Þjóðkirkjan og lýðræðið

Þorsteinn Pálsson:
Þjóðkirkjan og lýðræðið.
Ræða í Skálholti 23. ágúst 2009.

 

 

 

Hver sá sem gengur í hlað á Skálholti tengist eins og ósjálfrátt mikilli sögu. Hún endurspeglar trú, menningu og vald í aldanna rás. Hér er því kjörinn staður til að ræða stöðu þjóðkirkjunnar í samhengi við ríkjandi hugmyndir um lýðræði í samfélagi nútímans.

Lýðræðið er hornsteinn þeirrar samfélagsgerðar sem hér hefur þróast með svipuðum hætti og í öðrum ríkjum í heimshluta okkar. Flókið samspil stjórnarskrárverndaðrar þjóðkirkju og lýðræðis er fyrir þá sök krefjandi viðfangsefni á hverjum tíma.

 

Sjálft orðið þjóðkirkja felur í sér skírskotun til þeirra grundvallar hugmynda sem liggja að baki ríkjandi stjórnarháttum. Það leiðir af eðli máls að þjóðin sjálf hafi nokkuð að segja um þjóðkirkjuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Böndin milli þjóðar og kirkju í nútímanum eru sannarlega ofin úr þráðum hugmynda um lýðfrelsi og mannhelgi.

 

Sagan kennir okkur á hinn bóginn að þau bönd hafa verið hnýtt ólíkum hnútum í framgangi tímans. Af þeirri staðreynd getum við dregið þá ályktun að viðfangsefnið er viðvarandi. Það tekur mið af þóun samfélagsins og þeirra hugmynda, sem móta gerð þess.

 

Trúin sjálf eða kenningin sem hún er reist á lýtur að sönnu ekki lögmálum lýðræðislegra ákvarðana. Starf kirkjunnar við boðun kenningarinnar og tengsl kirkjunnar við samfélagið grundvallast þar á móti með margslungnum hætti á lýðræðishugmyndum í víðtækri merkingu þess orðs.

 

Reglur samfélagsins eru í flestum greinum sprottnar af rót sömu siðferðishugmynda og lögmál kirkjunnar. Veraldleg og andleg ræktun þeirra myndar einn vef sem ekki er með góðu móti unnt að rekja í sundur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á landi okkar hafa þessir gagnvegir ríkis og kirkju legið saman frá öndverðu. Sagt er að við trúnni hafi verið tekið af lýði. Sanni nær er að segja að því hafi ráðið ákvörðun helstu höfðingja á Alþingi. Ef til vill er merkilegast við þá ákvörðun að meirihluti heiðingja beygði sig fyrir minnihluta kristinna manna í landinu.

 

Þeir atburðir gefa ástæðu til að ætla að stjórnskipuleg tilurð trúar og kirkju í landinu hafi allt eins orðið fyrir valdboð en lýðræðisást. Smám saman verður kirkjan bæði andleg og veraldleg valdastofnun.

 

Með siðaskiptunum binst hún ríkisvaldinu með ákveðnum hætti og verður hér og á öðrum Norðurlöndum stofnun á þess vegum. Á tímum einvaldskonunganna segir fátt af samspili lýðræðis og kirkju. Kirkjan laut einfaldlega lögmáli stjórnarhátta þeirra tíma.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sem menningarstofnun varð kirkjan á hinn bóginn einn farvegur af mörgum á átjándu og nítjándu öld fyrir þá nýju strauma sem féllu fram í átt til lýðfrelsis og sjálfstæðis. Með stöðulögunum frá 1871 verða kirkjumálin sérmál landsins hvað sem segja má um gildi þeirra laga.

 

Þjóðkirkjan er svo fyrst nefnd því nafni í stjórnarskránni sem konungur gaf 1874. Í reynd hefur íslenska kirkjan þó sennilega notið sambærilegrar stjórnskipulegrar verndar frá því danska stjórnarskráin var sett 1849, þótt Íslendingar hafi ekki viðurkennt hana. Álitamál er hvort Íslendingar öðluðust trúfrelsi aldarfjórðungi síðar en Danir af þeim sökum. Hvað sem því líður verður að líta svo á að með fyrstu íslensku stjórnarskránni verði vatnaskil í kirkjusögu landsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórnkerfisbreytingin í Danmörku á fyrsta ári tuttugustu aldar leiddi til þingræðis og heimastjórnar hér þremur árum síðar. Frá þeim tíma hafa lýðræðið og krikjan átt ótvíræða samleið í stjórnskipulegum skilningi.

 

Að hinu má svo færa skýr rök að hugmyndaheimur kristinnar trúar sé ein helsta uppspretta lýðræðislegs skilnings og hugsunar. Skýringar á því orsakasamhengi falla þó fyrir utan efni þessa samfundar okkar í dag.

 

Framkvæmdavald kirkjunnar var löngum í höndum framkvæmdavalds ríkisins. Eftir því sem löggjafarvaldið eflist færist æðsta vald í málefnum kirkjunnar inn á þann vettvang. Þegar þingræði er komið á má segja að allar helstu ákvarðanir um kirkjuleg málefni séu teknar á forsendum lýðræðisins af handhöfum ríkisvaldsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðgreining guðslaga og landslaga heyrir nú sögunni til. Sérstakir dómstólar kirkjunnar liðu undir lok. Hún lýtur nú dómsvaldi ríkisins sem til hefur verið stofnað með lýðræðislegum ákvörðunum.

 

Stofnun sóknarnefnda var eitt af fyrstu lýðræðisskrefunum. Síðar eða í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar var kirkjuráð stofnað. Kirkjuþing kemur síðan til sögunnar á sjötta áratugnum. Það var afgerandi breyting til að efla lýðræði innan kirjunnar. Um leið var byrjað að draga úr áhrifum ríkisvaldsins.

 

Í bréfi Finns Jónssonar biskups frá 1780 segir: “Eg hefe giört, hvað eg hefe kunað til þess að upplýsa Historiam Patriæ, serdeilis quo ad Ecclesiastica, en þau og Politica eru so skylld, að ei verða vel sundurskoren án annarshvörs skaða, en fer þó alltið betur að aðgreind séu.”

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Segja má eð ekki sé fjarri lagi að lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 hafi verið ávöxtur áþekkrar hugsunar. Með öðrum orðum: Það yrði til skaða að skilja algjörlega á milli ríkisvalds og kirkju. Betur færi á að málefni hvors um sig yrðu aðgreind og kirkjan fengi sem mest sjálfstæði í eigin málum en stjórnskipulegi hlekkurinn héldist.

 

Þessi löggjöf færði vald frá Alþingi og stjórnarráði til kirkjunnar í ríkum mæli. Hún fékk vald um setningu reglna og fullt forræði í framkvæmdasýslu um flest innri málefni sín eða heimamálefni sem þau má eins kalla. Vel má því vera að þessi löggjöf hafi í kirkjustjórnunarlegu tilliti markað svipuð tímamót og heimastjórnarlögin gerðu á sinni tíð að því er tekur til landsstjórnarinnar.

 

Þrátt fyrir þessa nýju stjórnsýsluhætti kirkjumálanna er stjórnarskráin í skilningi lögfræðinnar enn sú kjölfesta sem lýðræðisleg skipan þeirra byggir á.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þó að engum komi til hugar að aftur verði snúið með sjálfstæði kirkjunnar sækir hún umboð sitt til stjórnunar eigin mála til stofnana ríkisins, fyrst og fremst löggjafarvaldsins.

 

Alþingi hefur að sönnu framselt stofnunum kirkjunnar vald til að setja kirkjunni stjórnsýslureglur og framkvæma þær. Æðsta vald í málefnum kirkjunnar er þó í höndum Alþingis.

 

Líta verður svo á að stjórnarskráin útiloki að það vald sé látið af hendi fyrir fullt og allt og óafturkallanlega þó að það megi framselja. Endanlegt valdaafsal getur aðeins gerst með stjórnarskrárbreytingu.

 

Í Íslenskum kirkjurétti, sem út kom 1912, kemst Einar Arnórsson að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjan sé landsstofnun og ein af stofnunum ríkisins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann ályktar einnig á þann veg að kirkjan eigi ekki lagaheimting á sjálfsstjórn að nokkru leyti, og almenna löggjafarvaldið væri ekki bært til þess að veita kirkjunni slíkt vald.

 

Í athugasemdum með frumvarpinu um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá miðjum síðasta áratug kemst þáverandi ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjan sé ekki framlengdur armur ríkisvaldsins eða einn angi þess.

 

Hún sé því ekki ríkisstofnun í venjulegri merkingu þess orðs. Miklu fremur þjóðfélagsstofnun sem njóti sjálfstæðis með stjórnarskrárbundnum stuðningi ríkisvaldsins.

 

Enginn vafi var þá talinn vera á heimild Alþingis til að framselja kirkjunni vald til að setja reglur um innri málefni eða heimamálefni sín og fara með sjálfstæða stjórnsýslu til að framkvæma þær.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórnarskrárákvæðin eru lítt breytt. Þróun réttarhugmynda og lýðræðis hafði á hinn bóginn leitt til þess að þau voru undir lok síðustu aldar túlkuð með rýmri hætti en á fyrstu árum hennar. Fyrir þá sök var þessi breyting möguleg án þess að fella stjórnarskrárákvæðið úr gildi eða breyta því. Hér hafði orðið framþróun í heimi hugmynda um valddreifingu og lýðræði. Hún var einfaldlega hagnýtt.

 

Segja má að lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar séu vísir að eins konar grundvallarlögum hennar. Þar er kveðið á um kennivald biskups og lýðræðislega meðferð mála á vettvangi stofnana hennar sjálfrar svo sem kirkjuþingi og kirkjuráði. Að þeim ákvörðunum koma leikir og lærðir meðlimir þjóðkirkjunnar einir.

 

Engar kvaðir eru þar á móti um að þeir sem fara með vald í málefnum kirkjunnar á vettvangi löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins tilheyri henni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvorki forseti Íslands né ráðherra kirkjumála þurfa að vera í þjóðkirkjunni.

 

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni. Alþingi endurspeglar eigi að síður nokkru stærra samfélag. Ekki verður litið svo á að það raski með nokkru móti stöðu þess til að setja með hefðbundnum lýðræðislegum hætti reglur um starfshætti þjóðkirkjunnar með þeim takmörkunum sem ráða má af stjórnarskránni.

 

Þessu var á nokkuð annan veg farið meðan Ísland var konungsríki. Konungur Danmerkur skal samkvæmt stjórnarskrá tilheyra evangelisk-lúterskri kirkju. Á sínum tíma virtist Einari Arnórssyni að ráðherra yrði óhjákvæmilega að vera þjóðkirkjumaður. Öld síðar verður með engu móti litið svo á að það sé skilyrði til að gegna embætti kirkjumálaráðherra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórnarskráin mælir ekki fyrir um hvernig vernd þjóðkirkjunnar og stuðningi við hana skuli háttað. Eftir eðli máls og venju er það löggjafans að sjá svo um að það ákvæði sé virkt og ákveða hvar þau mörk liggja hvort heldur sá stuðningur er fjárhagslegur eða af öðrum toga.

 

Um breytingar á stjórnarskránni gildir sú almenna regla að kjósendur eiga aðeins óbeina aðild að þeim. Alþingi er stjórnarskrárgjafinn. Um þjóðkirkjuákvæðið gildir hins vegar sérregla. Því má breyta með almennum lögum enda hljóti þau staðfestingu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo háttar um þetta eina stjórnarskrárákvæði að því verður aðeins breytt með beinni lýðræðislegri ákvörðun kjósenda.

 

Álitamál kanna að vera hvort stjórnarskrárvernd þjóðkirkjunnar getur breyst af öðrum ástæðum. Einar Arnórsson telur í Íslenskum kirkjurétti að þjóðkirkjan standi þó að hún verði hugsanlega minnsti söfnuður landsins. Sú ályktun orkar tvímælis.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í Danmörku hafa lögfræðileg sjónarmið verði færð fram fyrir því að stjórnarskrárverndin falli niður ef þær aðstæður komi upp að þjóðkirkjan hýsi ekki lengur meirihluta þjóðarinnar.

 

Eftir þessu gæti þjóðkirkjuákvæðið orðið óvirkt vegna þróunar rétt eins og því má breyta með einni lýðræðislegri ákvörðun. Í báðum tilvikum er það atbeini fólksins sem ræður för.

 

Í ljósi sögulegrar skírskotunar og réttarþróunar verður að telja líklegt að svipuð sjónarmið um túlkun yrðu talin góð og gild hér ef svo ólíkilega færi að spurning af þessu tagi yrði raunhæf í náinni framtíð. Álíta verður sem svo að slík túlkun sé í góðu samræmi við ríkjandi lýðræðishugmyndir nú um stundir.

 

Stjórnarskráin mælir fyrir um að evangelisk-lútersk kenning ríki í þjóðkirkjunni. Þar um getur Alþingi þar af leiðandi ekki vélað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lýðræðislegt vald Alþingis nær einfaldlega ekki til að breyta kenningunni. Það geta stofnanir kirkjunnar ekki heldur gert að óbreyttri stjórnarskrá, þrátt fyrir aukna sjálfstjórn.

 

Áður fyrr löggilti framkvæmdavaldið hér helgisiðabækur þjóðkirkjunnar og veitti leyfi til að nota barnalærdómsbækur og sálmabækur. Í Danmörku sem býr við sams konar stjórnarskrárákvæði og hér gilda þarf útgáfa sálmabókarinnar enn að hljóta staðfestingu konungs.

 

Trúlega gæti Alþingi á ný gert sambærilegan áskilnað hér á landi um atbeina framkvæmdavaldsins. Um það er á hinn bóginn góð sátt hér að kirkjuleg og kenningarleg viðfangsefni af þessu tagi falli nú utan við ábyrgð ríkisvaldsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Árið 1628 varð messuvínsþurrð hér í Skálholtsstifti með því að skip komu ekki eftir vanda það vor. Af því tilefni var kveðinn upp dómur á prestastefnu á Þingvelli, staðfestur í lögréttu og af umboðsmanni. Þar segir:

 

“Nú með því vér vitum, að margir af almúganum muni hér um vera óstöðugir, óþolinmóðir og samvizkuveikir, svo þeir láta á sér heyrast, að þeir vilji heldur vatn á kaleikinn en ekki par, þá virðist oss í engan máta líðandi né leyfandi að í neinni nauðsyn sé umskipt því elementi, víninu í sakramentinu, eða neitt annað á kaleikinn gefið, heldur skal það með öllu fyrirboðið og afdæmt.”

 

Talið var nauðsynlegt að lögrétta staðfesti þessa ákvörðun, enda var löglega bevísað brot afsetningarsök . Í dag er vafasamt að vald Alþingis nái til álitaefnisins með því að það snýr að sakramentinu sjálfu og hvað samrýmanlegt getur talist evangelisk-lúterskri kenningu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Telja verður hæpið að það samrædmdist stjórnarkránni að Alþingi sett lög um að slíkt brot varðaði embættismissi.

 

Fullyrða má að ágreiningslaust sé að mál af þessu tagi skuli ráðast innan veggja kirkjunnar og af þjóðkirkjumönnum einum. Meðan prestar hafa réttindi og skyldur opinberra starfsmanna getur kirkjan hins vegar ekki sett prestum strangari viðurlög fyrir þessa sök eða aðrar en embættismenn ríkisins þurfa almennt að þola, til að mynda embættismissi.

 

Í bréfi Kansellíisins frá því í október 1828 segir svo: “Hinn sjöunda þessa mánaðar hefur Hans hátign allramildilegast þóknast að úrskurða, að þegar kirkjur eru byggðar að nýju, þá skuli öllum hurðum þannig hagað, að þeim verði lokið upp að innan og gangi út.”

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ekki verður séð að stjórnarskráin takmarki vald Alþingis til að heimila framkvæmdavaldinu að setja slíkar sérreglur um kirkjuhurðir, enda er bréfið enn birt í lagasafni.

 

Hvað sem því líður má fullyrða að í dag þyki rétt og eðlilegt að safnaðarstjórnir taki ákvarðanir hér um í samræmi við almenna byggingarskilmála. Um þess konar atriði takmarkast sjálfstjórn kirkjunnar þá aðeins við þær almennu reglur sem aðrir sæta í samfélaginu.

 

Staða þjóðkirkjunnar er sérstök að því leyti að ríkisvaldinu ber að styðja hana og vernda. Á sama hátt er hún sérstök á þann veg að hún er eina trúfélagið sem eftir stjórnarskránni þarf að lúta ákvröðunum ríkisvaldsins um margvísleg innri málefni sem trúfrelsisákvæðið ver önnur trúfélög gagnvart.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta kann að virðast mótsagnakennt. En við nánari skoðun leiðir þessi skipan mála með eðlilegum hætti af þeim sérstöku tengslum ríkis og kirkju sem stjórnarskráin mælir fyrir um.

 

Sú stjórnskipulega staða verður þó ekki talin til marks um að þjóðkirkjan sé ríkisstofnun. Réttarþróunin hefur einfaldlega gengið til annarrar áttar.

 

Sú almenna löggjöf sem nú hefur gilt í rúman áratug um sjálfstjórn þjóðkirkjunnar var annað og meir en tæknileg viðbrögð við nýjum aðstæðum. Hún var í reynd ávöxtur lýðræðislegrar hugsunar margra forystumanna þjóðkirkjunnar.

 

Varasamt er að líta á löggjöfina sem endanlega eða óhagganlega niðurstöðu um þau álitamál sem tengjast lýðræði og stjórn kirkjumála.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikilvægt er að þessi skipan mála verði mótuð og þróuð í ljósi reynslunnar á þann veg sem menn á hverjum tíma telja hentugastan til að þjóna markmiðum kirkjunnar.

 

Vel mætti þannig skoða þá hugsun að lögin yrðu að formi og efni þannig úr garði gerð að þau gengju út frá óskoruðu frelsi þjóðkirkjunnar til þess að setja sjálf reglur um innra starf sitt og stjórnsýslu í öllum greinum með þeim einu takmörkunum sem löggjafanum þykir rétt að setja. Þá yrðu lögin öllu einfaldari og að formi líkari grundvallarlögum.

 

Annað atriði sem kirkjan sjálf þarf að hugsa á komandi tíð er hvort hún kýs að láta presta lúta réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Niðurstaða slíkrar umhugsunar er ekki sjálfgefin. Álitaefnið er eigi að síður umhugsunarvert frá kögunarhóli kirkjulýðræðis.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það tengist til að mynda spurningum um það hvort kirkjan vill sjálfstæði til að setja starfsmönnum sínum aðrar siðareglur en samfélagslöggjöfin hefur mótað gagnvart öðrum embættismönnum.

 

Verði grundvallarlöggjöfin um málefni kirkjunnar einfölduð enn meir vaknar spurning hvort tilefni sé til að kenna sérstakt ráðuneyti við kirkjuna. Eins vel gæti farið á því að forsætisráðherra bæri ábyrgð á kirkjulöggjöfinni og færi með þau mál af hálfu framkvæmdavaldsins í þeim litla en mikilvæga mæli sem á reynir.

 

Þeir forystumenn þjóðkirkjunnar sem frumkvæði höfðu um þær lýðræðisumbætur sem nýja löggjöfin færði krikjunni hafa markað spor sín í sögu hennar. Hitt var ánægjan ein að eiga þess kost frá hlið framkvæmdavaldsins að fella þær hugmyndir í fastan farveg, koma þeim lagabúning og afla málinu stuðnings á Alþingi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þjóðkirkjuskipulagið er hluti af norræni menningarhefð. Á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar mæla skynsemisrök með því að þeim lýðræðislegu manngildishugsjónum, sem sú hefð er sprottin upp af, verði ekki raskað með því að breyta þeirri skipan mála

 

Hitt er annað að þjóðkirkjuskipulagið þróast á komandi tíð rétt eins og þeirri sem liðin er. Eðlilegt er og rökrétt að varða þá leið með hugmyndum um sterkari lýðræðislega sjálfstjórn.

 

 

 

Heimildir:

Magnús Guðjónsson, Saga kirkjuráðs og kirkjuþings, Skálholtsútgáfan 1996.

 

Hans Gammeltoft Hansen, Grundloven, relegionsfriheden og Folkekirken, Folketinget 1999.

 

Jón Pétursson, Íslenskur kirkjuréttur, Reykjavík 1863.

 

Einar Arnórsson, Íslenskur kirkjuréttur, Reykjavík 1912.

 

Halldór Hermannsson, Eimreiðin XVII ár, Kaupmannahöfn 1911.

 

Alþingisbækur Íslands V, Reykjavík 1922, 1925-1932.

 

 

28. August 2009