem framvindan verður hraðari og margslungnari.

 

Þeir sem halda uppi heilbrigðu samfélagi manna eru þeir sem skynja og skilja þær skuldbindingar sem á herðum okkar hvíla. Áður fyrr var sú ábyrgð öðru fremur á heilögum mönnum. Nútíma samfélag krefst þess að þessi skilningur sé almennur og nái til fyrirtækja jafnt sem einstaklinga.

 

Ég þakka Háskólanum í Reykjavík fyrir frumkvæði hans að þessari umræðu hér í dag. Það er von mín að þeir fyrirlesarar sem hér tala í dag megi dýpka og breikka þessa umræðu og umfram allt færa hana út í þjóðlífið. Á viðfangsefninu eru margar hliðar og sjálfsagt ekkert einhlítt svar við hinni stóru spurningu dagsins.

 

Hitt vitum við að svo lengi sem við búum í mannlegu samfélagi hvíla á okkur margvíslegar siðrænar skuldbindingar. Og mannleg viljum við sýnast meir en af líkamsbyggingunni einni saman.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

28. November 2006